Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:48:05 (5904)


[11:48]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vandinn er sá að með samningunum um aðild að Evrópsku efnahagssvæði og með öllum þeim bunkum sem verið er að leggja fyrir okkur sem við eigum að afgreiða núna fyrir vorið, það stendur til að afgreiða þetta, ( Gripið fram í: Segir hver?) m.a. ákvæðin um fuglainflúensu sem er fjallað um mjög ítarlega þarna. Með þessu móti er búið að vefja íslenska hagsmuni inn í alþjóðlegt net þannig

að það er í raun og veru mjög erfitt fyrir okkur alþingismenn að sjá í gegnum framkvæmd laga eða reglugerða með eðlilegum, hefðbundnum og venjulegum hætti, þeim sem við höfum kynnst hér á undanförnum árum eða áratugum. Ég tel að þess vegna sé það beinlínis hættulegt þegar kemur að framkvæmd lagaákvæða eins og þeirra sem hér um ræðir að fela landið í hendur utanrrn., beinlínis hættulegt. Þetta vald á að vera í höndum fjmrn. og ef menn telja á sig hallað með einum eða öðrum hætti þá á að höfða mál eftir það en ekki áður. Valdið á að vera í höndum fjmrn. Og ég undrast það satt að segja að fjmrh. skuli vera svo slakur gæslumaður fjmrn. að hann skuli ekki taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að því er þetta varðar. Því það er beinlínis stórháskalegt, segir reynslan í mörg undanfarin ár, að hafa þessa hluti í utanrrn. og hætt við því að þar með verði þessi lagaákvæði, ef frv. verður samþykkt, gagnslaus, af því að utanrrn. mun alltaf geta fundið einhverja bókstafi í þessum pappírshaugum sem geta gert málsmeðferðarkaflann í II. kafla reglugerðarinnar algjörlega óframkvæmanlegan.