Húsaleigulög

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 15:09:11 (5842)


[15:09]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Framsögumaður félmn., hv. 4. þm. Reykn., hefur nú gert grein fyrir áliti nefndarinnar varðandi þetta mál. Um það tókst gott samkomulag í nefndinni þannig að ég þarf ekki miklu við það að bæta. Nefndin ræddi þetta mál ítarlega og gerði á því nokkrar breytingar sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Ég vil aðeins undirstrika varðandi löggjöf sem þessa að tilgangur hennar er að rétta hlut leigjenda og skýra þeirra réttindi en það er ávallt vandmeðfarið vegna þess að auðvitað má slíkt ekki hafa þau áhrif að þrengist um á húsaleigumarkaðnum.
    Ég tel að frv. eins og það er nú úr garði gert fari bil beggja í þessu efni og sé réttarbót fyrir þá sem þurfa einhverra hluta vegna að leigja sér húsnæði.
    Það voru nokkur veigamikil atriði sem nefndin tók sérstaklega til umræðu. Hún tók t.d. til umræðu hvort það væri eðlilegt að ráðherra gæfi leyfi fyrir leigumiðlunum eða hvort það væri hlutverk yfirvalda í hverju byggðarlagi að gera það eins og með aðra atvinnustarfsemi. Það varð niðurstaðan að ráðherra gæfi þessi leyfi. Það byggðist á þeim forsendum að það er í tiltölulega fáum tilfellum sem leigumiðlanir eru á nógu stórum markaði til að eiga tilverugrundvöll og aðallega þá í mesta þéttbýlinu og ekki óeðlilegt að félmrn., sem hefur með þessi mál að gera, gefi út þessi leyfi. Á það var því fallist eftir nokkrar umræður þar um.
    Einnig voru nokkrar umræður um það mál hvort það væri eðlilegt hlutverk byggingarfulltrúa í einstökum byggðarlögum að annast úttektir. Það var niðurstaða nefndarinnar að svo yrði því að byggingarfulltrúi vinnur á þessu sviði og þótti eðlilegt að a.m.k. í flestum byggðarlögum væri þetta á hans hendi. Þó þótti rétt að hafa heimild til að fela húsnæðisnefndum þessar úttektir þar sem þessi starfsemi er viðameiri.
    Ég ætla ekki að hafa um þessi atriði mörg orð né ræða um einstök atriði frv. Um það tókst gott samkomulag og það liggur hér fyrir með breytingum sem framsögmaður nefndarinnar hefur gert grein fyrir. Ég eins og aðrir nefndarmenn legg til að frv. verði samþykkt.