Slysavarnaráð

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:01:58 (5854)


[18:01]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 893 og brtt. á þskj. 894 frá heilbr.- og trn., um slysavarnaráð.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem kveður á um stofnun slysavarnaráðs sem hefur það meginmarkmið að stuðla að fækkun slysa. Í umfjöllun sinni studdist nefndin við umsagnir frá Almannavörnum ríkisins, Brynjólfi Mogensen, yfirlækni og forstöðumanni slysa- og bæklunarlækningadeildar Borgarspítala, landlækni, Landsbjörg--Landssambandi björgunarsveita, Læknafélagi Íslands, Lögreglufélagi Reykjavíkur, Slysavarnafélagi Íslands og Umferðarráði.
    Frumvarpið hefur hlotið jákvæð viðbrögð og nefndin leggur til að það verði samþykkt með þeirri breytingu að slysavarnaráð verði skipað fulltrúum Landsbjargar og Umferðarráðs auk þeirra sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins.
    Brtt. er um að 1. mrg. 3. gr. hljóði svo:
    Heilbrigðisráðherra skipar níu fulltrúa í slysavarnaráð tilnefnda af eftirtöldum aðilum: landlæknisembættinu, og skal sá vera formaður, dómsmálaráðherra, Landsbjörg, læknadeild Háskóla Íslands, Sambandi ísl. tryggingafélaga, Slysavarnafélagi Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Umferðarráði og Vinnueftirliti ríkisins.
    Þá vill nefndin leggja áherslu á að fulltrúi sá, er frumvarpið gerir ráð fyrir að dómsmálaráðherra skipi, komi að jafnaði úr röðum lögreglu. Þá skal bent á að í greinargerð er gert ráð fyrir að starfandi forstöðulæknir slysadeildar Borgarspítalans hverju sinni skuli tilnefndur sem fulltrúi læknadeildar Háskóla Íslands í ráðinu, en það telur nefndin of takmarkandi. Rétt þykir að fulltrúi læknadeildar hverju sinni verði læknir á Borgarspítala með sérþekkingu á slysum og slysaskráningu.``
    Undir nál. skrifa Ingibjörg Pálmadóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Margrét Frímannsdóttir, Hermann Níelsson, Sólveig Pétursdóttir, Finnur Ingólfsson, Sigríður A. Þórðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.