Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 16:52:32 (5954)


[16:52]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Örfá orð í tilefni af ræðu hv. 5. þm. Vestf. Eins og hann nefndi í sinni ræðu þá kom ýmislegt fram hjá honum sem svarað var í umræðunni fyrr í dag þannig að hér gæti verið um einhverja endurtekningu að ræða.
    Hv. þm. gerði, eins og a.m.k. tveir aðrir þingmenn fyrr í dag, athugasemdir við það að hér væri ekki lagt fram frv. sem innihéldi nákvæmlega ákvæðin eins og þau voru skilgreind í skýrslu sveitarfélaganefndarinnar, þ.e. það væri nákvæmlega lagt fyrir þingið hvaða sveitarfélög yrðu reynslusveitarfélög, hvaða verkefni yrðu færð til þeirra og að slíkir samningar yrðu lagðir fyrir þingið. Þetta helgast af því, eins og ég sagði fyrr í dag, að upphaflega var gert ráð fyrir að sveitarfélögin yrðu bara fimm í þeirri þáltill. sem Alþingi samþykkti en hér er lagt til að þeim verði fjölgað í 12. Það komu miklu fleiri umsóknir frá sveitarfélögunum en búist var við, um 37 frá 56 sveitarfélögunum, og það var tillaga nefndarinnar sem um þetta fjallaði að það yrði leitað eftir heimild Alþingis til að fjölga þeim í 12. Það er skýringin á því að ekki hefur verið hægt að gera drög að samningum við viðkomandi sveitarfélög sem enn hafa ekki verið valin.
    Hv. 2. þm. ræddi 2. gr. og taldi ákvæðin mjög opin. Við fórum líka yfir það fyrr í dag. Hann vék að 2. gr. og las þar upp að heimildir ráðherra samkvæmt ákvæðum laganna til að víkja frá lögum og taldi vanta um hvaða lög væri verið að fjalla. Um það er fjallað síðar í frv. hvaða málaflokka hér er um að ræða. En 2. gr. felur í sér við hvað þessir málaflokkar mundu síðan takmarkast eða hvernig ætti að skilgreina þá.
    Þingmaðurinn furðaði sig á því að í 5. gr. væri kveðið á um reglugerðarheimild ráðherra. Á því er sú skýring að hér er verið að setja ákvæði sem heimilar að hægt sé að setja sérstaka reglugerð fyrir reynslusveitarfélag, eitt eða fleiri, þannig að það verður hægt að setja sérstaka reglugerð samkvæmt þessu varðandi eitt reynslusveitarfélag.
    Síðan var það ákvæðið í 9. gr. um það að heimilt sé að víkja frá ákvæðum laga um nefndir og stjórnir sveitarfélaga þegar reynslusveitarfélag á í hlut og spurt við hvað væri átt í þessu sambandi. Hér er átt við ákvæði um nefndir sem bundnar eru í lögum. Það er hægt að taka dæmi um það að ef reynslusveitarfélag yfirtekur t.d. heilsugæslustöðvarnar þá er hægt að víkja frá því varðandi skipun stjórnar heilsugæslustöðvarinnar ef viðkomandi reynslusveitarfélag kýs að fella stjórnina inn í stjórnkerfi viðkomandi sveitarfélags. Ég held því að þessi grein eigi fullkominn rétt á sér.
    Varðandi verkefnin sem slík þá finnst mér rétt að undirstrika það mjög rækilega að viðkomandi sveitarfélög sem verða valin leggja fram sínar hugmyndir um það hvaða verkefni þau óska eftir að teknir verði upp samningar við þau um að færa til þeirra. Það eru því fyrst og fremst sveitarfélögin sjálf sem sækja á í þessu efni. Ég nefni það líka af því að það er aftur og aftur verið að tala um opnar heimildir, og vitna ég þá líka til þess sem ég sagði hér fyrr í dag, að reynslan erlendis þar sem þetta hefur verið reynt hefur verið sú að ráðherrar hafa verið fremur tregir til að beita þeim heimildum sem þeir þó hafa haft þannig að það eru frekar sveitarfélögin sem sækja á.
    Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég vil ítreka það með Jöfnunarsjóðinn að hér er ekki verið að tala um að mismuna sveitarfélögunum varðandi Jöfnunarsjóðinn heldur er einungis um það að ræða að hægt væri að breyta reglunum varðandi reynslusveitarfélögin og úthlutun úr Jöfnunarsjóðnum en ekki yrði um viðbót að ræða.
    Í lokin út af því sem þingmaðurinn nefndi varðandi Patreksfjörð og þar hefði þurft að fresta fundi eftir samtöl mín við sveitarstjórnarmenn. Þetta er bara alls óskylt þessu máli sem við erum að tala um. Þessum fundi var frestað vegna þess að það lá ekki fyrir samkomulag þá milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna varðandi jöfnun á skuldastöðu þeirra sveitarfélaga sem sameinast sem síðan lá fyrir 2--3 klukkustundum síðar. Það er einföld skýring á því. Þessum sveitarfélögum hefur aldrei verið gefið neitt vilyrði, nákvæmlega ekkert fyrir því um hvaða upphæðir væri að ræða varðandi þessa skuldajöfnun. Við fórum yfir það fyrr á þessu þingi þegar þetta mál var til umræðu.