Húsaleigulög

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 15:27:40 (5847)


[15:27]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er enginn vafi á því að frv. þetta er til bóta og í því felast ugglaust að flestu leyti þarfar réttarbætur til handa leigjendum. Ég skal fúslega játa að ég hef ekki farið yfir það nákvæmlega eða í alveg einstökum atriðum enda allmikill bálkur og sjálfsagt ekki aðrir en nefndarmenn sem hafa unnið málið það samviskusamlega.
    En það eru nokkur atriði sem ég vil spyrja um við þessa afgreiðslu málsins með því hugarfari að ég held að það sé mikilvægt úr því að loksins er að komast til afgreiðslu endurskoðun laga um húsaleigu, sem gerðar hafa verið, ef ég man rétt, nokkrar tilraunir til undanförnum árum að koma fram, að það takist þá vel til og eytt sé allri óvissu sem kynni að vera uppi í því efni og tekið á svona helstu málum sem aðstæður hér og nú og eins og þær blasa við til næstu ára kalla eftir. Reyndar má rifja það upp að við Íslendingar höfum lengi staðið okkur heldur illa í þessu sambandi, bæði hvað varðar lagalegu hliðina og líka framboð á leiguhúsnæði. Það hefur verið hér minna og ótryggara en í flestum nálægum löndum. Reyndar sker húsnæðismarkaðurinn á Íslandi sig algerlega úr í þessu efni. --- Forseti, það blikkar hér rautt ljós. Hefur það einhverja sérstaka merkingu? Mér er heldur illa við að tala á rauðu ljósi eins og kunnugt er þannig að ég vil gjarnan losna við þetta fyrirbæri úr púltinu. Ég hef ekki gert mikið af því.
    Ég var að segja að það mætti svo sem alveg rifja það upp í þessu sambandi að húsnæðismarkaðurinn íslenski hefur skorið sig mjög úr hvað þetta snertir og reyndar einnig að hér voru til að mynda um langt árabil um miðbik aldarinnar ekki í gildi nein lög um húsaleigu sem var með ólíkindum. Þegar maður hugsar til baka má það furðu sæta að fyrst var þó tekið á slíkum málum af einhverju marki í lögum á 3. áratugnum, ef ég man rétt. Síðan kemur tímabil þar sem alls engin lög giltu um málefni leigjenda og ófullkomin reyndar þau sem síðan hafa verið. Þetta er nokkuð lýsandi fyrir það að á Íslandi hefur þetta húsnæðisform skipað allt annan og veigaminni sess en hjá öðrum þjóðum. Nú kann ég ekki í augnablikinu, nema rifja það fyrst upp, prósentutölur um hlutföll í þessu sambandi en einhvern tímann kunni ég það að þetta hlutfall var hverfandi lítið á Íslandi. Það kann að vera að það hafi frekar þokast upp á við síðustu árin. Á sama tíma er umtalsverður hluti alls húsnæðis, t.d. á hinum Norðurlöndunum, ýmist leiguhúsnæði eða hlutareignarhúsnæði.
    Ég vil þá koma því að í leiðinni að út af fyrir sig, og vonandi misskilst það ekki, er það hið þarfasta mál að taka á endurskoðun húsaleigulaganna og framkvæma þar eðlilegar réttarbætur en hitt er stóra málið að það verði eitthvert leiguhúsnæði til fyrir þann vaxandi hluta þjóðarinnar sem á alls ekkert í önnur hús að venda og einkaeign á íbúðarhúsnæði er annaðhvort óviðráðanleg af efnahagslegum ástæðum eða hentar ekki af félagslegum ástæðum vegna tímabundinna aðstæðna í þjóðfélaginu o.s.frv. Það er ekki nokkur leið að horfa fram hjá því að efnahagsástand, atvinnuástand og annað því um líkt hér á Íslandi á líðandi stundu hlýtur að stórauka þrýstinginn á aukið framboð á leiguhúsnæði. Það getur ekki orðið önnur niðurstaða. Þegar farið er yfir efnahag tekjulægsta hlusta launafólks, svo ekki sé talað um aðra sem eiga að reyna að draga fram lífið á atvinnuleysisbótum eða öðru slíku, þá er tómt mál um að tala að menn geti ráðist í að eignast eigið húsnæði. Í einhverjum mæli geta menn byrjað að mynda eign í íbúðarhúsnæði ef þeir komast inn í félagslega íbúðarkerfið en kaup á almennum markaði fyrir fólk á lágmarkslaunum eða atvinnuleysisbótum er tómt mál um að tala. Algjörlega. Þá skiptir sköpum að framboð á tryggu leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum sé fyrir hendi í þjóðfélaginu.
