Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 17:30:20 (5964)


[17:30]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég get vel skilið að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson verði fyrir vonbrigðum með að Kristín hafi fallið frá stuðningi sínum en ég las upp bréf hennar og eins og fram kemur í því tekur hún fram, með leyfi forseta: ,,Í öðru lagi hafa ,,einkavæðingarmálin`` skýrst enn frekar í mínum huga við umfjöllun landbn. að undanförnu um breytingar á lögum um Áburðarverksmiðju ríkisins sem er mál af sama toga og frv. það sem hér um ræðir.``
    Eins og kemur fram í upphafi bréfs hennar, þá var hún alltaf í mjög miklum vafa um að þetta væri rétt og taldi að sú brtt. sem var gerð væri einhvers virði en að athuguðu máli komst hún að þessari niðurstöðu. Ég er henni algjörlega sammála og er mjög ánægð með að Kristín hafi fallið frá stuðningi sínum.