Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 17:39:31 (5971)


[17:39]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég verð bara að dengja hér upp í púltið vinnumöppu minni úr efh.- og viðskn. af því að ég hef ekki haft tíma til að tína út úr henni gögn þessu máli viðkomandi sérstaklega þar sem það kom mér nokkuð á óvart að það kæmi svona skyndilega á dagskrá. Reyndar virðist fundahaldið í dag hafa verið nokkuð sérstakt, a.m.k. miðað við viðveru því eins og kunnugt er hefur bæði þingmannahópur eins kjördæmis og efh.- og viðskn. verið að störfum annars staðar meiri part dagsins en engu að síður eru á dagskrá og í umræðu mál sem aðallega heyra undir þá nefnd. Hlýtur það að teljast nokkur nýlunda í vinnubrögðum að störf þingsins séu skipulögð þannig að efh.- og viðskn. sé að störfum á Vestfjörðum á meðan umræður um hennar mál fara fram á Alþingi í Reykjavík. ( Fjmrh.: Flýtir það ekki fyrir þingstörfum?) Það út af fyrir sig flýtir fyrir þingstörfum en er spurning hvort það flokkast undir vönduð vinnubrögð.
    Eins og fram kemur í nál. þá er ég með fyrirvara við þetta frv. og ætli það sé ekki eðlilegt að gera grein fyrir þeim fyrirvara. --- Það er spurning hvort forseti gæti gaukað að mér þingskjölunum, þ.e. nál. og brtt. nefndarinnar. --- Ég vil gefa þá skýringu á þessum fyrirvara sérstaklega að hann lýtur að tveim þáttum umfram aðra í þessu máli. Í fyrra lagi eru það þeir þættir sem snúa að samskiptum við starfsmenn og réttindamálum þeirra og í seinna lagi tenging þessa frv. við einkavæðingarstefnu og einkavæðingarframgöngu hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég skrifaði undir nál. síðastur nefndarmanna í efh.- og viðskn. eftir að hafa dregið það um alllangan tíma vegna þess að það voru áhöld um það hvort ég gæti staðið að því samkomulagi sem þarna var reynt að mynda með brtt. við upphaflega frv. Ég gerði grein fyrir því í nefndinni, formanni nefndarinnar og ég held formlega á fundi í nefndinni, að um þetta mál væru skiptar skoðanir í mínum þingflokki og ég ætti allt eins von á því að a.m.k. einhverjir af þingmönnum Alþb. kynnu að leggjast gegn málinu þó að ég hefði vilja til þess að reyna að standa að þessari málamiðlun sem brtt. felur í sér.
    Ég mun svo koma betur að því síðar hvað breyst hefur síðan gengið var frá þessu nál. fyrir nokkuð löngu síðan og við hvaða kringumstæður það var gert að ég tók þátt í því, en það var 2. mars sl. eða fyrir rúmum mánuði sem efh.- og viðskn. sendi frá sér nál. um málið.
    Sú staðreynd hafði hins vegar áhrif á mína afstöðu í nefndinni og er ekki ástæða til að gera lítið úr því að þar var fyrir hendi vilji til þess að breyta frv. til bóta tvímælalaust, að mínu mati. Ég hef haft það fyrir vinnureglu og venju að meta það nokkurs ef slíkur skilningur er uppi af hálfu meiri hlutans að hann er tilbúinn til samkomulags að gera breytingar á stjórnarfrumvörpum. Í þessu tilviki held ég reyndar að hv. stjórnarliðar hafi mátt kallast fegnir að fá tækifæri til þess að lagfæra þetta mál í samstarfi við stjórnarandstöðuna í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu í umræðum um málið og við skoðun nefndarinnar á því og ég kem betur að síðar. Sérstaklega á það við þau efnisatriði sem vikið er að í brtt. á þskj. 682 og snúa að ákvæði til bráðabirgða. En það er auðvitað alveg ljóst að þar eru hlutir sem þarf að hyggja að og ganga frá áður en rokið er í að breyta þessu fyrirtæki ef forsvaranlegt á að teljast.
    Þetta hefur meiri hlutinn viðurkennt í raun með því að flutt er þessi tillaga um ákvæði til bráðabirgða sem bætist aftan við lögin og kveður á um, eins og menn sjá á þskj. 682, að unnið skuli sérstaklega að athugun á þeim þáttum sem snúa að birgðahaldi fyrir Almannavarnir ríkisins, sem Lyfjaverslun ríkisins hefur annast, og hvernig fullnægjandi öryggissjónarmiða verði gætt í þeim efnum og almennt séð í lyfjaframleiðslu og lyfjabirgðamálum ef eða eftir að stofnað verður hlutafélag um Lyfjaverslun ríkisins.
