Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 19:28:59 (5885)


[19:28]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa nokkrar umræður orðið um mál sem lúta að málefnum aldraðra og sýnist sitt hverjum bæði um form og efni og jafnvel einstaka aðilar telja að með óeðlilegum hætti sé þetta mál borið fram til umræðu.
    Meginmál þessa frv. er það að Reykjavíkurborg vill gera þessum málaflokki, málefnum aldraðra, hærra undir höfði en lög kveða á um með því að gera þetta að sérstökum málaflokki, hafa þetta ekki í tvennu lagi eins og nú er, þ.e. annars vegar byggingarnefnd aldraðra í Reykjavík og hins vegar þar sem þessi málaflokkur fellur undir Félagsmálastofnun.
    Ekkert sveitarfélag þarf að sinna málefnum aldraðra með slíkum hætti eins og Reykjavíkurborg þarf að gera og telur það hins vegar ekkert eftir sér. Það er einu sinni svo, hvað svo sem utanbæjarmenn segja um höfuðborgina, þá er það samt svo að það er umtalsverður hópur aldraðra sem flyst til Reykjavíkur á hverju ári. Reykjavíkurborg og stjórnendur hennar hafa lagt sig fram um það að leysa þau mál eins og mögulegt er á hverjum tíma en ræður þó ekki alfarið þar um. Skulu þá fyrst nefnd hér hjúkrunarheimili og heimili fyrir aldraða sem hafa verið byggð upp með nokkuð sérstökum hætti á undanförnum árum. Landsmenn allir standa frammi fyrir því að á sumum stöðum á landinu hefur verið of í lagt. Þar eru heimili fyrir aldraða sem ekki eru fullnýtt. Það hefði kannski verið betra á árum áður að þeir sem sátu í heilbr.- og trmrn. hefðu skoðað málið frá annarri hlið heldur en gert var og metið þörfina öðruvísi en raun ber vitni um. Ef það hefði verið gert, þá efa ég það ekki að Reykjavík væri betur í stakk búin en hún er nú til að mæta þeim þunga sem skapast vegna þessa málaflokks, sem skapast vegna þess að margir aldraðir telja hag sínum betur borgið í Reykjavík heldur en á hinum fjölmörgu stöðum úti á landi þar sem fámennið er kannski meira en eðlilegt má teljast.
    Í annan stað má nefna í sambandi við hjúkrunarheimili að á undanförnum árum hefur Reykjavíkurborg í samstarfi við aðra byggt t.d. hjúkrunarheimilið Skjól, þar sem rúmlega 90 aldraðir einstaklingar, sem þurfa sérstaka hjúkrunarmeðferð, búa. Þá er nú í byggingu og búið að taka í notkun hluta af hjúkrunarheimilinu Eir þar sem 120 manns eiga væntanlega möguleika á vistun. Síðan er fyrirhugað hjúkrunarheimili í Suður-Mjódd. Þá er líka áform á vegum sjómannasamtakanna að byggja nýja hjúkrunarálmu við Hrafnistu í Hafnarfirði.
    Það er því unnið að þessum málaflokki hér í Reykjavík nokkuð myndarlega miðað við aðstæður, bæði í þjóðfélaginu og í málefnum aldraðra.
    Það er rétt eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv., Finni Ingólfssyni, að um 300 manns bíða eftir vistun á heimilum, bæði hjúkrunarheimilum og heimilum fyrir aldraða. En á undanförnum árum hafa mál þróast þannig að á annað hundrað Reykvíkinga búa á heimilum fyrir aldraða úti á landi vegna þess að

skorturinn hefur verið það mikill hér. Að þessum málum er nú unnið eins og ég hef lýst hér til lausnar þeim vanda sem borgaryfirvöld standa frammi fyrir varðandi málefni aldraðra.
    Það er dálítið merkilegt þegar einn hv. þm. telur fulla ástæðu til að lesa upp athugasemdir við lagafrv. og vitnar sérstaklega til þess að af því að Reykjavíkurborg hafi óskað eftir þessum breytingum á lögum um málefni aldraðra hafi þingheimur snarsnúist og hlaupið upp til handa og fóta til að leysa þetta mál og spyr svo: Hefði þetta gerst ef lítið sveitarfélag úti á landi hefði verið með sömu óskir? Vafalaust. Vafalaust hefði það verið gert. Ég er alveg sannfærður um að alþingismenn bera þann hug til aldraðra að ef það væru einhver mál sem snertu lög um málefni aldraðra og væru þannig úr garði gerð að þeir gerðu þeim aðilum hærra og betra undir höfði, þá vildi ég fá að sjá þann þingmann sem mótmælti því jafnvel þó að það hefði komið frá Stokkseyri eða Eyrarbakka. ( SJS: Jafnvel þaðan?) Jafnvel þaðan, já. Og jafnvel þó að það kæmi frá Húsavík, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég efa það ekki. ( Gripið fram: En Þórshöfn?) Þórshöfn, kallar einn fram í úr hliðarsal og les Tímann.
    Varðandi það að Reykjavíkurborg er að leggja þetta mál fram, þá hefur þessi málaflokkur, eins og ég gat um áðan, verið hjá tveimur aðilum, þ.e. Félagsmálastofnun og byggingarnefnd aldraðra og það er málefnum aldraðra til framdráttar að koma þessu fyrir eins lög gera ráð fyrir, þ.e. að í Reykjavík verði stofnað sérstakt öldrunarmálaráð.
    Þegar síðan var farið að skoða málin kom það í ljós að ekki dugði að breyta einvörðungu lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, heldur þurfti þar líka til að koma breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Og þegar menn stóðu frammi fyrir þeim orðna hlut var bæði rætt við aðila, eins og kemur fram í greinargerðinni, innan heilbr.- og trmrn. og síðan félmrn. til þess að málefni aldraðra, sem snerta bæði þessi lög, mættu ná fram að ganga með þeim hætti sem frv. ber vitni um.
    Þeir aðilar sem leitað var til til umsagnar voru fjölmargir og er of langt mál að lesa þá upp en ég fullyrði að flestallir sem sendu inn umsagnir sínar voru málinu mjög jákvæðir og töldu það eðlilegt að sveitarfélög hefðu þetta frekar í sínum höndum og mættu gera betur heldur en núverandi lög kveða á um.
    Virðulegi forseti. Ég held ég hafi ekki mörg fleiri orð um þetta mál. En auðvitað má alltaf deila um form og málsmeðferð en ég trúi því ekki að þingmenn ætli að leggjast á þetta mál og tefja framgang þess vegna þess að það hefur það í sér að verið er að gera þeim öldruðu hærra undir höfði og það á að gera betur en verið hefur og ég get ekki séð annað en það sé hið besta mál.