Breyting á lögum um stjórn fiskveiða

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:13:43 (5821)


[14:13]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. sjútvrh. Eitt af hinum stóru málum hæstv. ríkisstjórnar var að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða og fyrir þinginu liggur frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Nú var dreift hér í þinginu fyrir þessa páskahelgi öðru frv. sem 16 þingmenn standa að.
    Ég var á fundi með hæstv. sjútvrh. á miðvikudaginn fyrir páska. Þar sagði hann mjög skýrt og skorinort: ,,Ríkisstjórnin hefur misst þingmeirihluta sinn fyrir sjávarútvegsfrumvörpunum.`` Og hann sagði: ,,Ríkisstjórnin hefur misst forræði sitt á sviði sjávarútvegsmála.``
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann fyrir í framhaldi af þessum nýju aðstæðum? Hvað mun gerast? Ætlar ríkisstjórnin að starfa sem minnihlutastjórn í þessum málaflokki og snúa sér til stjórnarandstöðunnar til að leita að samkomulagi um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða eða ætlar ríkisstjórnin að segja af sér? Ætlar hæstv. ráðherra að leita eftir nýjum meiri hluta og starfa sem ráðherra í minnihlutastjórn gagnvart þessum málaflokki eða ætlar hann að segja af sér? Það hlýtur að vera mikil krafa á að þessi mál verði gerð skýr og ljós fyrir hv. Alþingi og þjóðinni.