Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 14:35:06 (5925)


[14:35]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er komið á borð okkar þó seint sé það frv. sem við höfum mátt búast við frá því að þáltill. um reynslusveitarfélögin var samþykkt. Ég verð að viðurkenna að það er í svolítið öðru formi heldur en ég bjóst við og þá fyrst og fremst það sem lýtur að heimildarákvæðum sem eru til ýmissa ráðherra um að víkja frá gildandi lögum og segir ósköp lítið annað en að ráðherra sé ekki heimilt að víkja frá lögum nema tryggt sé að það hafi ekki í för með sér skerðingu á þeim réttindum, þjónustu og fyrirgreiðslu sem íbúarnir njóta lögum samkvæmt og réttaröryggi þeirra haldist óskert. Að öðru leyti er þetta mjög opin heimild og segir einhvers staðar í greinargerð að þarna sé tekið tillit til þess sem hafi verið ákvarðað á hinum Norðurlöndunum en rétt sé að taka fram að við gerð frv. hafi hliðstæð dönsk og norsk lög mjög verið höfð til hliðsjónar. Þau feli á sama hátt og þetta frv. í sér heimildir til að veita sveitarfélögum undanþágu frá lögum svo að þau geti í tilraunaskyni mótað nýjar reglur sem koma í stað þeirra lagareglna sem þeim eru veittar undanþágur frá.
    Á öðrum stað í frv. segir hins vegar að það sem sé fyrst og fremst ólíkt með þessari tilraun hér og á hinum Norðurlöndunum sé að það hafi ekki verið sama tilhneiging til þess að stýra með lögum og reglugerðum ákvarðanatöku sveitarfélaga. Ég hefði fyrst viljað spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki hefði verið eðlilegt að setja hér inn frv. til laga um reynslusveitarfélög og veita heimildina til þess að fara í þessa tilraun, sem ég tel vera jákvæða, en geyma aftur á móti að veita þessar heimildir til ráðherra þar til búið væri að ákveða hvaða verkefni nákvæmlega það verða sem sveitarfélögin fara í sem hlýtur að stjórnast fyrst og fremst af því hvaða sveitarfélög verða valin.
    Annað sem stingur mig svolítið er sú verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga sem ráðherra hefur nú þegar skipað. Samkvæmt greinargerð eiga sæti í þeirri verkefnisstjórn Sigfús Jónsson landfræðingur, Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri, Ingimundur Sigurpálsson bæjarstjóri og Sigríður Stefánsdóttir bæjarfulltrúi. Sigfús Jónsson landfræðingur var áður sveitarstjóri fyrir norðan og svo bæjarstjóri á Akureyri og í stjórninni eru starfandi bæjarfulltrúi og bæjarstjóri. Ég sé það síðan í yfirliti yfir þau sveitarfélög sem hafa sótt um að gerast reynslusveitarfélög að það gæti farið svo að þar yrði um hagsmunaárekstra að ræða. Verkefnisstjórnin er ekki alveg hlutlaus í vali sínu þegar í stjórninni eiga sæti starfandi bæjarfulltrúi eða bæjarstjóri hjá sveitarfélagi sem sækir um að gerast reynslusveitarfélag og verkefnastjóri á að taka ákvörðun um það hvort sveitarfélagið fær að taka þátt í þessari tilraun. Ég hefði viljað spyrja ráðherra að því hvort ekki sé óeðlilegt að þeir sem sitja í verkefnisstjórninni eigi einhverra hagsmuna að gæta þegar farið verður í þetta val. Með því er ég ekki að ætla þessum fulltrúum að gæta ekki hlutleysis en ég held að það hljóti samt að verða dálítið erfitt þegar starfandi bæjarstjóri eða sitjandi bæjarfulltrúi á að fara að fjalla um sitt eigið sveitarfélag og umsókn þess.
    Í 14. gr. segir: ,,Heilbr.- og trmrh. er heimilt að fela reynslusveitarfélagi byggingu og/eða rekstur heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss gegn umsamdri greiðslu á kostnaði úr ríkissjóði og framlagi úr Framkvæmdasjóði aldraðra ef við á.``
    Hvað þýða orðin ,,ef við á``? Samkvæmt lögum og reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra er heimilt að taka ákveðið hlutfall úr sjóðnum til rekstrar þessara stofnana ef það er beint í þágu aldraðra. Nú þarf ekkert endilega að vera um rekstur langlegudeildar fyrir aldraða að ræða. Það getur líka verið um það að ræða að fyrir fram sé gerður samningur um eins og 10--20 mjaðmaaðgerðir á öldruðum á viðkomandi sjúkrahúsi. Þá er heimilt að taka framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Því að það hefur átt sér stað a.m.k. á síðustu tveimur árum að það hafa verið gerðir slíkir sérsamningar við nokkur sjúkrahús þar sem þau hafa fengið framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna mjaðmaaðgerða. Þær hljóta þá að vera framkvæmdar á öldruðum sem einir eiga rétt til framlaga úr þessum sjóði.
