Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 13:38:56 (5921)


[13:38]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um reynslusveitarfélög. Frv. er flutt á grundvelli ályktunar Alþingis frá 8. maí 1993 um að frv. til laga um reynslusveitarfélög verði lagt fyrir Alþingi vorið 1994. Með þál. var félmrh. heimilað að hefja undirbúning að stofnun allt að fimm reynslusveitarfélaga og að skipa fjögurra manna verkefnisstjórn sem hafi yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins um reynslusveitarfélög.
    Verkefnisstjórnin var skipuð í júní 1993. Í henni eiga sæti Sigfús Jónsson landfræðingur, formaður, Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri, Ingimundur Sigurpálsson bæjarstjóri og Sigríður Stefánsdóttir bæjarfulltrúi. Þau tvö síðastnefndu voru tilnefnd af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Verkefnisstjórnin hefur síðan hún var skipuð unnið að undirbúningi verkefnisins, þar á meðal gerð þessa frv. Hún hefur kynnt sér ítarlega framkvæmd hliðstæðra verkefna á Norðurlöndum, kynnt sveitarfélögunum verkefnið og staðið fyrir ráðstefnu um stofnun reynslusveitarfélaga hér á landi.
    Fyrirsjáanlegt er að breytingar munu eiga sér stað á sveitarstjórnarstiginu hér á landi á næstu árum. Auknar kröfur um hagræðingu í rekstri hins opinbera án þess að dregið sé úr velferðarþjónustunni kalla á nýjungar og endurskipulagningu. Efling sveitarstjórnarstigsins getur orðið mikilvægur þáttur í því. Breytingar þær sem telja verður nauðsynlegar á fyrirkomulagi sveitarstjórnarmála hér á landi og unnið hefur verið að af félmrn. í góðu samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga er stækkun sveitarfélaga og flutningur á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga, jafnframt því sem verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði skýrari en nú er og breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og nýtt fyrirkomulag í stjórnsýslu þeirra sem sveitarfélög fá aukið sjálfsforræði til að njóta.
    Talið er að verkefnið um reynslusveitarfélög geti reynst mjög gagnlegt við undirbúning og þróun nauðsynlegra breytinga á íslenska sveitarstjórnarstiginu. Verkefnið felur í sér að ákveðin sveitarfélög fá tækifæri til að reyna í tilraunaskyni nýtt fyrirkomulag í stjórnsýslu og rekstri, þar á meðal yfirtöku nýrra verkefna frá ríkinu. Gert er ráð fyrir að óháðum aðila eða aðilum verði falið að fylgjast með tilraununum og meta að tilraunatímabilinu loknu hvernig til hafi tekist. Niðurstöður þeirra verða síðan nýttar við almenna endurskoðun laga á þessum sviðum. Hliðstæð tilraunaverkefni voru framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum á síðasta áratug. Þar voru sveitarfélögum og fylkjum sem valin voru til að taka þátt í verkefnunum, svokölluðum ,,frikommuner``, veittar undanþágur frá ákvæðum laga og reglugerða. Í stað þeirra voru í tilraunaskyni settar nýjar reglur sem sveitarfélögin fengu tækifæri til að móta. Við mótun nýrra reglna var unnt að nýta þá þekkingu sem fyrir hendi var heima fyrir á viðkomandi málaflokkum og staðbundnum aðstæðum. Verkefnin byggðust fyrst og fremst á áhuga og frumkvæði sveitarfélaganna sjálfra. Á heildina litið er talið að þessi tilraunaverkefni hafi tekist mjög vel og verið mikilvægur þáttur í undirbúningi breytinga og endurbóta á sveitarstjórnarstiginu.
    Rekja má hugmyndina að stofnun reynslusveitarfélaga hér á landi til niðurstöðu nefndar, svokallaðrar sveitarfélaganefndar, sem félagsmálaráðherra skipaði 26. febrúar 1992 til að útfæra nánar tillögur um ný umdæmi sveitarfélaga. Jafnframt var nefndinni falið að gera tillögur um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í tengslum við stækkun og eflingu sveitarfélaganna og tillögur um hvernig auka megi tekjur sveitarfélaga til að standa undir auknum verkefnum.
