Opnun sendiráðs í Kína

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:43:42 (5804)


[13:43]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég gerði góða ferð til Japans. Hvort hún var frækileg eða ekki skal ég ekki um segja, en hins vegar gerði íslenska landsliðið frækilega ferð þar, vann þar sigur.
    En varðandi spurningar hv. þm. þá hef ég ekki fengið nákvæman texta frá fundum utanríkisráðherra Íslands og Kína um það efni sem hann nefndi sérstaklega. Það mál hefur verið rætt í ríkisstjórn og þar hefur komið fram að vilji stendur til þess að opna skrifstofu sendiráðs Íslands, þó með þeim hætti að leitað hefur verið eftir því að slík aðstaða yrði í tengslum við annað norrænt sendiráð. Annar af tveimur fulltrúum Íslendinga yrði þó með sendiherranafnbót eða stöðu, en það er talið þýðingarmikið, ef þjóðir koma sínum málum fram, að sá fulltrúi hennar sem er á vettvangi beri slíka stöðu og slíkt embætti því þá sé auðveldara um vik í stjórnkerfi viðkomandi lands.
    Þannig að þetta hefur verið rætt í ríkisstjórn. Endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin enda ekki komin endanleg niðurstaða í samtölum við okkar norrænu frændur um skipan mála hvað þetta varðar. Það hafa verið nokkrar efasemdir uppi um að hægt væri að hafa tvo sendiherra starfandi í sömu sendinefndarbyggingu eða undir sendinefndarvæng annarrar norrænnar þjóðar. Ég hygg þó að það muni leysast. Vilji hefur staðið til þess og ég tel það vera skynsamlegt. Kínverjar hafa lengi haft sendiráð hér og Íslendingar höfðu á þeim árum, þegar það sendiráð var opnað, góð orð um það að slíkt sendiráð yrði opnað á móti. Ég vek líka athygli á því að ég tel nauðsynlegt að huga jafnframt að sendiráði í Japan þegar tímar líða fram og minni á að hér liggur, ef ég veit rétt, óafgreidd ályktunartillaga um það efni í þinginu.