Bann dragnótaveiða í Faxaflóa

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 20:06:04 (5787)


[20:06]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. 16. þm. Reykv. að það er ekkert gamanmál á ferðinni. Það er ekkert gamanmál á ferðinni í augum þeirra manna sem telja og hafa fyrir því fullgild rök að afli hafi farið verulega niður á þeim svæðum þar sem dragnót hefur verið leyfð á undanförnum árum. Mér þykir hv. 16. þm. Reykv. taka töluvert upp í sig þegar hann fullyrðir að allt í kringum landið hafi gerst það sama og hér á þessum tímum. ( GHall: Ég sagði að það fylgdi.) Það væri fylgni. Ég hef farið til Fiskifélags Íslands og beðið um samanburð á þessum hlutum og þessar tölur eru ekki til. Ég hef beðið um samanburð á því hvað hafi gerst á þeim tímabilum þegar hefur verið bannað að veiða í dragnót á þessu svæði og þær tölur sem eru til eru einungis þær upplýsingar sem fylgja í greinargerð með þessu frv. Ég held því að hv. þm. sé að seilast æðilangt í því að fullyrða að menn sem eru að gera út á þessum svæðum og þekkja best til séu að fara með rangt mál þegar þeir halda því fram að það séu slík áhrif á ferðinni sem hér er talað um.
    Síðan skulu menn líka hafa annað í huga. Það er hin stórkostlega breyting sem hefur orðið á þessu

veiðarfæri, dragnótinni. Þar er á ferðinni ekki helmingsstækkun, ekki margföldun, heldur stórkostleg stækkun á þessu veiðarfæri. Ég þori ekki að fara með stærðina og ætla ekki að fara að gera mig að fífli í ræðustól á Alþingi að segja það. En það er margfalt stærra veiðarfæri sem við erum með í höndunum nú en var fyrir fáeinum árum síðan. Og áhrifin af þessu veiðarfæri hafa af sumum verið talin lítil en af öðrum mikil. Rannsóknir sem hægt er að vitna í um áhrif af þessum veiðarfærum til langs tíma litið eru ekki til.
    Síðan þykir mér hv. 16. þm. Reykv. seilast langt í því líka þegar hann fer að færa fram sem rök fyrir máli sínu hve mikið af þorski veiðist með dragnótafiskinum þegar reglurnar um veiðarnar eru þannig að það má ekkert veiða meiri þorsk heldur en kemur á land. Punkt og prik. Þeir veiða nákvæmlega það sem þeir mega af þorski. Ofar geta þeir ekki farið því að það er gert upptækt sem þar fer fram yfir.
    Síðan finnst mér það líka furðuleg fullyrðing að halda því fram að þessi skip hafi orðið fyrir miklu meiri kvótaskerðingu heldur en önnur skip. Þau hafa orðið fyrir lítils háttar viðbótarkvótaskerðingu vegna þessara veiða en að öðru leyti ekki neinni kvótaskerðingu fram yfir önnur skip.
    Ég held því fram að ekki séu til nein vísindaleg rök sem menn geti sett fram vegna þess að rannsóknirnar eru ekki fyrir hendi. Ég var síðast í dag uppi í Fiskifélagi Íslands að biðja um að þetta mál yrði kannað betur og reynt að bera þetta saman þannig að annaðhvort yrði fullyrðingum þeirra manna sem eru að gera út á þessu svæði hnekkt eða þá þær yrðu sannaðar eða a.m.k. kæmu fram öruggar vísbendingar um það hvað hefur gerst á þessum tímum. Það er ekki einleikið að t.d. ýsuaflinn skuli hafa fallið svona eftir að dragnótaveiðar hafa verið leyfðar. Við hljótum að þurfa að hafa það í huga að þessi veiðarfæri eru orðin svona miklu öflugri nú en þau voru áður.
    Síðan langar mig að leiðrétta það sem hv. þm. sagði um að veiðarnar væru aðeins leyfðar í fjóra mánuði á ári. Hvað gerðist t.d. í haust? Ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra hafi framlengt a.m.k. tvisvar í heilan mánuð í einu þannig að á síðasta ári var a.m.k. leyfð dragnót í sex mánuði. Þannig hefur það verið áður. Það var einfaldlega vegna þess að þeim fjölda skipa sem er á þessu núna gengur ekki betur en svo að ná því magni sem ætlast er til að hann veiði að það þarf lengri tíma til þess þó fjöldi skipanna sé svona mikill.
    Auðvitað er um að ræða hagsmunaárekstur og auðvitað er það þannig að við erum að tala fyrir sjónarmiðum þeirra manna sem hafa haldið því fram í fjölda ára að það hafi verið rangt að leyfa þessar veiðar. Ég tel að það þurfi með einhverjum hætti að nýta þennan fiskstofn, bæði skarkolann og sandkolann. En það eru til þess aðrir möguleikar en með dragnót. Þó menn hafi ekki lagt það á sig að þróa það upp, þá er það auðvitað hægt. Það eru til gildrur og það eru til önnur veiðarfæri sem mætti nýta í þessum tilgangi. Ég held að það væri full ástæða til þess að rannsóknir af því tagi færu fram. Auðvitað þurfum við að efla almennt rannsóknir á áhrifum veiðarfæranna til þess að þróa okkur til þeirra bestu veiðarfæra sem völ er á. Við gerum allt of lítið af því. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira, ég tel að það sé full ástæða til að endurskoða þessi mál, ég tel að þau séu komin í óefni og þó það væri ekki nema út frá hagkvæmnissjónarmiðum þá hljóti menn að líta yfir þessi mál aftur. Það eru allt of mörg skip komin í þetta. Ég held að það sé rangt að halda því fram að við værum að taka atvinnu frá fjölda manna vegna þess að með því að viðurkenna að það væri að gerast værum við í raun og veru að strika yfir þær fullyrðingar sem aðrir aðilar halda fram, þ.e. að aðrar fisktegundir minnki við þessar veiðar. Þær fisktegundir gefa ekki minni atvinnu eins og ýsa og annar fiskur sem þeir eru að veiða sem hafa haft mest að athuga við þessar dragnótaveiðar.