Húsaleigulög

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 15:47:03 (5848)


[15:47]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins örstutt viðbót við það sem ég var að ræða um áðan sem ég vildi

koma að. Það stendur í nál.: ,,Nefndin telur að ákvæði eigi að ná t.d. til samkynhneigðra sambúðaraðila eða annars sambúðarforms tveggja einstaklinga, svo sem systkina.``
    Þarf endilega að standa þarna ,,tveggja``? Það er alveg eins hugsanlegt að það séu fleiri heldur en tveir. Ef þrír byggju saman væru þeir þá útilokaðir þó þeir byggju saman á sama grundvelli?
    Það hefur verið um það dálítið að fólk byggi saman í því sem kallast kommúna eða ,,kollektiv`` á dönsku og mundi kannski heita sambýli á íslensku. Þessi fyrirbrigði gætu vel komið upp aftur og ef það væru fleiri en tveir sem byggju við þessi kjör saman í íbúð, mundu þeir þá ekki geta fallið undir þessi ákvæði? Ég held að það hljóti að vera hægt að finna eitthvað annað orðalag sem hentaði þannig að ef fólk byggi saman fleira en tveir á sama grundvelli, þ.e. deildu með sér kjörum og útgjöldum, að þetta gæti náð til þeirra líka.
    Það er aðeins þessi örstutta athugasemd sem mér fannst ég þurfa að koma að vegna þess að ég hef sjálf búið árum saman við álíka aðstæður og hefði fundist eðlilegt að ég væri jafnrétthá og hinir í þeim efnum.