    Ef það verður ekki getur niðurstaðan aðeins orðið ein og hún er fólk án húsnæðis. Hún verður ósköp einfaldlega fólk sem ekki á í neitt öruggt hús að venda og verður að leita á náðir ættingja eða götuna ef ekki vill betur til. Það er vonandi ekki svo komið á Íslandi að við teljum það ásættanlegt fyrir siðferðisstig þjóðfélagsins að hér gangi fólk húsnæðislaust í stórum stíl þó það gerist í mörgum öðrum þjóðfélögum og jafnvel mestu velmegunarlöndum heimsins, eins og Bandaríkjunum, en þar fer húsnæðislausu fólki fjölgandi um fleiri hundruð þúsund á hverju ári um þessar mundir eins og kunnugt er. Er svo komið til að mynda í heimsborginni New York að þar fær maður varla nokkurs staðar sæti á bekk í almenningsgarði vegna þess að þeir eru allir uppteknir af heimilislausu fólki. Það er vonandi ekki sú framtíð sem við ætlum okkur að sætta okkur við á Íslandi.
    Þess vegna vil ég koma þessum áherslum að í tengslum við þetta frv. að það er alveg augljóst mál að allar aðstæður kalla á að stórátak verði gert í þessum efnum. Það væri auðvitað til umhugsunar fyrir þá sem standa að núverandi ríkisstjórn að velta því fyrir sér á hvaða spori hin svokallaða sjálfseignarstefna á íbúðarhúsnæði, sem var mikið í tísku að hampa hér á árunum, er í reynd þegar hinar efnislegu forsendur og staðreyndir málsins eru þannig að hún er úti í hafsauga fyrir verulegan hluta þjóðarinnar. Ég hef t.d. reynt að gera á því útreikninga fyrir fólk með venjulegar tekjur, sem eru kannski rétt við viðmiðunarmörkin fyrir félagslega húsnæðiskerfið, hvernig það gangi að kaupa venjulega íbúð á markaði í Reykjavík. Það er ósköp einfaldlega þannig að það dæmi gengur ekki upp miðað við lánskjör á húsbréfum og íbúðarverð í dag. Þó að tekjurnar liggi yfir viðmiðunarmörkum félagslega kerfisins og viðkomandi fjölskylda sem sagt úr leik hvað það snertir að komast inn í félagslegt húsnæði þá er hún í raun og veru jafnóralangt frá því að geta keypt frambærilega íbúð á almennum markaði fyrr en hún á eignir sem nema a.m.k. 1--2 millj. kr. í afsetjanlegum verðmætum til að leggja upp í þau íbúðarkaup, fyrr gengur dæmið ekki upp jafnvel þó um sé að ræða kaup á lítilli íbúð.
    Síðan er hér atriði sem mig langar til að spyrja hv. formann félmn., eða eftir atvikum hæstv. félmrh., að. Það er tenging þessa frv. til húsaleigulaga við frv. sem er nýframkomið um húsaleigubætur. Satt best að segja átti ég allt eins von á því að þessi tvö frumvörp yrðu látin fylgjast að. Ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja í fyrsta lagi hvort ekki sé nauðsynlegt að láta þetta frv. a.m.k. bíða um sinn 3. umr. á meðan farið verður yfir frv. til laga um húsaleigubætur. Ég treysti því að það sé ætlunin og staðið verði við að afgreiða það frv. á þessu þingi. Þar með er ég að sjálfsögðu ekki að tala um að þetta eigi að verða til þess að fresta afgreiðslu málsins enda er ég stuðningsmaður þess að bæði þessi frv. nái fram að ganga. En mér finnst mikilvægt að það verði þannig að þessu hvoru tveggja staðið að sem best takist til.