    Nefndin taldi í áfangaskýrslu sinni, sem gefin var út í október 1992, að stofnun reynslusveitarfélaga að norrænni fyrirmynd gæti verið mikilvæg leið til þess að efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi. Í skýrslunni er lagt til að stofnað verði til nokkurra reynslusveitarfélaga á Íslandi í fjögur ár í tengslum við sameiningu sveitarfélaga til undirbúnings á færslu verkefna og tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga og sem aðdragandi breytinga í stjórnsýslu sveitarfélaga.
    Að lokinni kynningu meðal sveitarstjórna um allt land lýsti fundur fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var í febrúar 1993, yfir stuðningi við tillögu nefndarinnar um stofnun reynslusveitarfélaga.
    Í lokaskýrslu sveitarfélaganefndar, sem út kom í mars 1993, skilgreinir nefndin hugmyndina um reynslusveitarfélög hér á landi þannig að ,,á grundvelli umsókna fái sveitarfélög heimild í tiltekinn tíma og í tilraunaskyni til: að taka að sér framkvæmd nýrra verkefna; að vera undanþegin tilteknum ákvæðum laga og reglugerða sem kveða á um skyldur sveitarstjórna og takmarka ákvörðunarvald þeirra; að reyna nýtt rekstrar- og fjármögnunarfyrirkomulag í tilteknum málaflokkum; og að þróa nýjungar í stjórnsýslu.
    Eins og ég vék að í upphafi máls míns hefur verkefnastjórn sú sem ég skipaði á grundvelli þál. um stofnun reynslusveitarfélaga unnið að gerð þessa frv. Það hefur verið samið í samráði við viðkomandi ráðuneyti og stéttarfélög opinberra starfsmanna. Við samningu þess hafa hliðstæð dönsk og norsk lög mjög verið höfð til hliðsjónar.
    Með frv. er lögð til nokkuð óvenjuleg lagasetning þar sem það felur í sér heimildir til ráðherra til

að veita reynslusveitarfélögum tímabundnar undanþágur frá ákvæðum laga. Er talið óhjákvæmilegt fyrir framgang verkefnisins að ráðherrum verði veittar slíkar heimildir þar sem það sé nánast óframkvæmanlegt ef sækja þarf um lagaheimild fyrir hverja tilraun.
    Rétt er að árétta að heimildir ráðherra til að víkja frá lögum einskorðast við tiltekin lög og ákveðin efnisákvæði. Samkvæmt 2. gr. frv. er um að ræða ákvæði sem kveða á um hvernig stjórnsýsla og starfsemi sveitarfélaga skuli skipulögð, á hvern hátt sveitarfélög skuli leysa verkefni sín, hvernig eftirlit ríkisins með starfsemi sveitarfélaga skuli háttað og ákvæði um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Enn fremur er lagt til að ráðherrum verði heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum sem mæla fyrir um hvernig greiðslur á kostnaði skuli ákvarðaðar, sbr. 19. gr. frv. Gert er ráð fyrir að nýjar reglur í formi samþykktar reynslusveitarfélaga verði settar í stað þeirra ákvæða sem undanþágur verða veittar frá. Reynslusveitarfélögin fái tækifæri til að móta þær reglur í samráði og samstarfi við verkefnisstjórnina og viðkomandi ráðuneyti. Reglurnar öðlast ekki gildi fyrr en sá ráðherra sem fer með viðkomandi málaflokk hefur staðfest þær. Auk þess er áskilið að samþykki fjmrh. liggi fyrir ef tilraunin hefur fjárútlát í för með sér. Samþykktirnar skulu birtar í Stjórnartíðindum þannig að almenningur geti kynnt sér þær.
