Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 19:47:01 (5891)


[19:47]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta er nokkuð athyglisverð umræða sem hér fer fram af, má segja, tveimur ástæðum, efnislega annars vegar hvað viðkemur innihaldi þessa frv. og brtt. og hins vegar sem lýtur að framlagningu þess eða þinglegri meðferð, liggur mér við að segja. Ég tel eðlilegt að menn skiptist hér á skoðunum um hvort tveggja og ég vona að ég fái ekki einkunnagjöf af því tagi sem heyrðist hér áðan að með því að halda einhverja stuttar tölur um þetta mál sé maður að tefja sérstaklega framgang þess. Ég kann því heldur illa satt best að segja, þó að það beindist ekki að mér í þessu tilviki þar sem ég hafði ekki talað í málinu, þegar menn eru í ræðustólnum með skot af því tagi til samþingmanna sinna að það að koma með innlegg í umræður um mál á efnislegum forsendum eða þó um formlega meðferð málanna sé að ræða, menn geta kallað það formsatriði ef þeir vilja, þá séu menn að leggja sérstaklega stein í götu viðkomandi mála, tefja eðlilegan framgang þess. Er það t.d. óeðlilegt að þetta mál sé rætt hér stutta stund? Ég held ekki. Ég bið hv. 16. þm. Reykv. að hafa þetta sérstaklega í huga.
    Það er reyndar rétt sem hér hefur fram komið að það er ýmislegt óvenjulegt við framlagningu þessa máls. Þar á meðal og ekki síst rökstuðninginn í athugasemdum við frv. eins og það birtist upphaflega á

þskj. 414 vegna þess hvernig málið er síðan úr garði gert. Ég tel að ef frv. hefði upphaflega verið flutt á þeim grundvelli sem brtt. heilbr.- og trn. gerir nú ráð fyrir, þ.e. að þarna væri verið að opna þetta sem valkost til viðbótar við það sem fyrir er í gildandi lögum, þá hefði mátt vísa með rétti til þess að Reykvíkingar hafi áhuga á breyttu skipulagi þessara mála hjá sér. En að nota það eitt sem röksemd fyrir því að flytja frv. um að breyta fyrirkomulagi þessara mála hjá öllum sveitarfélögum í landinu er auðvitað mjög sérkennilegt. Ég tel að málið hefði verið allt öðruvísi vaxið frá byrjun ef frv. hefði haft útgangspunkt í þeirri aðferð sem brtt. heilbr.- og trn. gera ráð fyrir, þ.e. að þessi svokölluðu öldrunarmálaráð yrðu lögheimiluð sem valkostur fyrir þau sveitarfélög sem það vildu viðhafa. En að taka útgangspunkt í því að borgarstjórn Reykjavíkur hafi samþykkt að koma sér upp sérstöku öldrunarmálaráði og þar með skuli breyta þessu í lögum fyrir allt landið og miðin er nokkuð óvenjulegt vegna þess að mér er ekki kunnugt um að önnur sveitarfélög hafi yfirleitt óskað eftir neinum sérstökum breytingum um þetta efni.
    Ég tel þess vegna að það sé fullkomlega eðlilegt að þessar athugasemdir komi fram um málið eins og það var upphaflega fram borið. Það er auðvitað alveg ljóst að heilbr.- og trn. hefur náð að lagfæra það verulega með 1. tölul. brtt., þ.e. við 5. gr. og með nýrri grein sem bætist þar við sem opnar öldrunarmálaráðin sem valkost í stað öldrunarnefndanna hjá þeim sveitarfélögum sem það vilja viðhafa. Mér dettur ekki í hug að fara að blanda mér í það efnislega hvaða fyrirkomulag Reykvíkingar sem slíkir vilja hafa á þessum málum hjá sér. Það er alveg ljóst að þetta er umfangsmikill málaflokkur hér, en ekkert hlutfallslega umfangsmeiri heldur en hann er í mörgum öðrum sveitarfélögum. Reykjavík er einfaldlega langstærst og þar af leiðandi er þetta umfangsmest í þeim skilningi en hlutfallslega er örugglega að finna mörg sveitarfélög þar sem umfang málefna aldraðra er ekkert minna. Maður gæti látið sér detta í hug sveitarfélög þar sem aldraðir hafa á undanförnum árum og áratugum haft tilhneigingu til að setja sig niður og eyða ævikvöldinu, dæmi Hveragerði eða önnur slík. Og maður gæti látið sér detta það í hug að hlutfallslega væru málefni aldraðra síst mikið minni fyrirferðar í slíkum sveitarfélögum heldur en hér, en Reykjavík er vissulega stærst.
