Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:30:03 (5866)


[18:30]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. á þskj. 883 og 884 frá heilbr.- og trn. um breytingar á lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín fjölda aðila til umsagnar um þetta mál. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í umfjöllun sinni að nauðsynlegt væri að gera breytingar á lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, samhliða þessu. frv. Frv. var því sent félmn. til umsagnar sem komst að þeirri niðurstöðu að gera þyrfti þær breytingar á lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga sem hér eru lagðar til.
    Nefndin mælir með samþykkt þessa frumvarps með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Efnisbreytingar, sem lagðar eru til, eru eftirfarandi.
    1. Lagt er til að samstarfsráð heilsugæslustöðva verði tiltekið í ákvæðinu í stað heilbrigðismálaráðs þar sem hið síðarnefnda hefur aldrei starfað í Reykjavík, en samstarfsráð heilsugæslustöðva sinnir í raun þessu lögbundna hlutverki. Þá er lagt til að bætt verði við nýrri grein, er verði 5. gr. a, þar sem kveðið er sérstaklega á um öldrunarmálaráð. Þar er kveðið nánar á um en gert hafði verið í frumvarpinu hvernig öldrunarmálaráð skuli skipað. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

    ,,Sveitarstjórnum á starfssvæði heilsugæslustöðvar er heimilt að kjósa sameiginlega fimm eða sjö manna öldrunarmálaráð sem annist verkefni öldrunarnefndar. Öldrunarmálaráð gerir tillögur um verkefni sín til hlutaðeigandi sveitarstjórna. Í starfi sínu skal öldrunarmálaráð hafa samvinnu við félagsmálanefndir eða félagsmálaráð hlutaðeigandi sveitarstjórna og stjórn heilsugæslustöðvar eftir því sem kostur er.``
    Þá er kveðið sérstaklega á um að öldrunarmálaráð skuli hafa samvinnu við félagsmálanefndir eða -ráð og stjórn heilsugæslustöðva eftir því sem kostur er.
    2. Lagt er til að ný grein, 2. gr., bætist við frumvarpið. Samhliða þeirri breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins er nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á 39. og 40. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Rétt þykir, með breytingunni sem lögð er til á 39. gr., að taka af allan vafa um að aldraðir eigi eftir sem áður rétt til þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Á það jafnt við um þjónustu samkvæmt lögunum, svo sem fjárhagsaðstoð og félagsráðgjöf, sem og málsmeðferð og málskot til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Með breytingunni sem lögð er til á 40. gr. er kveðið á um að öldrunarmálaráð geti á sama hátt og félagsmálanefndir séð um húsnæðismál og félagslega heimaþjónustu fyrir aldraða. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Ákveði sveitarstjórn að fela sérstöku öldrunarmálaráði stjórn öldrunarmála, á grundvelli heimildar í lögum um málefni aldraðra, breytir það engu um þann rétt sem aldraðir eiga samkvæmt lögum þessum, þar á meðal hvað varðar málsmeðferð og málskot.``
    B-liður. 40. gr. laganna orðist svo:
    ,,Félagsmálanefnd, eða öldrunarmálaráð, skal leitast við að tryggja framboð á hentugu húsnæði fyrir aldraða og jafnframt skipuleggja félagslega heimaþjónustu.``
    Undir þetta nefndarálit skrifa Ingibjörg Pálmadóttir, með fyrirvara, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Margrét Frímannsdóttir, með fyrirvara, Hermann Níelsson, Sólveig Pétursdóttir, Finnur Ingólfsson, með fyrirvara, Sigríður A. Þórðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, með fyrirvara.