Fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:22:38 (5863)


[18:22]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil láta það koma fram að ég tel að það hefi verið í utanrmn. forsvaranleg vinnubrögð við þetta mál eða þessi mál. Þau eru nú raunar þrjú. Þau voru talsvert rædd í nefndinni og kallaðir fyrir aðilar bæði úr ráðuneytum og eins annars staðar að svo sem frá Stéttarsambandi bænda. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að mistökin voru ekki uppgötvuð í ráðuneytinu. Það var hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson sem hafði fyrst orð á þessum mistökum á fundum utanrmn. Þegar skýringar voru fengnar um það hver meiningin væri með þessum samningum og hvernig þessi mistök hefðu orðið þá datt mér nú fyrst í hug að fara fram á það að þingskjölin yrðu prentuð upp þannig að þau væru í eðlilegri og forsvaranlegri mynd. Það hefði tvímælalaust verið eðlilegasta aðferðin. En ég gerði það nú ekki með tilliti til þess að þarna er um talsvert stórar bækur að ræða og það hefði verið verulegur kostnaður að prenta upp og binda og dreifa þessum þingskjölum í forsvaranlegu formi. Þannig að sú leið hlaut nú hljómgrunn að bæta úr þessu í nál. Þessir samningar eru samhljóða eða hér um bil samhljóða nokkrum öðrum fríverslunarsamningum sem EFTA hefur gert við einstök ríki utan EFTA og við höfum fullgilt. Þessi tilteknu þingmál eru okkur ekki svo mjög framandi.
    Hitt er svo aftur hárrétt hjá hv. 14. þm. Reykv. að Alþingi er að vissu leyti nokkuð hjálparvana með vinnu að þessu leyti.