Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 17:34:59 (5968)


[17:34]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Fyrst að því er varðar stjórnarskrárbrot þá voru það ekki mínar eigin hugsanir heldur var ég í því sambandi að taka álit annarra upp. Ég hef ekki sjálf tekið afstöðu til þeirra atriða en hins vegar er, eins og ég sagði, dómsmál í gangi að því er þetta varðar og rökin eru þessi í því máli. Það er hins vegar ekki orðið ljóst hvort það er rétt eða ekki. Ég hef ekki tekið neina afstöðu til þess. Ég tel að það sé mikill vafi og það er það fyrst og fremst.
    Að því er varðar Þormóð ramma kom kannski hæstv. ráðherra einmitt með aðalatriðið, almenningi var gefinn kostur á að kaupa fyrirtækið en auðvitað getur almenningur ekkert keypt hlutabréf í þeim mæli sem þarf til að kaupa slík fyrirtæki.
    Af því að verið er að tala um að eitthvað sé óeðlilegt við það þá vil ég vitna til þess að miðvikudaginn 6. apríl segir Ellert B. Schram m.a. í forustugrein DV. Fyrst gagnrýnir hann SR-mjöl en ég hef ekki tíma til að lesa það, með leyfi forseta . . .  (Forseti hringir.) Ég biðst afsökunar, ég kemst ekki yfir að lesa það vegna knapps tíma, ég verð þá bara að koma hér aftur. Þar kemur greinilega fram að það er efast um að það sé eðlilega að málum staðið. Ég er ekki að tala um að það sé ólöglegt. Það var ekki síst þetta sem ég get tekið sem dæmi um að það eru gagnrýnisraddir víða að því er varðar þessi tvö mál.