Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:52:20 (5906)


[11:52]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég varð fyrir vonbrigðum með það að hæstv. ráðherra virðist vera sannfærður um að það sé ekki hægt að beita almennum aðgerðum sem geta virkað þannig að það sé hægt að taka ákvarðanir um jöfnunargjöld eða tolla á skipasmíðaverkefni t.d. frá Póllandi á grundvelli þeirra upplýsinga sem menn hafa aflað sér um viðskipti við Pólverja að undanförnu. Mér þykir það býsna hart ef það þarf að skoða hvern einasta samning í hvert einasta skipti og láta það standa yfir mánuðum saman og láta þessi verkefni fara úr landinu án þess að það sé hægt að bregðast við. Ég trúi því illa að það sé ekki hægt að byggja ákvarðanir um bráðabirgðaálagningu gjalda á þeim upplýsingum sem hefur verið aflað um þau viðskipti sem hafa farið fram og þá er ég aðallega að tala um þær ívilnanir sem þessar skipasmíðastöðvar hafa, t.d. í Póllandi, og hafa alltaf aðgang að og hljóta að valda því að þær geta ævinlega boðið lægri verð. Mér þykir að það sé líklegt að þetta mistakist illa hjá okkur t.d. gagnvart samkeppninni við Pólverja ef þetta á allt saman að gerast eftir á. Ég trúi því að menn verði að reyna að leita leiða til þess að það sé hægt að taka ákvarðanirnar um leið og menn taka afstöðu til tilboðanna.