Breyting á lögum um stjórn fiskveiða

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:19:39 (5825)


[14:19]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Þetta segir nú ekki mikið. Ef hæstv. ráðherra ætlar að halda áfram eins og hann sagði, hér eftir sem hingað til, þá hefur ekki orðið mikil breyting á afstöðu hans til þess hvernig eigi að standa að stjórn þessara mála og þá held ég að það muni ekki miða mjög í samkomulagsátt um það hvernig eigi að taka á lögunum um stjórn fiskveiða. Ég vonast til þess að menn setjist yfir þetta með opnum hug og að hv. nefnd fái þá tækifæri án þess að sitja undir hamri hæstv. ríkisstjórnar til þess að leita þeirra leiða sem mögulegar eru til að ná samkomulagi um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Það kann að vera að það verði ekki um miklar breytingar að ræða með þeim hætti, en það sést nú ekki fram á að það verði verulegur árangur að þessari endurskoðun eins og málin horfa núna.