    Ég er auðvitað alveg prýðilega sáttur við það ef Reykvíkingar vilja breyta skipulagi þessara mála hjá sér, þá geri þeir það og greitt sé fyrir því með lagabreytingu á þinginu en það á þá að gera með þessum hætti, að mér finnst, nema menn nái niðurstöðu um að breyta tilhögun þessara mála í grundvallaratriðum í landinu öllu og um það sé þá sæmilegt samkomulag. En þegar svona stendur á og málið ber þannig að að það er vegna óska eins einstaks sveitarfélags og önnur sveitarfélög mér vitanlega hafa ekki sérstaklega óskað eftir svona breytingum, þá er þetta hinn eðlilegi framgangsmáti sem hv. heilbr.- og trn. leggur til.
    Það er síðan með öllu ástæðulaust fyrir hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, nema hann telji vígstöðu Sjálfstfl. í komandi borgarstjórnarkosningum svo hörmulega bágborna að það verði að nota jafnvel þetta tækifæri til að flytja hér einhverja framboðsræðu fyrir D-listann, að segja hér tröllasögur og ýkjusögur af því hvað Reykvíkingar ætli að taka þessum málaflokki rosalegt tak hjá sér núna á síðustu vikum kjörtímabilsins. Er íhaldið að vakna til lífsins í Reykjavík og uppgötva málefni aldraðra og ætlar að fara að gera hér einhverjar miklar rósir? Ég er ekki viss um að það sé sérstaklega D-listanum til framdráttar að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson fari að opinbera hræðslu íhaldsins við að tapa borginni með því að nota tækifæri af þessu tagi til að flytja framboðsræðu fyrir D-listann. En eins og kunnugt er var það eitt aðalinntakið í ræðu hans áðan hversu vasklega ætti nú að fara að sinna þessum málum af hálfu meiri hlutans í Reykjavík, les meiri hlutans í Reykjavík eins og ég skildi þetta í máli hv. þm. Út af fyrir sig eru þá sjálfsagt einhverjir hér sem eru tilbúnir til að fara í þá umræðu við þingmanninn og stendur það nær heldur en mér. Ég ætla ekki að gera það.
    Hitt, hæstv. forseti, vildi ég svo nefna og taka upp sem aðrir hafa einnig gert að umtalsefni. Það er þessi sérkennilegi framgangsmáti að flytja í raun og veru tvö aðskilin lagafrumvörp í brtt. við 2. umr. máls. Það er mjög óvenjulegt. Nú ætla ég ekki í rökræður við forseta eftir minni um það hvort það sé nánast fordæmalaust en mér er nær að halda að svo sé nánast. Ég færi þau rök fyrir mínu máli að það er ekki hægt að bera þetta saman við það þegar stjfrv. birtist sem bandormur, t.d. í efnahagsráðstöfunum eða öðru slíku og þar eru kannski á ferðinni breytingar á sex eða átta mismunandi lagafrumvörpum og það kann að verða niðurstaðan við brtt. að auka þar við skerðingarákvæði eða útgjaldalegu eða kostnaðarlegu ákvæði sem tekur inn á eitt lagafrv. í viðbót, ein lög í viðbót eða einu lagafrv. færra. Það er ekki sambærilegt. Þau dæmi þekkjum við auðvitað að hér hafa komið á undanförnum árum misjafnlega þokkaðir bandormar, t.d. í tengslum við efnahagsráðstafanir, kjarasamninga, fjárlagagerð á síðustu stigum þegar menn hafa verið að rimpa saman í fjárlagagatið og ákveðið að höggva á báðar hendur í einstaka málaflokka, það hefur verið skerðing hér og ákvæði þar, jafnvel skattur á sveitarfélögin í þriðja tilvikinu o.s.frv. og þá hefur kannski birst við 2. umr. nýtt lagafrv., de facto, í gegnum brtt. við bandorm af því tagi. En ég fullyrði að þess eru fá dæmi að í einföldu frv. um eitt tiltekið atriði í málaflokki eins og hér er og þar sem átti að breyta einni einustu lagagrein komi svo allt í einu brtt. sem feli í reynd í sér nýtt frv., breytingu á alls óskyldum lögum. Kannski á maður ekki að segja alls óskyldum en allt öðrum lögum.
