Sumartími, skipan frídaga og orlofs

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 20:30:19 (5793)


[20:30]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Hér er þáltill. sem hreyfir þremur allathyglisverðum málum sem að vísu eru með þeim hætti að það fyrsta er vægast sagt óaðgengilegt fyrir meginþorra þjóðarinnar. Það segir hér í greinargerðinni um sumartímann, með leyfi forseta:
    ,,Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú lagt fram tillögu um samræmdan sumartíma í aðildarríkjunum. Er miðað við það að sumartími hefjist kl. eitt eftir miðnætti síðasta sunnudag í marsmánuði og er klukkan þá færð fram um eina klukkustund.``
    Þetta er meginmálið í þessu að það er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem er að leggja hér til um það að við Íslendingar skulum fara enn einu sinni á fleygiferð með klukkuna. Ég man þá tíð, ungur maður, aðeins yngri en ég er nú, þegar þetta sífellda hringl var með klukkuna og það var flestum landsmönnum til óyndis. Ég vildi aðeins segja það við frsm. þessarar þáltill. að ef það eru einhver vandræði hjá þeim sem eru í verslun og viðskiptum og eru í samskiptum við erlenda kollega sína, þá er kannski bara rétt að leggja það á þá eina að vakna fyrr á morgnana yfir sumartímann. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að allt verslunarbatteríið á Íslandi eigi að draga alþjóð fram og aftur með klukkunni eftir því hvernig stendur í bólið hjá þeim. ( Gripið fram í: Það er Verslunarráðið . . .  ) Verslunarráðið, kallar hér einhver. Ég var ekki að nefna það. Ég var að tala um þá ágætu verslun almennt sem er hér í landinu. Með leyfi forseta segir á öðrum stað í greinargerðinni:
    ,,Ef tekinn er upp sumartími færist hið náttúrulega hádegi frá um hálftvö til um hálfþrjú á daginn. Þetta þýðir að í raun mundi þjóðin vakna fyrr á sumrin og byrja daginn fyrr. En það þýðir líka að sólarinnar nýtur lengur þegar fólk kemur úr vinnu og þá getur verið þokkalega hlýtt á sumardögum nokkuð fram eftir deginum. Þetta gefur því þjóðinni betra tækifæri til að njóta sumarsins og skapar án efa betri sumarstemningu með öllu sem því fylgir.`` --- Og sérstaklega með kaupmannastéttinni.
    Það er ekki amalegt fyrir þjóðina að hoppa upp í fangið á þeim sem stunda verslun og viðskipti og eru í samskiptum við erlenda aðila að hún sé leidd fram með þeim hætti sem hér ber vitni um. Enn fremur segir flm. að þetta kæmi sér einkanlega vel fyrir bændur því að nú mundi landinn taka upp á því að fara að grilla meira en hann gerir og er þó æðimikið grillað yfir sumartímann. Hins vegar er vandamálið kannski að það væri rétt að biðja flm. um að bæta inn á sína þáltill. um það að Veðurstofunni væri skylt að hafa gott veður allt sumarið svo menn gætu þá notið sólar eins og hér er talað um, en því eigum við ekki að fagna, ekki Sunnlendingar alla vega. ( VE: Bara flytja norður.)
    Það sem er athyglisvert í þessu og furðulegt er það að þessir aðilar sem stunda viðskipti við erlenda aðila skuli ætlast til þess að þessi hringlandi með klukkuna verði nú tekinn upp að nýju. Ég þykist vita það að flestir þessara aðila sem hér eru flm. að þessari þáltill. muni þann hringlandahátt sem var á klukkunni hér áður. Það var almennt álit þeirra sem þá voru eldri og reyndari að þetta væri nánast óviðunandi, þetta ástand með klukkuna og því lýsi ég mig algerlega mótsnúinn þessari breytingu með klukkuna.
    Hins vegar er svo aftur annað mál í sambandi við fimmtudagsfrídagana, ég held að það sé hið besta mál og þarf auðvitað athugunar við og væri af hinu góða. Það er nú svo að aðrir frídagar sem kannski eiga uppruna sinn erlendis frá, af því að það var vitnað til þess áðan, þá hafa þær breytingar orðið þar á að menn hafa einmitt gert þetta. Þar er að vísu veðurlag allt annað, en engu að síður hafa menn gert þetta til þess að lengja helgina.

    Varðandi vetrarorlofið, þá er það svo að það kemur hér fram í greinargerðinni að hið langa sumarfrí skapi vandamál í atvinnulífinu. Ég veit ekki betur en þeir sem stunda verslun og viðskipti við erlenda aðila kvarti yfir nákvæmlega því sama. Ég veit ekki betur en t.d. í Frakklandi um ákveðinn tíma í lok júlímánaðar og eitthvað fram í ágúst sé nánast allt viðskiptalífið lamað. Og ég spyr flm.: Eru þeir að leggja það til að að því verði staðið á milli atvinnurekenda og verkalýðs að upp verði tekinn sá háttur eins og fáar stéttir í landinu hafa þegar tekið upp í sínum kjarasamningi að skaffaðar verði fríar ferðir á erlenda grund einu sinni á ári, það sé tekið upp í kjarasamninginn? Ég er ekki viss um að það sé ekki nema lítið brot af launþegum sem kærir sig um það að taka frí yfir vetrartímann vegna þess að sumarið er allt of stutt. Það er svo stutt hjá okkur og við viljum nota hverja stund á meðan sumar er hér á Íslandi vegna þess að því miður er því bara svo misskipt hér á landi. Ég held að menn ættu að athuga sinn gang áður en þetta tvennt a.m.k. er samþykkt, þ.e. tilfærsla klukkunnar og það að skikka menn til þess að færa sumarfríið sitt yfir á vetrartímann.