    Fyrir utan þessa formlegu birtingarskyldu hafa sveitarfélögin almenna upplýsingaskyldu um tilraunir, sbr. 8. gr. frv. Tilraunirnar mega ekki hafa í för með sér skerðingu á réttindum íbúanna eða auknar fjárhagslegar byrðar fyrir þá. Ekki má veita undanþágu frá lögum nema tryggt sé að það skerði ekki þann rétt til þjónustu og fyrirgreiðslu sem íbúarnir njóta samkvæmt gildandi lögum. Undanþágurnar mega heldur ekki hafa í för með sér skerðingu á réttaröryggi íbúanna. Ekki verður heimilt að gera tilraunir sem hefðu það í för með sér að gengið væri á rétt íbúanna samkvæmt stjórnsýslulögum.
    Samkvæmt 2. málslið 9. gr. frv. er ekki heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum sem kveða á um grundvallarstjórn sveitarfélaga, þ.e. ákvæðum um sveitarstjórnirnar sjálfar, byggðaráð og kjörstjórnir.
    Rétt er að benda á að reynsla nágrannaþjóða okkar af framkvæmd hliðstæðra undanþáguheimilda var sú að ráðherra beittu þeim af fullri ábyrgð og reyndar hefur það helst verið gagnrýnt í framkvæmd verkefnanna í þeim löndum að ráðuneyti hafa verið of treg að heimila tilraunir.
    Í frv. eru ákvæði sem geta gert sveitarfélögunum kleift ef þau óska eftir því og samkomulag næst við ríkisvaldið að taka í tilraunaskyni að sér ný þjónustuverkefni. Um leið verði gerðar tilraunir með nýtt og hagkvæmara fjármögunarform. Gert er ráð fyrir að með undanþáguheimildum verði sveitarfélögunum veitt tækifæri til að skipuleggja á hvern hátt þau veita þjónustuna. Einnig sé þeim veitt tækifæri til að móta nýjar reglur um það hvernig þau leysa lögbundin verkefni sín og skipuleggja stjórnsýslu sína. Ekki er gert ráð fyrir að sveitarfélög geti fengið undanþágur frá lögbundnum verkefnum sínum. Á sumum sviðum er þjónustan að nokkru leyti á vegum sveitarfélaga og að nokkru leyti á vegum ríkisins. Þetta á t.d. við um öldrunarþjónustu og þjónustu við fatlaða. Það er því auðsætt að hagræðing væri fólgin í því að þjónusta væri í auknum mæli á sömu hendi.
    Með heimildum frv. til að sveitarfélög geti tekið að sér ný verkefni og skipulagt stjórnsýslu og framkvæmd gefst tækifæri til að gera mjög áhugaverðar tilraunir sem fela í sér bætta þjónustu við íbúana. Sem dæmi um slíka tilraun má nefna hugmyndir um samræmda sérfræðiþjónustu heilsugæslustöðva, fræðsluskrifstofa, svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga sem gerð er nánar grein fyrir í almennum athugasemdum með frv.
    Verkefninu um reynslusveitarfélög er ekki ætlað að hafa í för með sér ný útgjöld fyrir ríkissjóð og þar af leiðandi mun það ekki hafa í för með sér fjárhagslega mismunun milli reynslusveitarfélaga og annarra sveitarfélaga. Hins vegar er hugsunin sú að ef reynslusveitarfélög geti nýtt opinbert fé betur en nú er gert þá fái þau að njóta þess. Gert er ráð fyrir að tilraunin geti staðið til aldamóta, sbr. 21. gr. frv. sem gerir ráð fyrir að lögin skuli gilda til þess tíma. Í þál. kom fram að tilraunatímabilið skyldi standa frá 1. jan. 1995 til 31. des. 1998. Við nánari athugun hefur verkefnisstjórnin talið þetta of skamman tíma. Í því sambandi er einkum haft í huga að gert er ráð fyrir að tilraunir sem fela í sér yfirtöku nýrra verkefna geti ekki hafist fyrr en 1. jan. 1996 þar sem þær krefjast ítarlegs undirbúnings og talið er að nauðsynleg reynsla fáist ekki af slíkum tilraunum nema þær standi yfir í a.m.k. fjögur ár. Gert er ráð fyrir að aðrar tilraunir geti komist til framkvæmda fyrr.
