Bann dragnótaveiða í Faxaflóa

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 19:50:33 (5782)


[19:50]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Það má merkilegt teljast að ágætir þingmenn sem þessa þáltill. flytja eru að vitna til áranna áður fyrr og telja nú enn einu sinni að rannsókna þurfi við varðandi bolfisksafla í Faxaflóa. Það má líka teljast merkilegt þegar það er haft í huga að dragnótaveiðar í Faxaflóa skapa nokkur hundruð mönnum atvinnu, þá skuli þáltill. koma fram um það að nú eigi að stöðva þessar veiðar og þar með bæta enn á atvinnuleysið.
    Rannsóknir í gegnum árin hafa nefnilega sýnt að dragnótaveiðar í Faxaflóa eru ekki skaðlegar. Það liggur alveg ljóst fyrir. Í fyrsta lagi vegna þess m.a. að veiðitímabilið er frá 15. júlí til 15. nóv. og veiðitími takmarkast frá kl. 6 á morgnana til kl. 8 á kvöldin. Sl. haust hefur verið mjög mikil aukning á sandkolaveiði sem skapað hefur mikla vinnu og bátarnir hafa beitt sér sérstaklega að sandkola þar sem hann er utan kvótategundar. Það liggja engin vísindaleg rök frá Hafrannsóknastofnun fyrir gagnvart þessari þáltill. og þess vegna er eðlilegt að henni sé harðlega mótmælt. Ýsuveiði hefur ekki minnkað við Faxaflóa frekar en annars staðar á landinu.
    Vert er að taka fram að viðkomandi veiðar hafa skapað fjölda manns atvinnu og verið vaxtarbroddur í vinnslu á vannýttum tegundum sem Faxaflóabátarnir hafa verið frumkvöðlar að. Um 300 manns starfa við þessar veiðar beint og áætla má að útflutningsverðmæti á ári sé á milli 400--500 millj. Margir bátanna hafa skapað sér veiðireynslu í kola með dragnótaveiðum sem hefur skert þá í kvótum á öðrum fisktegundum.
    Einnig er umhugsunarvert að viðkomandi bátar eru nánast einu hefðbundnu vertíðarbátarnir sem eftir eru frá Reykjavík og Keflavík og eru þessar veiðar nú kjölfesta sem hefur haldið þeim í byggð. Allar útgerðirnar hafa lagt út í mikinn kostnað í veiðarfærum, nýjum spilum og öðrum búnaði tengdum þessum veiðum og sumir fórnað hefðbundnum vertíðarbúnaði í staðinn. Fullyrt hefur verið af sérfræðingi Hafrannsóknastofnunar að stíf suðvestanhátt hafi meiri áhrif á botn Faxaflóa en dragnótaveiðar. Ef Faxaflóa verður lokað fyrir kolaveiðum í dragnót mun nýting minnka sem því magni nemur vegna eðli göngu þessarar tegundar. Bátarnir sem stunda þessar veiðar verða að vera innan við 20 metrar á lengd sem takmarkar sóknargetu þeirra á dýpri mið.
    Hér er fyrst og fremst um að ræða þrýsting frá útgerðarmönnum smábáta undir 10 rúmlestum sem vilja sitja að Faxaflóanum einum og hafa hann út af fyrir sig. Það er málflutningur sem ekki kann góðri lukku að stýra enn fremur í ljósi þess að veiðisvæði fyrir kolaveiðar í dragnót er innan við 10% af hafsvæði flóans og veiðarnar aðeins stundaðar í fjóra mánuði á ári, eins og ég gat um áðan, og undir ströngu eftirliti. Bátarnir hafa reynt að spara sér skarkolakvótann fram á haustið svo að þeir nái góðum sandkolaafla er líður á vertíðina því sandkolinn veiðist seinni part ársins.
