Breyttar úthlutunarreglur LÍN

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:41:02 (5802)


[13:41]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. menntrh. fyrir svarið. Það er alltaf gott þegar menn átta sig á því sem aflaga hefur farið og ég vænti þess að hann leggi ekki stein í götu þessara breytinga. Það er að vísu sorglegt að þeir sem hætt hafa námi, þannig að dregið hefur verið úr lánsfjárþörf, skuli hafa þurft að fara frá námi til þess að sjóðurinn hefði rýmri fjárhag, eins og hæstv. ráðherra sagði. Það er dýrkeypt fyrir þá einstaklinga sem þar eiga í hlut. En það sem hæstv. ráðherra veitti ekki neitt svar við er hvort um leiðréttingu yrði að ræða frá því að lögin voru sett 1992. Auðvitað getur hæstv. ráðherra ráðið því og finnist honum það réttlátt ber honum auðvitað að gera það. Þetta hefur komið sér afar illa fyrir fjölmarga námsmenn. Og úr því að sjóðurinn hefur þetta rúman fjárhag vil ég biðja hæstv. ráðherra um að sjá til þess að þetta verði leiðrétt frá þeim tíma að lögin voru sett.