    Með frv. um reynslusveitarfélög er að því stefnt að opna leiðir til að gera tilraunir með því að heimila undanþágur frá ákveðnum lögum. Gert er ráð fyrir að nánari útfærsla á inntaki tilraunanna eigi sér stað eftir að frv. er orðið að lögum í samstarfi reynslusveitarfélaga og viðkomandi ráðuneyta og undir umsjón verkefnisstjórnar. Líklegt er að breyta þurfi lögum um reynslusveitarfélög á tilraunatímabilinu. Eftir að búið er að velja reynslusveitarfélög er unnt að hefja markvissari vinnu með þeim og þá er líklegt að fram komi óskir um tilraunir sem ekki er gert ráð fyrir í þessu frv.
    Ég mun nú gefa yfirlit yfir einstök ákvæði frv.
    Í I. kafla laganna eru almenn ákvæði. Í 1. gr. er kveðið á um markmið laganna sem er að gera sveitarfélögum kleift að gera tilraunir í þeim tilgangi að undirbúa breytingar á löggjöf um stjórnsýslu sveitarfélaga, framkvæmd verkefna þeirra, tekjustofna sveitarfélaga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Áskilið er að með tilraununum skal að því stefnt að auka sjálfsstjórn sveitarfélaga, að laga stjórnsýslu þeirra betur að staðbundnum aðstæðum, að bæta þjónustu við íbúana og nýta betur fjármagn hins opinbera. Í greininni er tekið fram að tilraunir mega ekki hafa í för með sér skerðingu á réttindum íbúanna né fela í

sér auknar fjárhagslegar byrðar fyrir þá.
    Í 2. gr. eru heimildir fyrir ráðherra til að víkja frá lögum takmarkaðar við ákvæði sem kveða á um stjórnsýslu sveitarfélaga og skipulag starfsemi þeirra, hvernig verkefni skuli leyst af hendi, hvernig eftirliti ríkisins með starfsemi sveitarfélaga skuli háttað og síðan verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í 2. mgr. kemur fram að ráðherrum sé ekki heimilt að víkja frá lögum nema tryggt sé að það hafi ekki í för með sér skerðingu á þeim rétti til þjónustu og fyrirgreiðslu sem íbúarnir njóta lögum samkvæmt og að réttaröryggi þeirra haldist óskert. Ákvæðið felur t.d. í sér að ekki má rýra þann rétt sem fatlaðir og aldraðir njóta til þjónustu samkvæmt gildandi lögum eða rétt einstaklinga til félagslegra íbúða. Túlka verður heimildir einstakra ákvæða frv. til að víkja frá lögum með hliðsjón af þessu ákvæði.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir að verkefnisstjórn hafi yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins. Eins og ég hef áður sagt hefur verkefnisstjórnin þegar verið skipuð á grundvelli þáltill. um stofnun reynslusveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að hún starfi allan tilraunatímann. Verkefnisstjórnin á að vera reynslusveitarfélögunum til aðstoðar og leiðbeiningar við undirbúning tilrauna og vera tengiliður þeirra við einstök ráðuneyti. Enn fremur skal hún veita viðkomandi ráðuneytum umsagnir um óskir reynslusveitarfélaga um tilraunir. Gert er ráð fyrir að fulltrúar ráðuneyta sitji fundi verkefnisstjórnar þegar málin sem þau varðar eru þar til umfjöllunar.
    Í 4. gr. frv. eru ákvæði um fjölda reynslusveitarfélaga og val á þeim. Lagt er til að félmrh. taki á grundvelli umsagna og að fengnum tillögum verkefnisstjórnar ákvörðun um hvaða sveitarfélög skuli verða reynslusveitarfélög. Lagt er til að við val á reynslusveitarfélögum skulu þau sjónarmið höfð til hliðsjónar að þau séu sem fjölbreytilegust að stærð og gerð, en sveitarfélög sem sækja um þátttöku í tengslum við sameiningu skuli að öðru jöfnu hafa forgang.
