Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 17:01:45 (5956)

[17:01]

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins og heimild til sölu hlutabréfa í því félagi.
    Nefndin hefur fjallað um þetta mál á nokkrum fundum og fengið til sín allmargt fólk og sent þetta víða til umsagnar og frá því er greint á þskj. 681.
    Nefndin gerir tillögur um nokkrar breytingar á frv. sem koma fram á þskj. 682. Veigamesta breytingin sem nefndin gerir tillögu um er sú að fjmrh. sé einungis heimilt að selja allt að helmingi hlutabréfa ríkissjóðs í félaginu og að öðru leyti skuli leita heimildar Alþingis fyrir sölu á bréfum. Þessi brtt. þýðir að það er takmörkuð sú heimild sem ráðherrann hefur til þess að losa eignarhlut ríkisins í félaginu og þýðir að ráðherrann þarf að fara aðrar leiðir en hefði verið hægt að öðrum kosti.
    Nefndin er sammála um það að þessi leið geti stuðlað frekar að því markmiði sem sett er í 4. gr. frv. þar sem rætt er um að við sölu hlutabréfa skuli þess gætt að samkeppni verði tryggð á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja.
    Í öðru lagi er tæknileg breyting þar sem gildistöku hinna nýju laga er frestað fram til 1. maí. Síðan er í þriðja lagi lagt til að það komi nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að ráðherra skuli leggja skýrslu fyrir Alþingi um hvernig birgðahaldi fyrir Almannavarnir ríkisins, sem Lyfjaverslun ríkisins annaðist, verði háttað eftir stofnun hlutafélagsins þannig að fullnægjandi öryggissjónarmiða sé gætt.
    Öll nefndin skrifaði undir nál. Að vísu skrifuðu hv. þm. Halldór Ásgrímsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Steingrímur J. Sigurðsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson undir með fyrirvara. Síðan mun hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hafa ritað formanni nefndarinnar bréf þar sem þessum fyrirvara er lýst og mér er ókunnugt um hvort hún mun standa að samþykkt frv. en að öðru leyti hygg ég að nefndin muni standa sameiginlega að afgreiðslu þessa máls.