Eignarskattur á íbúðarhúsnæði

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 12:26:30 (5917)


[12:26]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Um nokkuð langan tíma hefur verið deilt um mál sem lúta að eignarskatti á íbúðarhúsnæði og þá einkum og sér í lagi það sem lengi vel hefur verið kallaður ekkjuskattur eða ekklaskattur og hefur mönnum sýnst þar sitt hvað um. En meginregla þeirrar skattlagningar hefur verið sú að hjón sem búa í íbúðarhúsnæði hafa verið skattlögð þannig að eignarhlutfall þeirra hefur mátt vera samtals nærri 7 milljónir en við fráfall maka hefur verið undanþáguákvæði í skattalögum sem hefur virkað þannig að viðkomandi ekkja eða ekkill situr áfram í íbúð og greiðir skatt sem áður var en hefur þó undanþágu til fimm ára áður en skattar verða lagðir á þennan viðkomandi aðila sem einstakling og getur mismunun því orðið allmikil, einkum þegar til þess er litið að ef eignarskattar hækka svo mjög sem raun ber vitni um þá getur það verið mjög erfitt fyrir viðkomandi aðila, og einkum og sér í lagi á þessum tímum, að losa sig við stærra húsnæði til þess að kaupa þá ódýrara og um leið að komast undan þeim háu eignarsköttum sem hafa þá fallið á viðkomandi einstaklinga.
    En þessi till. til þál. um eignarskatt á íbúðarhúsnæði er flutt ásamt þeim sem hér talar af Þuríði Pálsdóttur og Sólveigu Pétursdóttur og hljóðar þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að láta semja og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum um eignarskatt á íbúðarhúsnæði með það að markmiði að:
    a. lækka eignarskattsstofn,
    b. jafna eignarskatt á íbúðarhúsnæði,
    c. sérstakt tillit verði tekið til þeirra sem eru eldri en 67 ára og hafa skerta möguleika til tekjuöflunar.``
    Í greinargerð með þessari þáltill. segir m.a. svo:
    ,,Um langt árabil hefur það verið metnaður ungs fólks hér á landi að eignast eigið íbúðarhúsnæði og er svo enn þótt merkja megi breytingu þar á. Kemur þá einkum til mikil óánægja fólks vegna þess forms á eignarskattsstofni sem hefur verið við lýði í nokkur ár og er verulega íþyngjandi.
    Þá hefur álagning eignarskatts íþyngjandi fjárhagsleg áhrif á ekkjur og ekkla enda þótt þeir aðilar fái fimm ára aðlögun frá andláti maka, þ.e. greiði fyrst eignarskatt sem einstaklingar að fimm árum liðnum frá fráfalli maka. Eignarskattur kemur mjög misjafnlega niður á þessum aðilum og getur orðið allt að fimmfalt hærri hjá einstaklingi en hjá hjónum, enda þótt um sambærilega eign sé að ræða.
    Í breyttu þjóðfélagi er sala fasteigna með öðrum hætti en áður. Þannig seljast stærri fasteignir verr en þær smærri og gerir slíkt öldruðu fólki, ekkjum og ekklum, erfiðara um vik með sölu stærri fasteigna. Ástandið á fasteignamarkaðinum og eignarskatturinn, svo og lækkandi tekjur, gera fyrrnefndum aðilum mjög erfitt að halda eignum sínum.
    Illmögulegt er að fylgja þeirri stefnu sem ríkt hefur í málefnum aldraðra, þ.e. að þeir geti átt eðlilegt heimilislíf og búið sem lengst í eigin húsnæði vegna þessa sérkennilega og háa eignarskatts.
    Flm. telja ekki rétt að hafa langa greinargerð með máli þessu, hvað þá tölulegar upplýsingar málinu til stuðnings svo ljóst sem það má vera fjmrh. og embættismönnum sem í fjmrn. starfa.
    Flm. leggja áherslu á að fjmrh. láti gera hið fyrsta úttekt á eignarskatti einstaklinga með það að meginmarkmiði að sömu gjöld verði greidd af sambærilegu húsnæði án tillits til landfræðilegrar staðsetningar og án tillits til þess hvort einn eða fleiri eigi húsnæðið. Þá er það óviðunandi að eignarskattur í núverandi formi á íbúðarhúsnæði jaðri við eignaupptöku ríkisins þegar til langs tíma er litið.``
    Virðulegi forseti. Ég vísa máli þessu til síðari umr. og legg til að það fari til efh.- og viðskn.