Húsaleigulög

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 16:00:55 (5852)


[16:00]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að hv. síðasti ræðumaður velti því fyrir sér hvort þessi tvö frumvörp, um húsaleigusamninga og húsaleigubætur, hafi verið borin saman. Það hefur verið gert í ráðuneytinu þannig að þessi ákvæði hafa verið borin saman sem hann tiltók við húsaleigubæturnar og ákvæði þess frv. Ég hef ekkert við það að athuga að nefndin skoði það og gangi sjálf úr skugga um þarna sé ekkert sem rekist á varðandi þessi tvö frv. Varðandi ótímabundnu samningana þá er sex mánaða uppsagnarfrestur og það ætti að nægja til þess að þetta ákvæði varðandi það að leiga sé í sex mánuði, sem er skilyrði fyrir rétti til bóta, að það á þá að gilda.
    Varðandi þinglýsinguna sem hér er títtnefnd, við fáum væntanlega tækifæri til þess að ræða þetta í umræðum um húsaleigubæturnar á morgun, það var talið mikið öryggisatriði að hafa þetta ákvæði um þinglýsingu. Það mundi stuðla að vandaðri samningum, koma í veg fyrir málamyndasamninga og þinglýsingin kostar um 1.000 kr. Það var talið mikið öryggisatriði að hafa þetta með þessum hætti en væntanlega gefst okkur tími til að ræða það á morgun.
    Að öðru leyti vil ég nota tækifærið hér og þakka nefndinni fyrir vel unnin störf og fagna því að nefndin hafi náð samstöðu um þetta mikilvæga frumvarp.