Sumartími, skipan frídaga og orlofs

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 20:40:37 (5796)


[20:40]
     Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni seint fara að skipta sér af því hvenær fólk fer að sofa á kvöldin enda er það nú afar mismunandi um Evrópu og mismunandi eftir heimilum eins og hv. þm. veit fullvel. En hv. þm. kvartaði mikið undan því að þetta sé fyrir aðila í verslun og viðskiptum. Þetta er líka fyrir alla þá aðila sem þurfa að hafa samskipti við Vestur-Evrópu og það eru ekki bara í verslun og viðskiptum, það er líka í stjórnkerfinu og síðan að sjálfsögðu einstaklingar líka.
    En málið snýst ekki bara um verslun og viðskipti. Málið snýst um það hvort þjóðin fær betri möguleika til að njóta hins stutta íslenska sumars með því að sólin verði hærra á lofti þegar vinnutíma almennt lýkur. Og það er nauðsynlegt að vinnutími sé samræmdur eftir atvinnugreinum þannig að það sé nokkurn veginn byrjað á svipuðum tíma og hætt á svipuðum tíma í dagvinnunni. Það er nefnilega vegna þess að það er svo margt sem hangir saman að þessu leyti. Ég nefndi áðan leikskóla og ég gæti tekið margvíslega aðra þjónustu sem þarna skiptir máli. Ég hygg að mun fleiri fyrirtæki heldur en gera í dag mundu t.d. vilja byrja dagvinnu kl. 7 á morgnana á sumrin ef það væri ekki fyrir það að leikskólar opna ekki fyrr en kl. 8. Og ég skil ekkert í hv. þm. að geta ekki stutt þetta þjóðþrifamál og skilið á hverju hagsmunir þjóðarinnar byggjast. Þetta er mál sem snýst um hagsmuni þjóðarinnar á móti fáeinum mönnum sem nenna ekki að breyta klukkunni sinni þegar kemur að því að gera það á sumrin og haustin.