Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:08:42 (5931)


[15:08]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mér láðist að biðja um orðið undir liðnum andsvör en ég hef eina örstutta spurningu til hæstv. ráðherra. Það kom fram hjá henni áðan að það gæti orðið mismunandi samningar sem yrðu gerðir við sveitarfélögin. Ég hafði tilfinningu fyrir því að þetta væri samanburðartilraun þar sem væri verið að skoða það hvernig sveitarfélögum af mismunandi stærð og gerð og mismunandi staðsetningu alls staðar á landinu gengi að sinna sambærilegum verkefnum með tilliti til þess að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Niðurstaða þessara tilrauna, sem yrði síðan tekin út af óháðum aðilum, leiddi það í ljós hvað af þessum verkefnum færi yfir til sveitarfélaganna. En með því að það verða gerðir mismunandi samningar við sveitarfélögin og mismunandi verkefni fara yfir til sveitarfélaganna þá er vonlaust að gera þennan samanburð af einhverju viti og ætla hvaða verkefni það eru sem sveitarfélög af mismunandi stærð og staðsetningu geti tekið við. Ég vildi því heyra aðeins betur frá hæstv. ráðherra hvernig þessi tilraun er hugsuð. Ef samningarnir eru mismunandi og mismunandi verkefni er þetta þá hugsað þannig í framtíðinni að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði almennt á mismunandi hátt eftir því hvaða sveitarfélag á í hlut?