Uppeldisháskóli á Íslandi

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:50:35 (5808)


[13:50]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda eru starfandi nefndir sem eru að athuga þessi mál öll. Það er sérstök nefnd starfandi sem vinnur að samningu frv. um rammalöggjöf fyrir kennaramenntunina í landinu, en eins og menn vita eru æðimargir skólar sem hafa með menntun kennara að gera. Ég kann ekki alveg að svara því hvenær sú nefnd muni ljúka störfum. Það er komið nokkuð fram yfir þann tíma sem henni var ætlaður og ég vonast til að fá tillögur nefndarinnar mjög fljótlega.
    Þá hafa átt sér stað viðræður milli Kennaraháskólans og Þroskaþjálfaskólans um hugsanlega sameiningu þeirra skóla. Ég hef alveg nýlega fengið í hendur álit þeirra sem að því máli komu og það er nú til athugunar í ráðuneytinu. Þetta er sem sagt allt í vinnslu núna og ég geri ráð fyrir að niðurstaða fáist innan tíðar.