Hópuppsagnir

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:35:18 (5940)



[15:35]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er í tengslum við aðild okkar að EES-samningnum og breytingu á lögum um hópuppsagnir en frv. þess efnis var til meðferðar á fyrra þingi. Ég hef ekki mörg orð um þetta frv. að segja. Það horfir til réttindabóta fyrir launafólk og ég hef í sjálfu sér ekki við efni þess að athuga. Hins vegar kemur upp í hugann í sambandi við þetta mál, réttindamál launafólks almennt, og sú umræða sem er að koma upp í þjóðfélaginu um launafólkið í landinu. Ég held að það séu viss hættumerki í því efni að öfl hér á landi séu að koma af stað þeirri umræðu að það eigi að minnka réttindi launafólks á sem flestum sviðum. Dæmi um það var sjónvarpsþáttur sem var sl. þriðjudagskvöld þar sem nokkrir menn úr atvinnu- og efnahagslífi ræddu saman. (Gripið fram í.) Þeir segja það. Þar lét framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins svo ummælt, og þar er einmitt maður sem er að krefjast þess að við göngum í Evrópubandalagið, að við ættum að varðveita sérstöðu okkar á ákveðnum sviðum. Á hvaða sviðum ætli það hafi verið? Það var að varðveita sérstöðu okkar að því leyti að hér væri auðveldara að reka fólk og segja því upp heldur en annars staðar í Evrópu. Þetta ættum við að varðveita. Þetta væri sérstaða sem við ættum að varðveita. Mér finnst þetta benda inn í ákveðna umræðu.
    Daginn eftir að þessi sjónvarpsþáttur var sendur út fékk ég í hendur fréttabréf --- nú er verst að hæstv. fjmrh. er ekki hér því það er kominn upp sá siður að hér sést ekki nokkur ráðherra nema sá sem ber ábyrgð á því máli sem er á dagskrá. Það er því ekki hægt að ávarpa þá hæstvirta. En ég fékk fréttabréf frá fjmrn. sem heitir Fjárhirðirinn. Þar var forsíðugrein um atvinnuleysisvandann sem er mikill í þjóðfélaginu og hina alþjóðlegu strauma sem væru í þessum efnum. Og hvað ætli hafi verið til úrræða? Hvað ætli hafi verið til ráða? Hvað var orsökin að þessum vanda samkvæmt þessari grein? Það voru lágmarkslaun, það þyrfti að auka sveigjanleika á því sviði, það þyrfti að stytta bótatímann í atvinnuleysisbótum og það þyrfti að endurskoða upphæð bóta þannig að fólk leitaði sér að vinnu í staðinn fyrir að vera atvinnulaust. Þetta er umræðan um réttindi launafólks í landinu.
    Hvað rekur fjmrn. til að gefa þetta út og hefja þessa umræðu? Og hvað rekur framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins til að hefja þessa umræðu? Er verið að nota atvinnuástandið í landinu til þess að koma af stað umræðu um það að taka réttindin af launafólki?
    Ég get rakið miklu fleira en allt þetta kemur upp í hugann þegar þetta frv. er lagt fram þar sem er þó aðeins verið að herða á að launafólk hafi örlítið meiri réttindi varðandi uppsagnir heldur en verið hefur.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að orðlengja um þessi mál en ég ætla að vara við þessari umræðu, sérstaklega af því að hér kom mál á dagskrá varðandi réttindi launafólks. Mér finnst mörg teikn í þjóðfélaginu benda til þess að það eigi að setja áróðursherferð af stað um að minnka réttindi launafólks í landinu en auka þau ekki.