    Ég tek það fram að ég hef svo sem ekkert skoðað þetta út í hörgul en í fljótu bragði sýnist mér að ástæða gæti verið til að fara vandlega yfir vissa kafla í þessum frumvörpum þannig að þeir væru í góðu samræmi. Nú kann vel að vera að vinnubrögðin séu til slíkrar fyrirmyndar og svo fullkomin af hálfu þeirra sem að málunum standa að þetta séu óþarfar áhyggjur og þetta sé allt saman í einni ljúfri harmoníu frá ráðuneytinu eða höfundum frumvarpanna. En ef við tökum til að mynda annars vegar II. kafla frv. sem hér er á dagskrá um leigusamninga þá er þar allítarlega fjallað um það hvernig leigusamningar fyrir húsnæði skuli vera og það er alveg grundvallaratriði varðandi réttarstöðu leigjandans. Berum það svo saman við skilyrði þess að menn fái húsaleigubætur. Um þau er fjallað t.d. í 5. gr., 8. gr. og 12. gr. í frv. til laga um húsaleigubætur og þá eru þar auðvitað ákvæði sem tengjast alveg beint húsaleigulögunum og ákvæðum þeirra um leigusamninga. Til að mynda er samkvæmt frv. um húsaleigubætur --- ég vona að forseti geri ekki athugasemdir við að það sé vitnað yfir í það mál af því að það er náskylt efnislega --- sagt að það sé skilyrði til húsaleigubóta að húsaleigusamningur um viðkomandi húsnæði sé til sex mánaða eða lengri tíma og að honum hafi verið þinglýst. Þá spyr maður sig að því: Koma þessi ákvæði til með, ef þau verða afgreidd svona, að hafa sjálfkrafa áhrif á gerð húsaleigusamninganna þannig að þeir yrðu þá jafnan tímabundnir og til sex mánaða eða lengri tíma? Mundi þetta orðalag duga gagnvart ótímabundnum leigusamningum um íbúðarhúsnæði? Það er alveg nauðsynlegt að það sé á hreinu. Nú segir að vísu í 9. gr. um húsaleigulögin að leigusamning má gera til ákveðins tíma eða ótímabundinn og leigusamningur telst ótímabundinn nema um annað sé ótvírætt samið. Gilda þá ákvæði 56. gr. Þar segir að uppsagnarfrestur ótímabundins leigusamnings um íbúð skuli vera sex mánuðir. En samningurinn er ótímabundinn. Það er alveg ljóst að ef ekki er settur inn tiltekinn tími, eitt ár eða tíu ár eða eitthvað því um líkt, þá telst samningurinn ótímabundinn og það er skýrt tekið fram í lögunum. Mundi það þá teljast samningur til sex mánaða að uppsagnarfresturinn er sex mánuðir? Eða yrði e.t.v. að gera þarna breytingu á þannig að það væri alveg ótvírætt að ótímabundinn leigusamningur um íbúðarhúsnæði með sex mánaða uppsagnarfresti telst í skilningi húsaleigubótalaganna nógu langur samningur þannig að menn fái bætur.
    Þetta þarf að mínu mati að vera alveg skýrt og það getur vel verið að það sé út af fyrir sig í lagi að afgreiða húsaleigulagafrumvarpið og taka þá af tvímæli þegar frv. um húsaleigubætur verður afgreitt en í öllu falli þarf að gera það á öðrum hvorum staðnum.
    Eins er það þegar kemur að því í frv. um húsaleigubætur að skilgreina hvað skuli teljast íbúðarhúsnæði, þá verð ég að segja reyndar, þó það sé útúrdúr við þetta mál hér, að mér finnst þar um ansi þrönga skilgreiningu að ræða. T.d. er ljóst að það á að útiloka þá frá húsaleigubótum sem búa í íbúðum sem eru kannski að einhverju leyti standsettar í húsnæði sem ekki var hannað eða teiknað upphaflega sem íbúðarhúsnæði og er þar af leiðandi t.d. með sameiginlegri snyrtingu eða sameiginlegri eldunaraðstöðu, við skulum segja fyrir tvær litlar íbúðir í kjallara. Þá mundu ákvæði í 8. gr. frv. um húsaleigubætur útiloka þá aðila frá húsaleigubótum og af því að það segir í greininni: ,,Með íbúðarhúsnæði í lögum þessum er átt við venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu og eru lágmarksskilyrði a.m.k. eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða eldunaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu.``
    Þetta er náttúrlega mjög þröng skilgreining. Við vitum það vel að verulegur hluti af þessum leiguíbúðum sem í hlut eiga og koma til greina við úthlutun húsaleigubóta eru standsettar íbúðir í alls konar húsnæði, í kjöllurum og risíbúðir o.s.frv. Húsaleigubæturnar koma ekki til gagnvart leiguíbúðum sem eru í eigu ríkissjóðs og sveitarfélaga eða fyrirtækja á vegum sveitarfélaga þannig að hér er um að ræða leiguíbúðir á hinum almenna íbúðarmarkaði og hlýtur af þeim ástæðum að teljast nokkuð þröng skilgreining.