    Þetta og svo hitt að takmarkaðar yrðu heimildir fjmrh. til að selja hlutabréf í hinu nýja hlutafélagi þannig að leitað yrði nýrrar heimildar Alþingis ef selja ætti meira en helming bréfanna eru að sjálfsögðu og vissulega breytingar til mikilla bóta á frv. að mínu mati. Og þá kemur að sjálfsögðu upp þessi venjulega staða að menn þurfa að gera það upp við sig hvort þeir meta meira þær breytingar sem þannig nást fram eða upphafleg viðhorf sín til málsins sem neikvæð voru í þessu tilviki. Ég mat það svo við þær aðstæður og í ljósi þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir að ég gæti þrátt fyrir allt staðið að þessu máli með fyrirvara eins og fram kemur á nál. á þskj. 681 og ég hef gert grein fyrir í hverju lá.
    Síðan hefur nokkuð vatn til sjávar runnið samanber það að komið er á annan mánuð síðan nefndin lauk umfjöllun og reyndar nær sex vikum ef ég man rétt því það mun hafa verið í síðari hluta febrúarmánuðar sem nefndin var að ljúka umfjöllun um málið. Síðan dróst það um nokkra daga skeið að gengið væri frá nál. og það er dagsett 2. mars. Síðan hafa hlutir gerst eða öllu heldur ekki gerst sem við væntum og það hefur auðvitað áhrif á stöðu málsins eins og við heyrðum áðan m.a. í bréfi sem lesið var upp þar sem hv. 18. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir, afturkallaði stuðning sinn við frv.
    Þá vil ég fyrst nefna málefni starfsmanna. Nú er það svo, hæstv. forseti, að þau mál hafa verið stanslaus deiluefni og viðvarandi deiluefni í tengslum við öll einkavæðingarfrumvörp ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Sökum þess að komið hefur upp mikill ágreiningur um það hvernig túlka beri ekki síst biðlaunaréttarákvæði laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna í tilvikum af því tagi sem koma upp þegar verið er að breyta rekstrarformi hreinna ríkisfyrirtækja, svo ekki sé talað um að einkavæða þau í þeim skilningi að þau séu beinlínis seld. Um þetta liggja fyrir miklar skýrslur, greinargerðir lögfræðinga og fleira og allt er það kunnugt og síðan eru mál af þessum toga nú komin til meðferðar dómstóla.
    Ég hef verið í hópi þeirra sem talið hafa að það væri fráleitt af ríkisins hálfu að ætla að leysa sig frá þessum málum með þeim hætti, sem m.a. er lagt til í 3. gr. frv., að setja það einfaldlega í frumvarpstexta eða lagatexta að tiltekin ákvæði annarra laga, þ.e. laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, skuli ekki eiga við í einhverjum einstökum tilvikum. Það er alls ekki hlutverk Alþingis þegar svo er komið að um löngu sett lög er að ræða að ákveða með lagasetningu af þessu tagi löngu síðar í hvaða tilvikum réttindi eða ákvæði laga af því tagi eigi við og í hvaða tilvikum ekki. Það er hlutverk dómstóla að úrskurða um ef ágreiningur rís. Og það er reyndar rétt að menn hafi það í huga að dómstólunum ber ekki og þeir munu ekki taka tillit til þess þó að lagaákvæði af þessu tagi séu sett síðar. Það sem þeir gera er að reyna að úrskurða hvað vakti fyrir mönnum á sínum tíma þegar viðkomandi lög voru sett, hver var ætlunin með ákvæðum þeirra. Alþingi getur ekki þannig búið til eftir á afmörkun á gildissviði og réttarsviði laga af þessu tagi. Trúi menn þessu ekki þá ættu menn að lesa yfir þær lögfræðilegu greinargerðir sem teknar hafa verið saman um þessi efni því þetta kemur fram í þeim öllum og menn eru sammála um að hlutverk dómstólanna sé að úrskurða um þetta. Þess vegna hefði verið miklu nær að menn hefðu þá látið mál ganga til dóms um þetta og beðið átekta á meðan í staðinn fyrir að flytja hér frumvörp hvert á fætur öðru með fáránlegu lagaákvæði af þessu tagi.
    Í öðru lagi hefur komið í ljós að það leikur vafi á því hvernig beri að fara með ýmis viss atriði sem tengjast uppgjöri lífeyrisréttinda starfsmanna á hverra högum verður breyting af þessu tagi. Það kom mjög skýrt fram, m.a. í umræðum í efh.- og viðskn., að menn voru í vafa og strax komu fram mismunandi sjónarmið t.d. um það hvernig yrði farið með að tryggja lífeyrisréttindi manna þegar fyrirtæki breyttist úr því að vera hreint ríkisfyrirtæki í hlutafélag og síðan yfir í kannski einkafyrirtæki í eigu annarra aðila en starfsmennirnir hefðu áfram rétt til að taka sér lífeyri í gegnum Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og hvernig yrði þá farið með að tryggja þeim þau réttindi sem það skapaði, hvernig þau mál yrðu gerð upp. Að svo miklu leyti sem ég hef haft tíma til að kynna mér þessi mál og fram kom í umræðum í efh.- og viðskn. þá eru þarna óvissuþættir á ferðinni.
    Ég býst við t.d. að hv. formaður efh.- og viðskn. hafi einn skilning á þessu máli og er sjálfsagt tilbúinn til að koma upp og lýsa því hér hvernig hann lítur á að þetta eigi að meðhöndlast og hver eigi að bera verðbótarþáttinn eða hallann sem myndast vegna ónógra iðgjaldagreiðslna til að standa undir lífeyrisréttindunum en síðan koma aðrir upp með aðrar skoðanir.