    Með bréfi dags. 29. júlí 1993 til allra sveitarstjórna óskaði verkefnisstjórn eftir umsóknum og þátttöku í verkefninu og var umsóknarfrestur ákveðinn til 1. okt. 1993. Í samræmi við álit sveitarfélaganefndar sem rakið var í athugasemdum með þáltill. um stofnun reynslusveitarfélaga var tilgreint í bréfi að sveitarfélög sem sækja mundu um þátttöku í tengslum við sameiningu mundu njóta forgangs, einkum þegar sveitarfélög á stóru svæði sameinast. Áhugi sveitarfélaga á þátttöku í verkefninu reyndist mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir en alls bárust 37 umsóknir frá 56 sveitarfélögum. Í almennum athugasemdum með frv. er gerð grein fyrir því hver þau eru. Sjö umsóknir voru frá sveitarfélögum sem samþykkt hafa sameiningu. Í 4. gr. er lagt til að reynslusveitarfélögin geti orðið allt að 12. Í þáltill. er gert ráð fyrir að þau yrðu allt að fimm. Ástæðan fyrir tillögu um fjölgun er annars vegar að þegar hafa verið gefin fyrirheit um að þau sveitarfélög sem sækja um þátttöku í verkefninu í tengslum við sameiningu hafi forgang. Hins vegar er ástæðurnar þær að verkefnisstjórnin telur eftir að hafa kynnt sér framkvæmd hliðstæðra verkefna á Norðurlöndum að í hópi reynslusveitarfélaga þurfi að vera nokkur fjölmenn sveitarfélög og að heppilegra sé að skipuleggja verkefnið þannig að hvert sveitarfélag taki að sér takmarkaðan fjölda verkefna. Í fyrri hugmyndum var miðað við að þau fimm sem tækju þátt gætu tekið öll verkefni sem í boði væru. Við nánari athugun er talið að slíkt mundi vera stjórnsýslu þeirra ofviða.
    Í 5. gr. frv. er lagt til að ráðherrum verði heimilt að nýta reglugerðarheimildir í lögum til að setja sérstakar reglugerðir sem gilda eingöngu í reynslusveitarfélögum, einu eða fleirum. Slíkar reglugerðir verða að eiga sér stoð í viðkomandi lögum. Til þess að tryggja það sem best að niðurstöður og árangur verkefnisins verði ekki dreginn í efa er í 6. gr. frv. ákvæði um að skylt sé að fela óháðum aðila eða aðilum að taka út tilraunir og meta hvernig til hafi tekist. Í ákvæðinu er enn fremur lagt til að félmrh. skuli kynna niðurstöður þeirra á Alþingi. Enn fremur er gert ráð fyrir að félmrh. skuli hlutast til um að skýrslur verkefnisstjórnar um framkvæmd verkefnisins verði lagðar fyrir Alþingi til kynningar að tilraunatímabilinu hálfnuðu og að því loknu.
    Í II. kafla frv., 7. og 8. gr., eru ákvæði um samþykktir fyrir reynslusveitarfélög og skyldur sveitarstjórna reynslusveitarfélaga til að kynna fyrirhugaða tilraunastarfsemi og veita upplýsingar um framgang tilrauna. Eins og ég vék að hér áðan er gert ráð fyrir að settar verði sérstakar reglur um tilraunir í formi samþykktar. Byggt er á því að almennar reglur sveitarstjórnarlaga gildi um málsmeðferð við setningu slíkra samþykkta. Samþykktirnir öðlast ekki gildli fyrr en viðkomandi ráðherra hefur staðfest þær.
    Í III. kafla frv., 9. gr., eru ákvæði um stjórnsýslutilraunir. Lagt er til að ráðherrum verði heimilt að víkja frá ákvæðum laga um nefndir og stjórnir sveitarfélaga þegar reynslusveitarfélög eiga í hlut. Heimildin nær til ákvæða sem kveða á um að nefndir eða stjórnir skulu skipaðar, hvernig þær skuli skipaðar og hver verkefni þeirra skuli vera. Heimildin nær ekki til ákvæða um sveitarstjórnir, byggðaráð og kjörstjórnir. Tryggt verður að vera að lögboðnum verkefnum viðkomandi nefnda og stjórna verði sinnt á fullnægjandi hátt án þess að réttaröryggi íbúanna sé skert.
