Hópuppsagnir

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 16:16:44 (5947)


[16:16]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir það að taka undir með mér í þeim málum sem ég var hér að nefna, að þau hafa öll orðið til þess að draga úr atvinnuleysi. Það er auðvitað svo að það er aldrei nóg að gert til þess að draga úr atvinnuleysinu og þessi verkefni eru heldur enginn tæmandi listi yfir það sem ríkisstjórnin hefur gert og það sem hún er að gera nú um stundir. Ég hef kynnt mér atvinnuleysistölur mætavel, bæði í kjördæmi hv. þm. og í mínu eigin kjördæmi sem og í öðrum kjördæmum. Og það hefur m.a. orðið til þess að ég hef sjálfur flutt ásamt öðrum hv. þm. a.m.k. þrjár tillögur á þessu þingi ef ekki fjórar sem allar eiga að stuðla að því að auka hér hagvöxt, auka fjárfestingu og atvinnusköpun og minnka þar með atvinnuleysi.
    Ég held að við getum verið sammála um það að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa orðið til þess að minnka atvinnuleysið, en það þurfi að gera meira og ég held að við getum verið sammála um að það er verið að gera meira og við eigum að taka höndum saman um það að minnka atvinnuleysið eins og við frekast getum.