    Þá segir í 19. gr.: ,,Ef reynslusveitarfélag yfirtekur verkefni frá ríkinu samkvæmt lögum þessum

er heimilt að gera tilraun með nýtt fyrirkomulag á greiðslu kostnaðar og er viðkomandi ráðherra í því sambandi heimilt, að fengnu samþykki fjmrh., að víkja frá ákvæðum laga sem mæla fyrir um það efni.``
    Ég býst við að þarna sé verið að fjalla um fjárlög ríkisins og mér finnst það bara með öllu óeðlilegt að fjmrh. einn fái þá heimild að ráðskast með fjárframlög Alþingis sem Alþingi hefur ákveðið til einstakra verkefna og væri þá eðlilegra að í 19. gr. væri kveðið á um að tekin yrði ákvörðun um þær breytingar sem yrðu vegna þessa í fjáraukalögum hverju sinni.
    Í greinargerðinni segir á bls. 7: ,,Framkvæmd nýrra verkefna og tilraunir með nýtt rekstrar- og fjármögnunarfyrirkomulag í vissum málaflokkum á grundvelli samkomulags við ríkið.`` Þetta fjármögnunarfyrirkomulag er svonefnd rammafjármögnun, sem ég held að sé jákvæð, en það verður þó alltaf að vera alveg klárt hvað á að liggja að baki þessari rammafjármögnun. T.d. þar sem talað er um málefni fatlaðra segir að slík rammafjármögnun skuli miðast við fjölda fatlaðra, fötlunarstig þeirra og hvaða þjónusta er í boði. Ég veit ekki til þess að það sé búið að ganga frá því í ráðuneytinu --- það er þá alveg nýlega ef það liggur fyrir mat á fötlunarstigi og hvað það þýðir í fjárframlögum. Það hefur a.m.k. ekki verið hægt að gera slíka rammasamninga við þær stofnanir sem hafa sótt um það vegna þess að þetta mat eða forsendur fyrir slíku mati hafa ekki legið fyrir.
    Síðan kemur að öldrunarþjónustunni og þá á þessi rammafjármögnun að vera þannig að hún á að byggjast á fjölda aldraðra í sveitarfélögum og aldri þeirra en ekki á mati á þjónustuþörf viðkomandi en hún getur verið afar misjöfn. Hún fer ekkert endilega eftir aldri. Þjónustuþörf aldraðra getur verið jafnmismunandi og þjónustuþörf fatlaðra. Mér fyndist eðlilegt að þarna kæmi inn nákvæmt mat á þjónustuþörf. Ef það á að byggja framlög á einhvers konar ramma þá komi þarna inn mat á þjónustuþörf aldraðra ekkert síður en fatlaðra.
    Ég vil síðan aðeins ítreka það að mér finnst eðlilegt að í verkefnastjórninni séu óháðir aðilar, þ.e. aðilar sem tengjast ekki þeim sveitarfélögum sem sækja um þegar ákvörðun verður tekin um það hvaða sveitarfélög fá að gerast reynslusveitarfélög. Og vonandi mun nefndin breyta því í umfjöllun sinni að það verði ekki svona galopin heimildarákvæði til handa ráðherra. Reyndar eru þau fyrst og fremst til hæstv. ráðherra Alþfl. því að það er heilbrrh., umhvrh. og félmrh. Mér hefði fundist eðlilegt að það væri ákveðin takmörkun á þeim heimildum sem þeir hafa til þess að víkja frá lögum eða breyta reglugerðum eins og gert er ráð fyrir í frv. Mér sýnist að það sé algerlega opin heimild til að setja reglugerðir og víkja frá lögum og þarf að skilgreina það mun betur en hér er gert.
    Ég býst við að undirbúningur standi fram á haust. Þegar búið er að velja reynslusveitarfélögin þá þurfi marga mánuði til að ákveða hvaða verkefni fara til þessara sveitarfélaga og þess vegna sé allt í lagi að láta þessar heimildir bíða til haustsins úr því að það liggur ekki fyrir nánari útfærsla á þeim. Allur þessi undirbúningur er búið að taka töluverðan tíma og sjálfsagt að skoða þetta yfir sumarið og leggja það síðan fyrir Alþingi í haust þannig að við vitum nákvæmlga hvað við erum að gera. Ef við samþykkjum frv. eins og það er þá vitum við ekkert hvaða vald við erum að fá viðkomandi hæstv. ráðherrum.