    Síðan koma kaflar sem snerta einstök ráðuneyti. Þeir hafa verið samdir í samráði við viðkomandi ráðuneyti. Auk þeirra ráðuneyta sem ákvæði eru um í frv. áttu sér stað viðræður við menntmrn. og samgrn. Við menntmrn. var einkum rætt hvort til greina komi að reynslusveitarfélög taki að sér rekstur framhaldsskóla en fram hefur komið áhugi á því. Ráðuneytið taldi slíkt ekki ráðlegt á þessu stigi.
    Við samgrn. var einkum rætt um hugsanleg verkefni reynslusveitarfélaga á sviði hafnamála, vegamála og flugmála. Ráðuneytið taldi að fullnægjandi heimildir væru þegar í gildandi lögum eða frumvörpum sem til meðferðar eru á Alþingi til þess að koma til móts við óskir reynslusveitarfélaga á þessum sviðum.
    Í IV. kafla eru ákvæði um heimildir félmrh. Í 10. gr. er lagt til að félmrh. hafi heimild til að víkja frá ákvæðum um félagslegar íbúðir í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, en umsækjendur um þátttöku í verkefnunum hafa lýst yfir miklum áhuga og tilraunum á þessu sviði. Fyrst og fremst eru höfð í huga ákvæði um skipulag félagslegra húsnæðismála í sveitarfélögum og eftirlit Húsnæðisstofnunar með þeim. Í því sambandi er hugsanlegt að sveitarfélög taki á sig meiri ábyrgð á lánveitingum til félagslegra húsnæðismála.
    Í 11. gr. er lagt til að félmrh. verði heimilað að fela reynslusveitarfélagi að annast þjónustu við fatlaða. Hliðstætt ákvæði er í lögum um málefni fatlaðra.
    Í 12. gr. er lagt til að félmrh. verði heimilt að víkja frá ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar og ákvæðum laga um vinnumiðlun í því skyni að gera reynslusveitarfélögunum kleift að gera tilraunir til að bæta þjónustu við atvinnulausa.
    Í 13. gr. frv. er ætlað að veita möguleika á tilraunum með nýtt fyrirkomulag um úthlutun framlaga til reynslusveitarfélaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að félmrh. muni, ef heimildin verður nýtt, setja reglugerð um útreikninga og skilyrði fyrir úthlutun. Ekki er gert ráð fyrir að þetta hafi í för með sér aukin framlög úr Jöfnunarsjóðnum til reynslusveitarfélaga, heldur muni þessi framlög koma í stað framlaga sem renna mundu til reynslusveitarfélaga samkvæmt gildandi ákvæðum. Framlögin yrðu ákvörðuð eftir nýjum reglum. Af því leiðir að ekki er unnt að setja reglugerð um útreikning og úthlutun slíkra framlaga nema að höfðu samráði við reynslusveitarfélögin.
    Í V. kafla eru ákvæði um heimildir heilbr.- og trmrh. Í 14. gr. er lagt til að honum verði heimilt að fela reynslusveitarfélagi byggingu og rekstur heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss gegn umsamdri greiðslu á kostnaði.
    15. gr. gerir ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að veita reynslusveitarfélagi sem tekur að sér rekstur heilbrigðisþjónustu eða þjónustu við aldraða undanþágu frá ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu og laga um málefni aldraðra. Heimildir hans til að víkja frá þessum lögum takmarkast af ákvæðum 2. gr. frv. T.d. var ekki heimilt að víkja frá ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu sem mæla fyrir um hvaða þjónusta skuli veitt á heilsugæslustöðvum eða ákvæðum sem mæla fyrir um að fagfólk skuli annast þjónustuna.
    Í VI. kafla eru ákvæði um heimildir umhvrh. Um er að ræða heimildir til að víkja frá ákvæðum byggingarlaga um meðferð umsókna um byggingarleyfi og verksvið byggingarfulltrúa í reynslusveitarfélagi samkvæmt 16. gr. og ákvæðum skipulagslaga um gerð skipulagsuppdrátta og meðferð skipulagstillagna. Það sem liggur að baki þessum ákvæðum er að unnt verði að gera tilraunir til að einfalda og flýta meðferð mála á þessum sviðum. Slíkar tilraunir mega ekki hafa í för með sér skerðingu á réttaröryggi íbúanna, t.d. þannig að gengið sé á rétt þeirra til málskots.
