Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:45:38 (5869)


[18:45]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Frá því að það frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, með síðari breytingum, sem er hér á þskj. 414 og er 295. mál þingsins, var lagt fram og hefur verið fjallað um í hv. heilbr.- og trn. og eins og það birtist nú hér með þeirri brtt. sem er á þskj. 884, þá

hefur eins og fram hefur komið orðið um grundvallarbreytingu á málinu að ræða. Það er þess vegna alveg eðlilegt að spurt sé hvort ekki hefði verið rétt að fara með málið aftur í gegnum þingið, í gegnum 1. umr. Ríkisstjórnin hefði lagt málið að nýju fyrir þingið þar sem eiginlega má segja að þskj. og efni þess eins og það leit upphaflega út var það gallað að það var eiginlega ekki hægt að vinna út frá því í nefndarstarfinu að öðru leyti en skrifa málið upp á nýtt.
    Það er hins vegar alltaf svo, hvort sem það er Reykjavík eða önnur sveitarfélög, að það getur verið mjög hæpið í lagasetningu að setja sérstök lög fyrir eitt og eitt sveitarfélag í landinu, en það er í raun og veru það sem ætlast var til með þessu frv. eins og það kom hér upphaflega fram, þ.e. að sérstök regla skyldi gilda um Reykjavík sem sveitarfélag þar sem það stóra sveitarfélag gæti í raun og veru skipað sérstakt öldrunarmálaráð sem ekki heyrði undir félagsmálaráð viðkomandi sveitarfélags og komist þannig fram hjá því ákvæði í lögunum um málefni aldraðra þar sem gert er ráð fyrir að öldrunarnefndir séu starfandi og heyri undir félagsmálanefndir og vinni í samvinnu við sveitarstjórnir á viðkomandi stöðum. Þetta var sú leið sem fara átti. Og þá spyr maður auðvitað: Til hvers átti að fara þessa leið?
    Ég tek undir með þeim sem hér hafa nefnt að það eru ýmis vandamál í höfuðborginni í öldrunarmálum sem kannski eru ekki til staðar annars staðar úti um land. Stærsta vandamálið er auðvitað bygging hjúkrunarheimila og það pláss sem þar er skortur á fyrir það fólk sem bíður eftir í neyð að komast inn á hjúkrunarheimilin. Hér í Reykjavík eru aftur á móti ýmiss konar önnur úrræði í byggingarmálum. Heilu byggingarfyrirtækin hafa náð fótfestu í Reykjavík við að byggja yfir aldraða borgara á ákveðnu aldursskeiði og miðað við það að fólk hafi þolanlega heilsu. Svo aftur á móti þegar þarf að koma fólki inn á hjúkrunarheimili þá eru alls ekki þau úrræði þar til staðar. Þess vegna var að mínu viti þetta mál alls ekki forgangsverkefni í lausn á öldrunarmálum fyrir Reykvíkinga. Staðreyndin er sú að í dag eru um 300 aldraðir Reykvíkingar á biðlista eftir því að komast inn á hjúkrunarheimili og sennilega eru 160--170 þessara manna í bráðri neyð með að komast inn. Þess vegna hefði það auðvitað átt að vera forgangsverkefni borgarstjórnar Reykjavíkur að óska eftir því við Alþingi að verulega yrði tekið á í samvinnu borgarinnar og ríkisvaldsins í þessum efnum, en ekki það að setja lög um eitthvert sérstakt öldrunarráð sem átti að gilda sérreglur um fyrir Reykjavík.
    Fyrir utan það, eins og málið leit út hér í upphafi, þá voru auðvitað vissar hættur í því er snerta það að slíta í sundur þau tengsl sem verið hafa milli heimahjúkrunarinnar og svo heimilishjálparinnar, sem kemur saman í þeirri heimaþjónustu sem veitt er, bæði af hálfu heilsugæslustöðvanna í Reykjavík, Heilsuverndarstöðvarinnar og svo af Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að eins og málið lítur núna út við 2. umr. þá hafi tekist að koma í veg fyrir að á þetta samstarf væri höggvið og með því held ég að við höfum komið málinu í þann besta farveg sem hægt er að búast við.
    Ég styð þetta mál með fyrirvara og þrátt fyrir að ég telji það ekki vera forgangsverkefni að koma því í gegnum þingið. Ég minni á að það er búið að byggja hér upp gríðarlega mikið síðan 1988 á sviði heilbrigðisþjónustu, sérstaklega er snýr að heilsugæslustöðvunum. Hér hafa verið opnaðar heilsugæslustöðvar í Garðastræti, uppi í Hraunbergi, í Mjóddinni, ný heilsugæslustöð í Grafarvogi og síðan er búið að endurbyggja heilsugæslustöðina í Álftamýri. Þannig að heilsugæslustöðvarnar eru núna miklu betur í stakk búnar en nokkru sinni fyrr við að aðstoða það fólk sem bíður eftir því að komast inn á hjúkrunarheimilin, sem ég segi að hefði átt að vera forgangsverkefni. Aftur á móti hefur starfað á vegum Reykjavíkurborgar eða borgarstjórnar Reykjavíkur sérstök nefnd sem fjallar um byggingarmál aldraðra. Það má eiginlega segja að hún hafi hálft í hvoru verið fyrir utan þá þjónustu sem veitt er í gegnum Félagsmálastofnunina og var kannski full ástæða að taka starf hennar meira inn í þetta heldur en gert hefur verið. Ég tel að með þeirri brtt. sem hérna liggur fyrir í 2. tölul., b-liður, sem er við 40. gr., sem orðast svo:
    ,,Félagsmálanefnd, eða öldrunarmálaráð, skal leitast við að tryggja framboð á hentugu húsnæði fyrir aldraða og jafnframt skipuleggja félagslega heimaþjónustu.``
    Þetta tel ég að sé nú kannski merkasta ákvæðið í þessu frv. með þeim brtt. eins og þær liggja nú fyrir, Því menn þurfa í þessu sambandi að leita nýrra leiða til úrlausna fyrir aldraða Reykvíkinga sem bíða eftir því að komast inn á hjúkrunarheimilin. Ég veit að þær hugmyndir eru uppi einmitt í byggingarnefnd aldraðra í höfuðborginni að leita þar nýrra leiða. Þannig að það er í sjálfu sér að mínu viti það mikilvægasta sem fram kemur í þessu að geta tengt þetta betur saman en gert hefur verið. En ég ítreka það, þetta er ekki forgangsverkefni í uppbyggingu á öldrunarþjónustu í Reykjavík. Það hefði verið nær að byrja á öðrum enda.