Uppeldisháskóli á Íslandi

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:51:48 (5809)


[13:51]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svar hans. Það eru ekki bara Þroskaþjálfaskólinn og Kennaraháskólinn sem ættu að vera í samstarfi um uppeldisháskóla heldur fleiri skólar eins og Fósturskólinn og Íþróttaskólinn, svo eitthvað sé nefnt. Þessir skólar ættu allir að mynda deildir í Uppeldisháskóla Íslands. Kennaramenntun og kennaraskóli yrðu aðeins ein deild af þeim sem ættu að vera í Uppeldisháskóla Íslands. Auðvitað er rétt að byrja smátt og vera ekki að reyna að ná yfir fræðslusviðin, deildirnar, strax. Það má fikra sig áfram. Samt tel ég að það sé kominn meira en tími til að lyfta öllum þessum deildum upp á háskólastig og sameina kraftana þannig að hægt sé að nýta þá kennslu sem til er og þá kennslukrafta og gögn sameiginlega og spara þannig stórfé og gera einnig þessari fræðslu miklu hærra undir höfði en er í dag.