Breyting á lögum um stjórn fiskveiða

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:18:41 (5824)


[14:18]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Að því er varðar fyrirspurn hv. þm. um það hvort ég sé tilbúinn til að eiga samstarf við stjórnarandstöðuna í þessu efni, þá fer það auðvitað alfarið eftir málefnum. Ég get ekki átt samstarf við hv. fyrirspyrjanda vegna þess að ég er í grundvallaratriðum ósammála honum um það hvernig haga eigi fiskveiðistjórnun í landinu. Ég tel að það frv. sem hann er meðflytjandi að muni skaða hagsmuni íslensks sjávarútvegs, íslenskra sjómanna og veikja mjög rekstrargrundvöll fyrirtækja í atvinnugreininni. En ég er tilbúinn hér eftir sem hingað til að eiga málefnalegt samstarf við alla menn hér í þinginu um skynsamlega og ábyrga fiskveiðistjórnun.