Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 14:21:12 (5923)


[14:21]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. 2. þm. Austurl. að þetta mál hefur aldeilis þanist út frá því að það var kynnt í upphafi. Menn eru farnir að tala um að það verði til a.m.k. 12 reynslusveitarfélög í staðinn fyrir þau fimm sem upphaflega var stefnt að að yrðu til. Auk þess sem þessi lagasetning er með allt öðrum hætti heldur en a.m.k. ég hafði ímyndað mér. Ég taldi að hér yrðu sett skýr lög um hvað ætti að gerast en ég verð að spyrja vegna þess að ég hef ekki tekið þátt í lagasetningu á Alþingi svo lengi að ég hafi þekkingu til að dæma um þá hluti hvort lagasetning af þessu tagi sé framkvæmanleg. Í þessum lagatexta er á mörgum stöðum talað um að ráðherra sé heimilt að víkja frá lögum. Nú veit ég ekki hvort það verður mögulegt að afmarka möguleika ráðherra til að víkja frá lögunum þannig að það sé hægt að sjá það fyrir hvaða tilvik muni koma upp þar sem ráðherra getur ákveðið það einn og sjálfur að víkja frá viðkomandi lögum.
    Mig langar t.d. til að spyrja um þar sem talað er um að ráðherra sé heimilt að víkja frá ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Er ekki hætt við því ef farið er að víkja frá lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins um einhver einstök 12 sveitarfélög í landinu, þar sem einhver 12 einstök sveitarfélög í landinu eiga í hlut, að þá verði jafnræðisregla brotin gagnvart öðrum íbúum landsins? Eins er það ef ég nefni hér 13. gr., þar stendur:
    ,,Félagsmálaráðherra er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. mgr. 11. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990, með síðari breytingum, þannig að tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði varið til greiðslu framlaga til reynslusveitarfélaga sem komi að öllu eða nokkru leyti í stað sérstakra framlaga skv. 13. gr. laganna og jöfnunarframlaga skv. 14. gr. til þeirra. Í reglugerð skal setja ákvæði um útreikning þessara framlaga og skilyrði fyrir úthlutun.``
    Ef ráðherra getur vikið frá þessum reglum er þá ekki hætta á því að það verði framkvæmt með þeim hætti að það renni meiri fjármunir til þessara sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóðinn en til annarra sveitarfélaga? Getur það gengið að ráðherrann hafi vald til þess að veita fjármuni sérstaklega til þessara reynslusveitarfélaga með þessum hætti?
    Mig langar til að fá hæstv. ráðherra til að útskýra það nánar hvernig hann muni beita þessu ákvæði og hvort það sé ekki hætta á því að önnur sveitarfélög telji sig verða fyrir skerðingum vegna þessa ákvæðis. Eins velti ég því fyrir mér þegar gefin er heimild til þess að ráðherrar fái að víkja eða hafi heimildir til að víkja frá lögum vegna þessara tilraunasveitarfélaga hvort ekki komi mótmæli frá öðrum sveitarfélögum og kröfur um að lögum verði breytt í kjölfarið þannig að aðrir hafi sömu möguleika sem þarna munu koma upp. Ég hef áhyggjur af þessu og ég taldi í einfeldni minni að þetta mundi aldrei bera að með þessum hætti heldur yrðu sett skýr lög um það hvað yrði frábrugðið hjá tilraunasveitarfélögunum. Það yrði ekki með þessum hætti hafðar svona opnar reglur þar sem ráðherrar nánast skera úr um öll atriði í framkvæmdinni. Ég vonast til þess að í hv. nefnd, sem tekur þetta mál til meðferðar, verði hugað sérstaklega að þessu hvort það er ekki hægt að gera þessa hluti miklu skýrari en þeir eru í þessum lagatexta. Ég er sammála því sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér áðan að ef svo mörg og svo stór sveitarfélög sem nú hafa sótt um að verða tilraunasveitarfélög fara að vinna undir öðru kerfi en verið hefur þá er það raunverulega ekki tilraunastarfsemi heldur er það stórt skref í áttina að því að breyta verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það út af fyrir sig þarf ekki að vera vondur hlutur en hann er þá undir öðrum formerkjum heldur en hann ætti að vera. Og menn þurfa auðvitað að taka ákvörðun um þessa breyttu verkaskiptingu en ekki ákvörðun um það að hafa tilraunastarfsemi sem mun síðan ekki reynast sem slík heldur verða í upphafi ákvörðun um að gera þessar breytingar nánast.
    Ég held að það sé til á þessu nokkur skýring, af hverju lagt er til að 12 sveitarfélög verði gerð að reynslusveitarfélögum. Ég held að skýringin sé sú að í aðdraganda kosninganna um sameiningu sveitarfélaga þá lofuðu menn of miklu. Það var nánast alls staðar verið að lofa því fólki sem býr í þeim sveitarfélögum þar sem kosið var um sameiningu þessum möguleika að viðkomandi sveitarfélag yrði tilraunasveitarfélag. Og ég held að það standi allir í þeirri meiningu sem hafa ákveðið einhverjar sameiningar að þeirra sveitarfélög verði tilraunasveitarfélög. Og að þeir eigi ekki bara góðan möguleika á því heldur hafi þeir allt að því gulltrygg loforð fyrir því að um tilraunasveitarfélög verði að ræða. Ég býst við að undir þessum aðstæðum hafi kannski skapast sú hugmynd að fjölga tilraunasveitarfélögum svona mikið til þess að geta staðið við þessi loforð eða hálfgildings loforð sem komu fram á fundum víða um land.
    Ég vil endurtaka að lokum, hæstv. forseti, að ég tel að það þurfi að skoða þetta frv. með það fyrir augum að hér verði skýrari lagatexti lagður fyrir, að það verði vitað nákvæmlega í hverju þessi tilraunasveitarfélög verða frábrugðin öðrum sveitarfélögum þannig að ekki komi upp alls kyns ósætti sem mun fylgja því ef ráðherrar hafa möguleika og undir þrýstingi þurfa að taka ákvarðanir um mismunandi reglur í sveitarfélögunum. Þess vegna vona ég að hv. nefnd, þó tíminn sé naumur, takist að vinna þannig í þessu máli að það verði betri lagatexti sem komi til 2. umr. en sá sem hér er til umræðu.