    Það eru ekki mörg dæmi um slíkt, a.m.k. ekki sem ég þekki til. Það er svo sem ekkert óskaplega lengi en nálgast þó 11 ár með hverjum deginum sem líður að ræðumaður hafi starfað á þingi. Þess vegna tel ég eðlilegar óskir manna um að þetta sé athugað hreinlega formsins vegna og þannig að þetta sé

ekki gert nánast blindandi og síðan vitnað í þetta sem fordæmi um að þetta sé víst hægt og hafi verið gert þarna og þarna. Eins og dæmin sanna hafa menn tilhneigingu til þess að nota það sem einu sinni er búið að gera, með hvaða rökum sem það hafi verið gert, sem fordæmi fyrir því að það sé leyfilegt og góð venja upp frá því.
    Ég er ekki viss um að það eigi að ganga langt út á þessa braut og fyrir því má færa ýmis rök, m.a. þau að Alþingi starfar nú í einni málstofu. Umferðirnar sem lagafrumvörp fá eru þrjár í staðinn fyrir sex áður og þess vegna minni tími til stefnu til að taka á málum sem koma upp. Ef búið er að loka 2. umr., þá er aðeins ein eftir, þá er málið borð upp í heild sinni og oft á tíðum ekki auðvelt að koma því við að kalla fram afstöðu manna til efnisatriða eða formsatriða af þessu tagi. Ég er í raun ósammála og óánægður með þá niðurstöðu forsetans að það sé nóg að athuga þetta milli 2. og 3. umr. nema og ef brtt. er kölluð aftur þannig að það sé ekki knúin fram atkvæðagreiðsla um málið í lok 2. umr. en það mun gerast að óbreyttu. Þar með er í raun og veru marklítið að athuga málið vegna þess að menn væru búnir að standa frammi fyrir því að þurfa að greiða atkvæði um þessa brtt. ef hún er ekki kölluð aftur. Þar með eru menn í raun og veru settir upp við vegg og þeim gert að taka á því. Vilja þeir afgreiða þetta svona? Ef menn eru efnislega ekki ósammála því sem þarna er á ferðinni en hafa hins vegar efasemdir um þetta formlega séð, hvað eiga þeir þá að gera, hæstv. forseti?
    Ég held að það sé verið að setja menn þar með í svona heldur vandræðalega aðstöðu þannig að ég hef lagt til að 2. umr. yrði ekki lokið, a.m.k. atkvæðagreiðslu frestað og helst 2. umr. ekki lokið þannig að það væri eftir atvikum hugsanlegt að afturkalla þessa brtt., flytja nýja þar sem 1. tölul. brtt. á þskj. 884 héldi sér en síðan yrði flutt sjálfstætt lagafrv. um breytingu á lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það væri auðvitað langeðlilegast að gera þetta þannig.
    Úr því að heilbr.- og trn. sendi félmn. þetta til umsagnar þá hefði að mínu mati verið eðlilegur framgangsmáti úr því að nefndirnar urðu, eins og ég ræð af nefndarálitinu, efnislega sammála um að það þyrfti að gera þessar breytingar, að heilbr.- og trn. hefði óskað eftir því að félmn. flytti lítið sjálfstætt frv. um þessa breytingu á lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það hefði verið hreinleg, eðlileg og venjuleg vinnubrögð við þessa lagasetningu. Þessi eru harla óvenjuleg og mér finnst að við þingmenn sem erum í þessum tveimur nefndum og erum að sjá framan í þetta í fyrsta sinn eigum fullan rétt á því að koma okkar athugasemdum á framfæri og að atriði af þessu tagi séu tekin til skoðunar. Ég get ekki skilið að það sé nein sú tímanauð hér á ferðinni sem gerir það að verkum að ekki sé unnt að verða við tiltölulega einfaldri og að mínu mati eðlilegri ósk af því tagi að umræðunni verði nú frestað og það kannað hvort ekki sé vilji fyrir hendi hjá viðkomandi þingnefndum að leysa ósköp einfaldlega úr þessu atriði með þessum hætti.
    Mér finnst það í raun alveg ástæðulaust og heldur til ama að menn skuli ekki ná samkomulagi um einfalda hluti af þessu tagi hvað málsmeðferð varðar þegar hér þó er komið efnislegt samkomulag í grófum dráttum um afgreiðslu á málinu. Þarna eru að vísu á ferðinni einhverjir fyrirvarar en ekki stórvægilegir og þetta hefði ég talið að væri hinn eðlilegi framgangsmáti.