Húsaleigulög

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 15:13:06 (5843)


[15:13]
     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. félmn. skrifar fulltrúi Kvennalistans undir það og verð ég að segja að ég er alveg sammála þeirri niðurstöðu sem nefndin hefur komist að. Ég tel mjög mikilvægt að tekið sé á málum leigjanda. Þeirra réttur hefur að vísu batnað í gegnum árin en það hefur verið misbrestur á því að þeir hafi getað verið nokkuð tryggir á leigumarkaðnum og þess vegna er ég mjög ánægð með að sjá að þetta frv. er komið svo langt að við getum væntanlega samþykkt fljótlega að réttur leigjanda verði aukinn eins og er gert ráð fyrir í frv.
    Ég verð að viðurkenna að ég set ákveðin spurningarmerki við það sem kom fram áðan hjá hv. 2. þm. Austurl. að það þurfi að fá leyfi hjá ráðherra til að reka leigumiðlun en ekki yfirvöldum á hverjum stað. Ég tel þetta vafaatriði en ætla að sætta mig við niðurstöðu nefndarinnar að því er þetta varðar en tel að þetta þurfi að taka til athugunar og fylgjast vel með því hvort ekki sé eðlilegt að breyta þessu síðar. Það má vel vera að það sé eðlilegt að ráðherrann veiti þetta leyfi en ég set ákveðið spurningarmerki við það.
    En það er aðallega eitt atriði sem rak mig í stólinn og það varðar 3. gr. Ég tel að brtt. sé til mikilla bóta en ég set ákveðið spurningarmerki samt við þessa brtt., hvort hún gengur nógu langt. Eins og segir í brtt. er miðað við að annað sambúðarform tveggja einstaklinga en tekið var fram í greininni eins og hún var gildi einnig. Síðar í nál. segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Nefndin telur að ákvæðið eigi að ná t.d. til samkynhneigðra sambúðaraðila eða annars sambúðarforms tveggja einstaklinga, svo sem systkina.`` Mér finnst nefndin í raun takmarka aftur það sem ég vildi lesa út úr brtt. Það er ég mjög ósátt við. Ég hefði

viljað að þarna væri ekki gert upp á milli sambúðarforms því það geta hugsanlega tveir eða jafnvel fleiri karlar eða konur ákveðið að búa saman án þess að það þurfi endilega að tákna að um samkynhneigða aðila sé að ræða eða systkini. Það gætu hugsanlega bara verið vinkonur eða hvernig sem fólk kýs að haga sínu sambúðarformi. Í raun átta ég mig ekki á hvers vegna er í nál. aftur takmarkaður sá réttur sem brtt. gerir ráð fyrir. Það er fyrst og fremst það sem ég er ósátt við og tel nauðsynlegt að það komi skýring frá formanni nefndarinnar hvort það sé virkilega meiningin hjá nefndinni að þetta eigi eingöngu að ná til þeirra sem talað er um, sambúðarfólks eða þeirra sem eru giftir, og alls ekki til annarra. Ég er þá á móti því. Ég er á móti þeirri takmörkun sem felst í nál. En maður greiðir ekki atkvæði um nál. heldur um tillögugreinina og brtt. eins og hún er. En ef á að túlka þessi lög þá er auðvitað nál. notað og þetta á ég mjög erfitt með að sætta mig við.
    Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að það hafi allt of lítil munur verið gerður á því þegar fólk ákveður að gera með sér hjónabandssamning og þeirra sem kjósa að gera það ekki. Mér hefur fundist tilhneiging í lagasetningu vera mikið í þá áttina að vera alltaf að gera sambúðarfólki jafnhátt undir höfði eða setja það jafnt og hjónafólk eða fólk sem hefur ákveðið að búa saman í hjónabandi. Ég tel að það eigi að vera ákveðinn munur þarna á, að fólk eigi að geta valið sér form en þetta fjallar ekki um það atriði heldur einungis um þennan rétt leigjenda þegar fólk býr saman. Þess vegna finnst mér nauðynlegt að heyra það frá formanni nefndarinnar hvort þetta er bara til skýringar en ekki til þess að takmarka. Því þá liggur við að ég þurfi að gera við þetta breytingartillögu ef meiningin er að túlka þetta svona þröngt.
    En ég tek það fram, herra forseti, að eins og kemur fram í brtt. sjálfri má gjarnan skilja þetta mjög vítt eins og ég skildi það fyrst þegar ég sá brtt. Það var ekki fyrr en ég sá nál. og reyndar heyrði framsögu hv. 4. þm. Reykn. sem mér hálfbrá að sjá að þetta var sett fram með þessum hætti.