Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 16:42:12 (5953)


[16:42]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. forseta fyrir þessa leiðréttingu mála. Það er fjarri því að ég telji mig þurfa 20 mín. til að ljúka yfirferð um málið. Ég var kominn vel á veg með það hér áðan.
    En ég vil ítreka það sem ég sagði um að fara þannig í málið að semja frv. sem veitir opnar heimildir í stað þess sem áður hefur verið áformað að gera, að leggja fyrir þingið ákveðna tillögu eða ákveðinn samning milli ríkisvaldsins og tiltekinna sveitarfélaga, ég tel það miklu verri leið. Ég tel hana afar slæma eins og frv. er fram sett og þurfi töluvert að gera bragarbót á því ef það á að vera boðlegt að mínu mati. Ég skal svo sem ekki útiloka að það takist að búa málið í einhvern búning sem er sómasamlegur en ég tel málatilbúnaðinn í þessu frv., fyrir utan að vera annar en til stóð í ályktun Alþingis í fyrra, vera heldur slæman.
    Það sem mér finnst vont, fyrir utan það sem ég hef nefnt, er að ætla að hafa það líka opið að hvert sveitarfélag sem á að verða reynslusveitarfélag geti haft með höndum mörg mismunandi reynsluverkefni. Það tel ég slæma þróun í málinu. Ég er ekki mjög hrifinn af því að fjölga reynslusveitarfélögunum upp í 12, eins og lagt er til í frv. úr þeim fimm sem ályktun Alþingis gerði ráð fyrir. Ég tel að þá séu menn komnir út um víðan völl í málinu. Menn eru þá ekki að fylgja markvissri stefnu um að fikra sig áfram með tilraunir á ákveðnu málasviði, með ákveðin verkefni, heldur er eitthvað annað sem gerir það að verkum að ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að koma fram með þessa tillögu. Hún hefur sjálfsagt verið útskýrð í framsögu en ég missti af henni eins og ég gat um áðan. En ég læt mér detta það helst í hug, virðulegur forseti, að ástæðan fyrir því að það er komið fram að hafa þetta svona sé sú að það sé verið að nota þetta hugtak, reynslusveitarfélag, sem beitu til að stuðla að öðru sem er sameining sveitarfélaga sem er út af fyrir sig annað mál. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi gengið nokkuð langt í því að misnota hugtakið reynslusveitarfélag til framdráttar hinu málinu. Ég nefni sem dæmi Vestur-Barðastrandarsýslu þar sem fer tvennum sögum af framgöngu ráðherra í málinu.
    Það má t.d. spyrja ráðherrann hvað það eigi að þýða að hreppsnefnd Patrekshrepps skuli t.d. fresta fundi eftir símtal við ráðherrann og viðstaddir áheyrendur, sem ætluðu að fylgjast með fundi, eru látnir fara brott með þeim skilaboðum að ekki verði fundur næstu daga. Síðan er fundurinn haldinn um kvöldið í skyndingu og lokaður fundur. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra gerði grein fyrir afskiptum sínum af þessu máli og þeim fréttum sem út af þeim fundi bárust að í stað þess að það sveitarfélag, sem á að verða til, fái 45 millj. kr. til að lækka skuldir fái það 77 millj. kr. Á að brúa þennan mismun í gegnum reynslusveitarfélögin? Eða er verið að nota verkefnið reynslusveitarfélög í öðru skyni en til er ætlast?
    Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að mér finnst því miður margt í framgöngu málsins vera þannig að það veki upp tortryggni. Þetta með 12 sveitarfélög er að mínu viti gert til að geta valið fleiri því menn telja að það hangi peningar á spýtunni og vilja gjarnan komast í peninga. En því fylgir, sem menn verða að átta sig á, að ef menn ætla að láta einhver tiltekin sveitarfélög fá meiri peninga en þau hafa haft þá eru menn að taka peninga frá öðrum, sérstaklega þegar menn gera það í gegnum Jöfnunarsjóðinn eins og hér er lagt til að verði heimilt að gera að einhverju leyti með 13. gr. frv. Þá eru menn að taka peninga af sumum sveitarfélögum til að láta önnur hafa. Það gengur gegn markmiðum 2. gr. að það megi ekki skerða réttindi annarra íbúa og fyrirgreiðslu sem þeir njóta lögum samkvæmt. Þarna er verið að mismuna mönnum í þessum tilgangi og ég tel að það þurfi að laga málið með tilliti til þess að taka út hugsanlegar mismunaaðgerðir af þessum toga.
    Ég hef velt vöngum yfir 9. gr. Þar eru heimildir ráðherra til að víkja frá ákvæðum laga um nefndir og stjórnir sveitarfélaga þegar reynslusveitarfélag á í hlut. Ég held að það sé rétt að rifja upp hvernig það er í lögum. Það segir í 61. gr. sveitarstjórnarlaganna að sveitarstjórn ákveði valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum. Með öðrum orðum eru sumar nefndir sveitarstjórna ákvarðaðar í sérstökum lögum og þá verksvið þeirra en með aðrar nefndir er á valdi sveitarstjórnanna sjálfra

að ákveða hvort þær eigi að vera til og hvaða valdsvið þær eigi að hafa. Ég spyr því: Hvað þýðir 9. gr. með hliðsjón af þessu? Hvaða undanþágu á að veita frá 41. gr. sveitarstjórnarlaga í nefndum sem ekki eru lögbundnar? Hvaða undanþágu ætla menn að veita frá sérlögum um nefndir, t.d. húsnæðisnefnd eða félagsmálanefnd? Hlutverk þeirra nefnda eru talin upp í þeim lögum og eru allt saman réttindaákvæði gagnvart íbúunum. Hvaða ákvæði eru það sem á að víkja frá eða hafa heimild til að hafa öðruvísi en þar er kveðið á um? Þetta er allt opið og samkvæmt frv. getur ráðherra gert í raun og veru hvaða æfingar sem er á þessum lögum.
    Þetta gengur ekki. Það verður að hafa þetta mun markvissara en þarna er lagt til. Á sama hátt er hægt að taka IV., V. og VI. kafla frv. eins og 9. gr. frv.
    Það er svo sem ástæða til að fara yfir eitt og annað en ég læt þetta duga. Ég vil enda umfjöllun mína á því að nefna hugmynd sem ekki hefur verið sett fram í samhengi við reynslusveitarfélög en mér finnst að menn megi alveg leyfa sér að útvíkka hugmyndina og hugleiða hvort ekki sé ástæða til að skoða málið þannig. Af hverju ekki reynslulandshluta? Af hverju ekki að taka upp í tilraunaskyni þriðja stjórnsýslustigið? ( StB: Reynslukjördæmi.) Hv. þm. Sturla Böðvarsson getur talað um reynslukjördæmi. Það er allt í lagi mín vegna ef hann skilgreinir hvað hann á við með því. En ég velti fyrir mér, af hverju ekki að gera þessa tilraun?
    Menn hafa rætt hér árum saman um þriðja stjórnsýslustigið. Af hverju ekki t.d. að gera þessa tilraun um nokkurra ára skeið á Austfjörðum, Vestfjörðum eða Vesturlandi? Þá þurfa menn að koma sér saman um hvaða verkefni ættu að leysast á kjördæmavísu. Ég sé í hendi minni að menn gætu leyst öll þau verkefni sem eru svæðisbundin, t.d. framhaldsskóli, sjúkrahús eða annað slíkt, og sem ríkið hefur með höndum í dag með þessum hætti. Mér finnst að menn mættu alveg gefa því gaum að kanna það líka. Það er nefnilega ekki nauðsynlegt og menn mega ekki festa sig í þeirri nauðhyggju að framfarir á sviði sveitarstjórnarmála eða þess hluta framkvæmdarvaldsins einskorðist við það að fækka sveitarfélögunum. Ef menn eru fastir í því þá eru menn komnir í nauðhyggju því það er hægt að gera breytingar með öðrum hætti en fella saman sveitarfélögin. Það er hægt að gera það með því að hafa t.d. samstarf yfir heilan landshluta eða búa til nýtt formlegt stjórnsýslustig yfir sambærilegt svæði. Mér finnst að mörgu leyti miklu áhugaverðara verkefni að skoða það.
    Svo að ég nefni aðra hugmynd mætti líka hugsa sér reynslusamstarf sveitarfélaga þar sem ekki væri um sameiningu sveitarfélaga að ræða heldur t.d. samstarf um tiltekin verkefni þar sem væri til staðar sveitarstjórn sem væri yfir svæðið allt í þeim verkefnum. En eldri sveitarstjórnir væru áfram fyrir hendi með önnur verkefni sem eftir sætu. Það er því til fleiri möguleikar en þeir sem menn hafa einblínt á og ég tel að mönnum væri hollt að hugsa að það er fleira til undir sólinni en sameining sveitarfélaga.