Fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:17:15 (5860)


[18:17]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. formanni utanrmn. fyrir upplýsingarnar. Grunur minn er nefnilega sá að sá orðastaður sem ég átti við hv. 18. þm. Reykv. hafi orðið til þess að hún sneri sér til fulltrúa síns í utanrmn. og óskaði eftir að um þetta yrði gerð fyrirspurn. En það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur. Hins vegar er það ekki nema sönnun á því sem ég var að segja hér áðan að það skuli þá vera leitað til formanns Stéttarsambands bænda. Það er gott og blessað og greinilega hefur hann unnið sitt verk vel og hans menn. En það er auðvitað harla einkennilegt að hið háa Alþingi skuli þurfa að leita til manna úti í bæ til að fara yfir mál af þessu tagi. Það sýnir náttúrlega hversu vanmegnugir hv. þm. eru því ábyrgðin er endanlega okkar. Formaður Stéttarsambands bænda verður aldrei ásakaður fyrir hvernig gengið er frá lögum og samningum á Alþingi Íslendinga heldur þingmenn sjálfir. Svo sannarlega er það virðingarvert að nefndarmenn óski eftir að einhver komi þingmönnum til aðstoðar. En ég hygg að við getum verið sammála um það, hv. 3. þm. Reykv. og formaður utanrmn., sem ég skal ekki frýja vits um utanríkismál, að við þetta verði auðvitað ekki búið. Við eigum rétt á því að innan hins háa Alþingis verði farið yfir slík mál þannig að við getum treyst því að þingið sé fullkomlega ábyrgt fyrir þeim ákvörðunum sem teknar eru. Því fyrr því betra að hér yrði ráðið starfsfólk sem ræður við slíkt.