Bann dragnótaveiða í Faxaflóa

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 20:16:44 (5790)


[20:16]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður kom inn á það að það væri ekki hægt að hrekja þær upplýsingar sem fram kæmu í greinargerðinni. Það er heldur ekki hægt að hrekja þessar tölur sem ég var að lesa hér upp um heildarafla ýsuveiða á Íslandsmiðum samanborið við ýsuveiðar í Faxaflóa. Þar er samfylgni í. En ég er dálítið hissa á því að jafnágætir alþingismenn og standa að þessari þáltill. skulu fara fram með þessum hætti eins og þeir gera miðað við það ástand sem er í atvinnumálum, miðað við þá staðreynd og ég vildi að menn gætu séð sjókortið hér yfir Faxaflóa og sæju um hvaða bleðla er verið að tala. Við erum að tala um 10% af Faxaflóa þar sem menn mega veiða í dragnót. Það liggur fyrir frá fiskifræðingum og öðrum vísindamönnum sem hafa skoðað þessi veiðarfæri, skoðað þessar veiðar, fylgst með afla og aflabrögðum sem segja: dragnótaveiðar í Faxaflóa hafa ekki áhrif á fiskstofna í Faxaflóanum. Þess vegna held ég að það væri umhugsunarefni fyrir þá ágætu alþingismenn sem flytja þessa þáltill. að kynna sér málin betur frá fleiri sjónarhornum en trillubátakörlum á Akranesi.