Bann dragnótaveiða í Faxaflóa

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 20:00:49 (5784)


[20:00]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns er akkúrat það að samhengi á milli minnkunar ýsustofnsins er það sem er að gerast á hverjum tíma almennt í kringum landið. Faxaflói er ekki undanskilinn. En af því að hún spurði mig hvort rétt væri að leyfa 10 til 15 bátum að veiða í Faxaflóa, þá tel ég ekki eðlilegt að við séum að skipta okkur af því hve margir þeir eru svo lengi sem þeir eru ekki að ganga á stofninn frekar en raun ber vitni um og fiskifræðingar hafa ekki mælt í móti.
    Það er hins vegar athyglisvert að þingmaðurinn vitnaði til fyrirspurnar sinnar á síðasta þingi til sjútvrh. Það er athyglisvert að lesa svar sjútvrh. við fyrirspurninni. Hann svarar í bréfi sínu, með leyfi forseta:
    ,,Ráðuneytinu er ljóst að dragnótaveiðar sæta nokkurri gagnrýni frá smábátamönnum, en hins vegar verður að hafa í huga að við þessar veiðar eru fyrst og fremst teknar fisktegundir sem ekki fást í önnur veiðarfæri sem leyfilegt er að nota í Faxaflóa. Það má að vísu segja að hægt væri að ná hluta skarkolans í botnvörpu á öðrum tíma árs, einkum eftir að kolinn gengur út úr flóanum en þá er hann horaðri og þar af leiðandi lélegra hráefni sem mun minna verð fæst fyrir. Enn fremur er dýrara að ná honum í vörpu en dragnót. Má og minna hér á að þeir bátar sem dragnótaveiðarnar hafa stundað eru með háan skarkolakvóta sem mundi vart gagnast þeim nytu þeir ekki heimildar til veiða í Faxaflóa. Jafnframt hafa þessir bátar í raun sætt skerðingu í öðrum veiðiheimildum vegna þessara veiða.
    Til þess að sýna þýðingu þessara veiða og jafnframt það hve lítið er tekið af bolfiski við þessar veiðar skal þess getið að 1991 voru 1.250 lestir af skarkola og 800 lestir af sandkola veiddar í Faxaflóa en aðeins rétt um 150 lestir af þorski og ýsu samtals. Á síðasta sumri voru veiddar um 1.060 lestir af skarkola og 1.020 lestir af sandkola en aðeins 160 lestir af þorski og ýsu.
    Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður ekki séð að neinar forsendur séu fyrir því að hætta þessum veiðum og tel ég því einsýnt að þeim verði haldið áfram með svipuðum hætti og undir ströngu eftirliti eins og gert hefur verið til þessa.``
    Og síðast en ekki síst með það atvinnuástand eins og það er í dag, ágæti þingmaður.