    Eins og vitað er hefur smábátum undir 10 rúmlestum fjölgað mikið á síðustu árum og tekið í sóknarmarki æ stærri hlutdeild af úthlutuðum heildarafla þorsks á kostnað skipa yfir 10 rúmlestum sem tekið hafa á sig sífellt meiri skerðingu í aflamarki. Margir bátar við Faxaflóa, 30--50 rúmlestir, hafa mætt þessari skerðingu með auknum veiðum í kola sem var og er vannýttur víða hér við land. Rétt er að benda á að þessi bátastærð, sem hefur stundað dragnótaveiðar, og bátar frá 10--50 rúmlestir eru þau skip sem einna verst hafa farið út úr kvótamálum hér við land og ekki er þetta á bætandi.
    Virðulegi forseti. Ég gæti haft langt mál um þessa dragnótaveiði og langt mál í andmælum mínum við þessa þáltill. en aðeins örstutt til viðbótar. Oft er því haldið fram að dragnót taki allan fisk sem fyrir henni verður hve smár sem hann er. Þetta er ekki rétt þegar möskvastærð er við hæfi. Tilraunir hafa sýnt að bolfiskur sleppur betur í gegnum dragnót heldur en botnvörpu með sömu möskvastærð. Þar að auki er möskvastærð í dragnót nú 170 mm en 150 mm í botnvörpu. Tilraunir Hafrannsóknastofnunarinnar með dragnót undanfarin ár hafa glögglega sýnt að mikill hluti ókynþroska skarkola smýgur gegnum þennan möskva.
    Eitt af því sem dragnót og botnvörpu hefur verið fundið til foráttu er að það er grugg í sjónum við botninn. Á þetta grugg að fæla fiskinn af miðunum þar sem togað er og jafnvel setjast í tálknin og drepa fiskinn. Í fyrsta lagi mun of mikið gert úr því gruggi sem dragnót veldur ef dæmt er eftir lýsingu sem Guðni Þorsteinsson og Jóhann Briem gáfu eftir köfun í Faxaflóa. Þeir segja: Voðin sjálf sveif létt við botn og snerti aðeins stöku bárutopp. Sáust einungis smárispur eftir hana í sandinum á stöku stað. Ekki var að sjá neitt grugg fyrir aftan voðina, einungis mjög smáa sandhvirfla við fótreipið.
    Í öðru lagi mun fiskurinn ekki vera mjög viðkvæmur fyrir gruggi í sjónum. Hægt er að toga á sömu slóð aftur og aftur og fá þó fisk og hann með hreinum tálknum, enda mun grugg ekki setjast í tálkn á lifandi fiski. Tálknin eru mjúk en laus við að vera slímkennd á meðan fiskurinn er lifandi og hrinda frá sér lausum aðkomuefnum. Þegar fiskurinn er dauður fara slímfrumurnar í slímhúðinni á tálknunum að bresta og innihald þeirra þekur þá tálknin á skömmum tíma. Þá loðir leir og önnur óhreinindi, sem komast í snertingu við tálknin, við þau. Á sama hátt verður roðið á fiskinum slímugt eftir að hann er dauður. Sé fiskurinn skolaður, þá má sjá að hér er um allt annað mál að ræða heldur en margir hverjir hafa haldið fram.
    Ótrú manna á dragnót á að miklu leyti rót sína að rekja til ofnotkunar hennar og botnvörpu áður og fyrr og þá með allt of smáum möskvum. Einnig vilja persónulegir hagsmunir blandast inn í dóm manna.
    Virðulegi forseti. Hér var ég að vitna til greinar Aðalsteins Sigurðssonar um skarkolaveiðar og kemur hann réttilega inn á og fer jafnlangt aftur í tímann og flutningsmenn þessarar þáltill. Það eru fordómar fortíðarinnar sem enn þá eru að hrjá allt of marga ágæta sæfarendur við Faxaflóa.
    Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, ætla ég ekki að hafa þetta mál langt tímans vegna en ég vil aðeins ítreka það að veiðar í dragnót á Faxaflóa eru ekki leyfðar nema á svæði sem þekur 10% af hafsvæði Faxaflóa.