Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:54:19 (5907)


[11:54]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki segja um það því ég er ekki sérfræðingur í þessu máli hvort það sé hugsanlegt að leggja upp þennan almenna toll eða taka almenna ákvörðun en mér þykir afar ólíklegt að slíkt sé hægt.
    Ég held að þau gögn sem til eru um viðskipti við Pólland komi að sjálfsögðu að verulegu gagni við frekari vinnslu málsins og um það hvernig viðskipti fara fram í framtíðinni. En hver samningur sem gerður er er með sín sérkenni og er sérstakur samningur og ég held að það sé útilokað að það sé hægt að nota almennar aðgerðir fyrir fram til þess að koma í veg fyrir það að viðskipti eigi sér stað t.d. á milli íslenskra útvegsmanna og pólskra skipasmíðastöðva. Það verður að skoða hvern samning fyrir sig og í raun verður að ganga svo langt að sá verður að hefja málið, sá verður að hafa frumkvæði að málinu sem telur á sig hallað og að hann hafi orðið fyrir tjóni. Það þýðir að ef um útboð er að ræða, sem yfirleitt alltaf er, þá geti sá sem tekur þátt í útboðinu, tilboðshafi, kært ef hann er íslenskur og telur á sig hallað og þá er málið auðvitað skoðað. Öll gögn sem til eru í málum frá fyrri tíð koma að sjálfsögðu að gagni en við verðum að hafa það í huga að hver samningur er sérstakur og ber sín eigin einkenni. Það er eðli slíkra samninga sem eru orðnir til vegna undangenginna útboða.