    Í VII. kafla eru sérákvæði um flutning verkefna til reynslusveitarfélaga. Sérstök áhersla er lögð á það við gerð frv. að sem minnst röskun verði á högum starfsfólks ef verkefni eru flutt í tilraunaskyni frá ríki til sveitarfélaga.
    Í 18. gr. frv. sem samin var í samráði við stéttarfélög opinberra starfsmanna er lagt til að ekki verði breyting á réttarstöðu og réttindum hlutaðeigandi starfsmanna að öðru leyti en því að þeir teljist vera í þjónustu sveitarfélaga meðan á tilrauninni stendur. Þannig verði ríkið áfram aðili að ráðningarsamningi starfsmanna og lífeyrisréttindi þeirra og stéttarfélagsaðild haldist óbreytt.
    Í 2. mgr. 18. gr. er lagt til að viðkomandi fagráðherra, fjmrh. og sveitarfélög, skuli áður en til verkefnaflutnings kemur semja um ábyrgðir sínar og greiðslur vegna réttinda og kjara starfsmanna. Í því sambandi eru höfð í huga atriði eins og ábyrgð á greiðslu biðlauna, ef staða er lögð niður, ábyrgð vegna tjóns sem starfsmaður veldur í starfi sínu, fyrirkomulag launagreiðslu o.fl.
    Í 19. gr. er lagt til að ef reynslusveitarfélag yfirtaki verkefni frá ríkinu sé heimilt að gera tilraun með nýtt fyrirkomulag á greiðslu kostnaðar og að viðkomandi ráðherra sé í því sambandi heimilt að fengnu samþykki fjmrh. að víkja frá ákvæðum laga sem mæla fyrir um það efni. Það sem liggur að baki ákvæðinu er fyrst og fremst að veita möguleika á tilraunum með að fjármagna verkefni með rammaframlögum í stað eyrnamerktra framlaga. Í lokakafla frv., 20. og 21. gr. eru hefðbundin reglugerðar- og gildistökuákvæði.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að gefa yfirlit yfir þetta frv. Stofnun reynslusveitarfélaga er einn þáttur í eflingu sveitarstjórnarstigsins hér á landi. Það er afar mikilvægt að sveitarstjórnarstigið þróist hér á landi til samræmis við þær breytingar sem átt hafa sér stað í byggð, atvinnulífi og samgöngum svipað og gerst hefur annars staðar á Norðurlöndum á undanförnum árum og áratugum. Með eflingu sveitarfélaganna á sér einnig stað mikilvæg valddreifing í þjóðfélaginu frá stjórnsýslustofnunum ríkisins í höfuðborginni til landsbyggðarinnar. Efling sveitarfélaganna er þannig einhver áhrifaríksti þáttur byggðastefnunnar.
    Verkefnið um reynslusveitarfélög felur í sér nýjung í okkar stjórnsýslu, þ.e. að gera með formlegum hætti tilraun í nokkur ár sem þátt í undirbúningi meiri háttar breytinga sem gilda fyrir heildina. Slík hugmyndafræði getur nýst okkur á mörgum öðrum sviðum stjórnsýslunnar. Það er þess vegna brýnt að mál þetta nái fram að ganga hér á Alþingi. Sveitarfélögin hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga og er þess að vænta að Alþingi muni skoða málið með jákvæðum huga. Frv. felur vissulega í sér óhefðbundna lagasetningu en hafa verður í huga að það sem málið snýst um er að gera tímabundna tilraunastarfsemi mögulega. Einnig er rétt að hafa í huga að hliðstæð lög hafa verið samþykkt í þeim löndum sem standa okkur næst í löggjöf og að reynslan af framkvæmd þeirra hefur verið jákvæð.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið þessari framsögu. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn.