Hópuppsagnir

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:53:16 (5942)


[15:53]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta plagg er ekki stórt en það setur að manni nokkuð mikinn óhug þegar maður les það. Það hafa aðrir á undan mér reifað orsakir þess. Þetta er framandi plagg frá stórum þjóðaheildum sem á svo að gilda í þessu litla landi. Þegar betur er að gáð á þetta plagg fyrst og fremst við um það þegar fjölþjóðafyrirtæki eru búin að setja upp útibú í þessu smáa landi. Það á fyrst og fremst við um slíkar aðstæður. Um leið og við fáum svo fimm til sex stóra doðranta um önnur lög sem eiga að taka gildi á Íslandi þá verður óhugnaðurinn enn þá meiri. Það er eins og við séum --- kannski ekki eins og við séum heldur erum við hreinlega búin að missa lögsöguna í okkar eigin landi. Við erum tæplega lengur frjáls þjóð.
    Það er rætt hér um félagslegar aðgerðir til að forðast áhrif hópuppsagna. Þær eru ansi fáar þessar félagslegu aðgerðir sem við getum gripið til þó nokkrar séu. Ég vil undirstrika það við hæstv. félmrh. að við þurfum að auka þessar aðgerðir og þessa útvegi eins og mögulegt er. Það verður að fylgja í kjölfarið á svona lögum ekki síður en að við eltum næstu lög frá Brussel til að samþykkja.
    Hv. 2. þm. Austurl. ræddi um hvort verið væri að undirbúa, ef ég man orðalag hans rétt, áróðursherferð gegn launþegum þessa lands. Mér finnst þetta ansi vægt til orða tekið. Þessi áróðursherferð er löngu löngu hafin. Við höfum séð hana magnast allt í kringum okkur. Sá þáttur sem hann sá á þriðjudagskvöldið í sjónvarpinu var bara einn af mögum þáttum í þá átt sem hafa heyrst í fjölmiðlum núna árum saman. Ég held að við verðum að gæta okkar vandlega á því að um leið og við hleypum svona málflutningi stanslaust yfir þjóðina án þess að hindra hann nokkurn skapaðan hlut þá erum við að veikja eina af styrkustu stoðum þjóðarinnar, þ.e. verkalýðs- og launþegafélögin. Þetta eru skipulagðar aðgerðir sem verður að stoppa. Þessar aðgerðir eru ekki bara í gangi á Íslandi. Þessar aðgerðir og viðlíka eru í gangi úti um alla Evrópu. Það sem hljómar hér í fjölmiðlum til þess að rýra möguleika og kraft íslenskrar launþegahreyfingar er endurómur af því sem heyrist úti um alla Evrópu. Ég vil undirstrika það að við verðum að stoppa þetta.
    Þetta plagg sem við höfum hér í höndunum er bara eitt merkið um öll þau áhrif sem núna eru að

streyma yfir okkur og við eigum eftir að verða að berjast gegn því annars fer afskaplega illa fyrir þessari litlu þjóð.