Hópuppsagnir

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 16:18:42 (5949)


[16:18]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð í lok þessarar umræðu. Ég tel ástæðu til þess í tilefni þeirrar umræðu sem hér hefur orðið um þetta frv. Frv. er flutt til þess að tryggja betur réttarstöðu fólks vegna hópuppsagna og er breyting á lögum sem sett voru í fyrra um hópuppsagnir og þóttu þá töluverð réttarbót. Hér hefur orðið nokkur umræða um réttindi launafólks almennt og jafnvel gengið svo langt að því er haldið fram að ríkisstjórnin aðhafist ekkert í því máli að tryggja réttindi launafólks og hafi jafnvel gengið svo langt að vera að skerða þau.
    Ég mótmæli þessu. Ríkisstjórnin hefur verið að gera ýmsa hluti til þess að bæta hér atvinnuástandið eins og fram kom í máli hv. 3. þm. Reykn. og hún er með ýmislegt í undirbúningi varðandi réttindamál launafólks. Ég get rifjað upp örfá atriði. Ég er alveg sannfærð um að tiltölulega nýleg löggjöf, 2--3 ára gömul, um starfsmenntun í atvinnulífinu hafi gert mjög mikið í því atvinnuleysi sem við nú búum við. Það er raunverulega það sem okkar nágrannaþjóðir grípa mikið til í því atvinnuleysi sem þær hafa búið við um langan tíma. Þessi löggjöf hefur tryggt að a.m.k. um 10 þúsund manns hafa notið góðs af þessari starfsmenntun.
    Ég vil nefna fleiri mál. Ég vil nefna frumvarp sem ekki hefur verið tekið til umræðu á Alþingi en hefur verið lagt fram um vinnumiðlun. Ég er sannfærð um það að hún mun tryggja miklu betur réttarstöðu launafólks heldur en hún er nú. Hún mun tryggja það bæði að vinnumiðlanirnar verða miklu virkari en þær hafa verið og hún mun tryggja miklu betur þjónustu við atvinnulaust fólk. Eru þar ýmis merk nýmæli að finna að mínu mati varðandi ýmsa þjónustu og aðstoð við fólk sem hefur verið atvinnulaust og þar er kveðið á um ýmis merk nýmæli, að mínu viti, sem má grípa til vegna þeirra sem hafa verið atvinnulausir. Ég hygg að það sanni nú að ríkisstjórnin sitji ekki auðum höndum í því atvinnuleysi sem við búum við.
    Jafnframt er ástæða vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið að rifja það upp að það er nefnd að störfum, sem á að skila núna í maímánuði, sem er að skoða bótakerfið í heild sinni, bótakerfi atvinnulausra, almannatryggingakerfið og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Það er alveg ljóst og það ber að viðurkenna að það bótakerfi sem við búum við fyrir atvinnulausa og ýmis þjónusta er ekki sniðin að því atvinnuleysi sem við höfum búið við að undanförnu. Ég vænti þess því að úr þessu nefndarstarfi komi fram tillögur til að tryggja betur réttarstöðu atvinnulausra.
    Ég vil nefna það að okkar löggjöf um atvinnuleysistryggingar er auðvitað ekki alfullkomin og hana þarf að skoða, á henni eru ýmsir gallar. En úrbætur voru þó gerðar á sl. ári, t.d. varðandi bótalausa tímabilið þar sem tryggja á að atvinnulausir geti farið á námskeið og missi þá ekki bætur og ef námskeið standa ekki til boða, þá fái þeir greiðslur á þessu bótalausa tímabili.
    Það er hægt að minnast á það líka til viðbótar við það sem hv. þm. Árni M. Mathiesen nefndi að ég er sannfærð um það að fjármagn sem ríkisstjórnin hefur látið í uppbyggingu atvinnumála kvenna hefur skilað verulegum árangri. Og við höfum nýverið fjallað hér um aðstoð við fólk vegna greiðsluerfiðleika og lög afgreidd um það nýverið frá Alþingi.
    Ég taldi ástæðu til þess, virðulegi forseti, að láta þetta koma fram þegar því er aftur og aftur haldið fram í ræðustól að ríkisstjórnin sitji aðgerðalaus og sé ekkert að gera til að tryggja betur réttindi launafólks og aðstoð við þá sem búa við atvinnuleysi.