Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 12:00:26 (5911)


[12:00]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Það hefur verið ákaflega fróðlegt að fylgjast með þroskaferli hæstv. fjmrh. Við höfum átt hér samleið í þessari stofnun í sjálfsagt ein fimmtán ár og ég verð að segja það að hæstv. fjmrh. hefur breytt um stíl frá því að við komum hér talsvert mikið yngri en við erum núna og sérstaklega hefur breytingin orðið merkjanleg eftir að hann tók við núverandi ráðherraembætti. Ég tel að það sé um mjög áberandi framför að ræða og hæstv. fjmrh. fari reglulega vel að vera ráðherra og vera fjmrh. Ég er ekki að segja þar með að hann sé heppilegur (Gripið fram í.) sem fjmrh. og ég er ekki þar með að segja að hann ráði vel við embættisfærslu sína en hann hefur hið rétta fas. Tigninni hefur slegið inn og honum fer vel að vera ráðherra. Flestir hinir ráðherrarnir hafa ekki fundið fjölina sína og njóta sín miklu verr. Þó eru dæmi um það, eða einn þeirra a.m.k. fyrir utan hæstv. fjmrh., að hann njóti sín betur nú en áður.
    En í nokkrum orðum sem ég sagði til stuðnings þessu frv. þá lét ég fljóta með tvær, þrjár setningar mér til gamans til að egna fyrir eða til þess að reyna á þolrifin í hæstv. fjmrh. og það fór að getu minni, það hoppaði upp í honum litli frjálshyggjustrákurinn sem einu sinni var svo áberandi í hans fasi og á lítilli stundu bakkaði hann um fimmtán ár á þroskaferlinum. Mér finnst að hæstv. fjmrh. ætti að taka sér

til fyrirmyndar vitra menn, t.d. núverandi nýorðinn borgarstjóra, Árna Sigfússon. Hann reynir að breiða yfir sína frjálshyggjufortíð eins vel og hann mögulega getur. Hann lætur þess ekki getið að hann hafi verið formaður félags frjálshyggjumanna. Hans málflutningur gengur allur út á það að sverja af sér frjálshyggju. Það passar nefnilega ekki fyrir fjmrh. að vera frjálshyggjumaður. Fjmrh. þarf á að halda öllu öðru fremur heldur en frjálshyggju vegna þess að fjmrh. þarf að vera gæddur heilbrigðri skynsemi og eins og kunnugt er fer hún ekki saman við frjálshyggjuna.
    Nú er það eðli frjálshyggjunnar að fjandinn skuli hirða þann síðasta hvernig sem á stendur og ekki megi trufla markaðinn. Það er síður en svo að þetta frv. sé í neinum frjálshyggjuanda. Nú hafa frjálshyggjumenn á Íslandi ekki afneitað pilsfaldakapítalismanum, síður en svo. Aðalhugmyndafræðingur og átrúnaðargoð íslenskra frjálshyggjumanna er einhver ýtnasti pilsfaldakapítalisti landsins sem hefur úti öll spjót að ná sér í styrki og niðurgreiðslur á ritverkum sínum og svo framvegis og svo framvegis. Ég held að mesti frjálshyggjumaður í íslenskri pólitík á síðari árum hafi verið fyrrv. iðnrh., Jón Sigurðsson. Aldrei mátti hann heyra minnst á það á meðan hann var og hét og réð einhverju að markaðurinn væri truflaður hvernig svo sem sá markaður var til kominn. Aldrei mátti hann heyra minnst á það að lækka vexti með handafli. Aldrei mátti hann heyra minnst á það að gripið væri inn í verðmyndun enda er slóðin hans glæsileg og það væri efni í miklu lengri ræðu heldur en ég nenni að flytja hér að rekja þróun iðnaðarins undir stjórn hæstv. fyrrv. iðnrh. En það er ekki efni þessa fundar. Hann mátti aldrei heyra minnst á það að stjórnvöldin trufluðu markaðinn en með þessu frv. eru stjórnvöldin að trufla markaðinn.
