Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 12:12:31 (5913)


[12:12]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hlýtur nú að hafa tekið vitlaust eftir eða þá að ég hef mismælt mig. Það sem utanrrh. hefur gert er það að hann hefur borið fyrir borð hagsmuni Íslendinga til framdráttar hagsmunum viðsemjenda og það tel ég illa farið og vil ekki láta það gerast oftar.
    Hæstv. fjmrh. taldi eðlilegt að ryðja hindrunum úr vegi og það er gott, en það er bara ekki frjálshyggja. Markaðsöflin fara ekki að lögum ef þau komast hjá því. Það eru náttúrlega óteljandi dæmi þess að markaðurinn hagræðir fyrir sig, ekki fyrir fólkið heldur er markaðurinn að hagræða handa sjálfum sér.
    Ég varð nú fyrir vonbrigðum að vissu leyti af því að mér þykir svo vænt um hæstv. fjmrh. að hann skyldi gangast hér við því að hann væri frjálshyggjumaður enn þá. Mér hefði þótt miklu betra að hann hefði orðað það svo að hann leitaðist við að aðhyllast heilbrigða skynsemi, en því miður er hann ekki kominn á það stig enn þá.