    Þessi ákvæði teldi ég sömuleiðis ástæðu til að skoða í tengslum við húsaleigulagamálin, hvort ástæða væri til að athuga það samræmisins vegna og til að tryggja að réttur manna verði eins og til stendur og ætlast er til og þetta fari ekki eins og með blessað atvinnuleysisbótafrumvarpið í fyrra sem menn fluttu í þeirri trú að þeir væru að auka réttindi manna og taka inn nýja hópa inn á atvinnuleysisbætur en sátu svo uppi með þá niðurstöðu að bílstjórum, trillusjómönnum og ýmsum fleirum var sparkað út. Þvert ofan í það sem ætlað hafði verið, að greiða götu nýrra aðila, sjálfstætt starfandi atvinnurekenda, til bótaréttar, þá fór það alveg öfugan veg. Það voru fjölmennar stéttir í landinu sem misstu bótarétt við þessar breytingar ( Gripið fram í: Eða fengu hann ekki.) eða fengu hann ekki og það gengur auðvitað ekki. Við þurfum að vanda okkur hvað svona hluti snertir.
    Í þriðja lagi vil ég nefna um tengingu þessara tveggja frumvarpa og spyrja eftir atvikum, eins og ég sagði, hv. formann félmn. eða félmrh., sem reyndar er ekki viðlátinn sem stendur. Það er um það að í 12. gr. frv. til laga um húsaleigubætur er fjallað um gögn sem þurfa að fylgja umsókn til húsaleigubóta og þar stendur: ,,Leigusamningur, gerður á staðfest samningseyðublað undirritaður af báðum aðilum og þinglýstur.`` --- Þetta er leigusamningur sem fjallað er um í II. kafla frv. til laga um húsaleigu sem við erum að ræða og er á dagskrá. Ég verð að segja alveg eins og er að það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir að leigusamningur á grundvelli laganna um húsaleigu skuli ekki vera fullnægjandi gagn til að sækja um húsaleigubætur nema hann sé jafnframt þinglýstur. Hvers vegna á að leggja þann kostnað, þá kvöð og þá fyrirhöfn á alla leigjendur í landinu að fara og láta þinglýsa leigusamningi, jafnvel bara til sex mánaða? Er þetta ekki bara tóm vitleysa? Á ekki frekar að ganga þannig frá þessu að ákvæðin um leigusamninga í húsaleigulögunum verði svo skýr og ótvíræð að þeir séu fullnægjandi gagn til umsóknar um húsaleigubætur.
    Það gengur ekki að mínu mati að afgreiða þessi tvö frv. blindandi gagnvart hvort öðru fyrr en svona atriðum er komið alveg á hreint. Þetta má, eins og ég segi aftur, e.t.v. leysa með því einfaldlega að afgreiða húsaleigulögin en breyta þá eftir atvikum eða lagfæra þessi ákvæði í húsaleigubótafrumvarpinu. Kannski er nóg, ef menn fallast á það, að fella bara einfaldlega niður þetta viðhengi ,,og þinglýstur`` þannig að það sé ljóst að leigusamningur gerður á staðfest samningseyðublað, sem má þess vegna mín vegna vera löggiltur skjalapappír ef það lítur betur út, og undirritaður af báðum aðilum sé fullnægjandi gagn í þessum efnum.
    Það eru reyndar nokkur fleiri minni háttar atriði, hæstv. forseti, sem ég hafði aðeins staldrað við en ég sé svo sem ekki ástæðu til að gera um þetta lengra mál. Ég vona að ég hafi komið mínum sjónarmiðum á framfæri og þeim spurningum sem varða samhengi þessara mála. Ég vil í fyrsta lagi spyrja eftir atvikum hv. formann félmn., sem vel að merkja er ekki víst að fái húsaleigubótafrumvarpið til meðferðar, eða hvað? því nú er aldrei að vita nema menn líti kannski svo á að það sé mál efh.- og viðskn. Einhverjir kynnu að halda þeirri skoðun fram. Alla vega er það útgjaldaatriði. Spurningin er hvort ekki ástæða sé til að bíða með t.d. 3. umr. og afgreiðslu húsaleigulagafrv. þó ekki væri nema um skeið og þá með því hugarfari að menn muni afgreiða málin fyrir þinglok. Og í öðru lagi um þessi tvö eða þrjú efnisatriði sem ég sérstaklega spurði um og vitnaði í.
    Ég hefði einnig haft í sjálfu sér áhuga á því að heyra ef hæstv. félmrh. hefði haft einhverjar skoðanir um þetta efni.