    Varðandi það ágreiningsefni í reglugerðardrögunum hvort utanrrn. ætti að úrskurða varðandi milliríkjasamninga þá vík ég ekki frá þeirri skoðun að ég tel að utanrrn. undir núverandi forustu --- og vel að merkja undir núverandi forustu sem vonandi endist ekki mjög lengi úr þessu --- sé alls ekki treystandi til þess að úrskurða um þetta atriði. Alls ekki. Því til sönnunar get ég nefnt fjölmörg dæmi þar sem utanrrh. hefur borið fyrir borð hagsmuni Íslands á kostnað viðsemjenda okkar.
    Nú er það eðli þessa máls að iðulega getur orðið ágreiningur á milli ráðuneyta og þá er það ekki utanrrn. sem á að vera neitt yfirráðuneyti til þeirra úrskurða. Það er auðvitað eðlilegt ef um úrskurðaraðila þarf að vera að ræða að það sé forsrh. Þegar ágreiningur verður á milli ráðuneyta þá er það hlutverk forsrh. að skera úr en ekki hlutverk utanrrh. þó að því miður þess séu allt of mörg dæmi í núverandi stjórnarsamstarfi að hið raunverulega úrskurðarvald, hið raunverulega vald hafi verið í utanrrn. en ekki í forsrn.
    Varðandi þennan ,,litteratúr`` sem hefur verið borinn á borð okkar í morgun og menn hafa gert hér lítillega að umræðuefni. Þetta eru fimm bækur ef ég sé rétt sem hverjum þingmanni hafa verið bornar í morgun. ( Gripið fram í: Ein enn.) Það er ein eftir enn. Hver bók er í kringum 500 blaðsíður. Það eru ekki komnar nema eins og 2.500 blaðsíður af þessum 3.000 sem væntanlegar eru á borðin okkar í dag. Þetta er texti tilskipana frá Brussel, 416 þeirra eru bindandi fyrir Ísland, eitthvað í kringum 80 sem má hafa til hliðsjónar eða þarf ekki að fara beinlínis eftir hvernig sem á stendur. Það er væntanlegt eða kannski komið á borðin og grafið undir þessum bunkum ofurlítil þáltill. upp á fjórar eða fimm línur um það að fullgilda þessar 3.000 síður sem hér er um að ræða. Þessar tilskipanir getum við ekki annað en samþykkt vegna þess að við erum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og við höfum ekkert annað úrræði heldur en bara að samþykkja það sem sent er frá Brussel og ég vek athygli á því að þetta er einungis afraksturinn úr útungunarvélinni í Brussel frá því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var gerður. Þetta er bara það sem hefur fallið til kontóristanna frá 1. ágúst 1991 til síðustu áramóta. Síðan eru margar í bígerð sem við eigum eftir að lögtaka og koma nokkrar í hverri viku. Við getum sem sagt ekkert annað en látið okkur þetta vel líka, þetta er afleiðing af veru okkar á Evrópsku efnahagssvæði, þetta er afleiðing af því að við samþykktum í fyrravetur að gerast aðilar. Við eigum reyndar eftir að fullgilda talsvert margar, ég man ekki hvort þær eru 80 eða 90 af tilskipunum frá fyrri tíð sem komu úr útungunarvélinni fyrir 1. ágúst 1991 og voru partur af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Við getum ekkert annað en samþykkt þetta og svo er því svo haganlega fyrir komið í stofnanakerfi Evrópska efnahagssvæðisins að það er 80 manna lögregla suður í Brussel sem heitir eftirlitsstofnun EFTA. Það eru eitthvað í kringum 11 Íslendingar í þeirri lögreglu og hlutverk þeirrar lögreglu er að passa það að við fullgildum allar þessar tilskipanir og allar þær gerðir sem þarna hafa komið út úr útungunarvélinni. (Forseti hringir.) Þessi sveit er undir forustu Björns Friðfinnssonar sem einu sinni var ráðuneytisstjóri.
    Herra forseti. Þetta er dæmi þess að Alþingi Íslendinga afsalaði sér hluta af löggjafarvaldinu á síðasta Alþingi með inngöngu í Evrópskt efnahagssvæði og það var að sjálfsögðu brot á stjórnarskrá. Ég læt máli mínu lokið, herra forseti.