Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 17:33:24 (5967)


[17:33]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka það sem hér hefur verið sagt að ég harma það hvernig þessi mál hafa þróast því það hefur akkúrat ekkert --- ég endurtek --- ekkert nýtt komið fram sem gefur tilefni til þess að breyta afstöðu sinni í því máli sem hér er til umræðu. Ég get tekið öll atriðin sem nefnd voru í ræðu hv. þm. sem ræddi þessi mál og það er ekkert nýtt. Til viðbótar var síðan minnst á tvö mál. Það er annars vegar SR-mjöl og hins vegar Þormóð ramma. Varðandi SR-mjöl vil ég segja að það lá fyrir í söluverðinu og var hluti af því verði að hagnaður mundi verða greiddur út með þeim hætti sem hefur verið gert. Þormóður rammi held ég að sé einmitt gott dæmi um það hvernig á að standa að einkavæðingu. Almenningi var gefinn kostur á kaupunum. Það seldist því miður lítið og það keypti síðan annað sjávarútvegsfyrirtæki sem ég vona að styrkja muni atvinnureksturinn á Siglufirði.
    Þetta þarf að koma fram og ég er alveg hissa á því hvernig þingmaðurinn leyfði sér að orða sínar hugsanir hérna. --- Að tala um stjórnarskrárbrot. (Forseti hringir.) Ég segi það eins og er, virðulegi forseti, að ég skil ekki úr hvaða heimi hv. þm. kemur að ræða þetta á þessum nótum.