Bann dragnótaveiða í Faxaflóa

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 20:18:24 (5791)


[20:18]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að það sé ekki minna virði sú atvinna sem skapast af trilluútgerð á Akranesi en af þessum dragnótabátum sem við erum að ræða um. Ég ber fulla virðingu fyrir þeirri atvinnu sem þar er stunduð í kringum þá útgerð. En ég tel hins vegar að það sé ekki ástæða til þess að kasta frá þeim röksemdum og staðreyndum sem liggja fyrir um það hvernig þessar veiðar hafa haft áhrif og ég tel að þó hv. þm. sjái einhverja fylgni milli þessara talna um ýsuveiðar allt í kringum landið þá hafi hann ekki sett hér fram neitt sem hrekur þær tölur sem fyrir liggja. Ég vonast til þess að út úr þeirri athugun sem Fiskifélagið ætlar að gera á þessu máli þá sjáum við þetta betur og vonandi sannast þá af eða á með það hvort þessi áhrif eru finnanleg með því að skoða þessar skýrslur.
    Um það hvaða svæði eru nýtt af þessum skipum þá liggur það einmitt þannig að auðvitað eru menn að nota dragnótina á svæðum þar sem hægt er að koma henni við. Það vill nú þannig til að það er á botni þar sem ýsan er töluvert meira en annars staðar. Þess vegna hefur dragnótaveiðin meiri áhrif á ýsuveiðina en á annan fisk sem er á þessu svæði. Þó að um sé að ræða einungis 10% af Faxaflóanum þá getur það verið býsna stór hluti af veiðisvæðunum sem um er að ræða og þarna er verið að veiða á.