    Í þriðja lagi hafa svo risið deilumál um aðild viðkomandi starfsmanna að stéttarfélögum og þarf ekki langt að fara til að sækja dæmin um það. Allir þekkja þá deilu sem reis um aðild starfsmanna Strætisvagna Reykjavíkur að stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Og hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á því atriði sem slíku og hvort menn hafa samúð nær eða fjær því sjónarmiði að þessir starfsmenn eigi að geta haldið áfram veru í sínum stéttarfélögum, sem þeir hafa jafnvel verið í um áratuga skeið, og það eigi ekki í gegnum svona breytingar sem eru algerlega utan þeirra áhrifasviðs að hrekja þá á milli stéttarfélaga eftir áratugaaðild jafnvel í einu tilteknu slíku, þá verða menn að horfast í augu við að þarna rís upp vandamál sem veldur deilum og ágreiningi.
    Sjálfstfl. ætti a.m.k. að vera farinn að átta sig á þessu eftir þá reynslu sem hann hefur fengið af þessum málum í Reykjavíkurborg. Kynni nú svo að fara og verður vonandi að það reynist honum harla dýrkeypt hvernig hann anaði fram í því máli, þ.e. einkavæðingu Strætisvagna Reykjavíkur hf. eins og á víst að segja í dag. Nú er íhaldið að vísu, vegna þess að það er bullandi hrætt um að tapa borginni, að reyna að kaupa sér frið frá þeim deilum með næsta sérkennilegri aðferð, en mér skilst að hún eigi að ganga út á það að það eigi að skrá starfsmennina áfram sem borgarstarfsmenn þannig að þeir geti verið í Starfsmannafélagi ríkisstofnana en selja þá síðan út á vinnumarkaðinn sem einhvers konar verktaka eða hvað það nú er til hins nýja einkavædda fyrirtækis sem fái þessa borgarstarfsmenn í vinnu. Einhverja slíka fléttu var reynt að setja upp með samkomulagi á dögunum til að leysa sig undan þessari deilu. Og það ætti a.m.k. að sannfæra Sjálfstfl. ef ekki fleiri um að hér eru borðleggjandi og í uppsiglingu fleiri deilumál ef ekki verður á þeim tekið.
    Þá er að koma að því, hæstv. forseti, að auðvitað voru þessi starfsmannamál öll rædd á fundum efh.- og viðskn. og ekki síst með fulltrúum starfsmanna og stéttarfélögum þeirra. Þá var okkur hins vegar sagt að í samkomulagi við hæstv. fjmrh. í vetur sem leið, af því að það er að koma sumar, a.m.k. miðað við veðrið í dag, sem gert var einhvern tíma fyrir jólin hefði verið ákveðið að setja á fót samráðsvettvang milli opinberra starfsmanna og ríkisins, fjmrn., um þessi samskiptamál þar sem yrði m.a. farið yfir svona þætti. Fulltrúar opinberra starfsmanna lýstu þeim sjónarmiðum sínum að það lægi í hlutarins eðli að

það yrði ekki hreyft við viðkvæmum deilumálum af þessu tagi nema þau yrðu tekin fyrir fyrst á þessum samráðsvettvangi og reynt að leita lausnar á þeim. Og okkur var beinlínis gefið í skyn að það yrði reynt að taka upp þráðinn um þessi deilumál á þessum samstarfsvettvangi stéttarfélaganna. Það var reyndar þannig að það var sérstaklega undan því kvartað að ekki hefði verið boðað til fundar nema í fáein skipti á þessum vettvangi en vonandi yrði þar gerð á bragarbót.
    Það var því m.a. við þessar kringumstæður að við höfðum ástæðu til að ætla að nú yrði reynt að ná upp betri samskiptum ríkisvaldsins og félaga opinberra starfsmanna um m.a. svona samskiptamál sem við vorum að afgreiða þetta mál út úr nefndinni. Nú er því miður hins vegar þær fréttir af þessu að hafa að ekkert, bókstaflega ekkert hafi í þessu gerst og málin séu í gersamlega óbreyttum farvegi þrátt fyrir að þarna væri verið að gefa í skyn að kominn væri á formlegur vettvangur, sem a.m.k. í skilningi annars aðilans að því samkomulagi, þ.e. fulltrúa opinberra starfsmanna, væri einmitt vettvangur til að taka upp og ræða mál af þessu tagi. Þetta eru auðvitað vonbrigði og gefa tilefni til að endurmeta stöðuna í málinu að mínu mati, alveg tvímælalaust.
    Þá er eins gott að koma því að strax hvað mig varðar að ég tel að þessi staða nú gefi tilefni til þess að efh.- og viðskn. taki málið aftur til sín, fái aftur til sín fulltrúa opinberra starfsmanna og þess vegna ríkisvaldsins, að svo miklu leyti sem við teljum að ekki hafi komið fullnægjandi og tæmandi svör frá fjmrh. í umræðunum, til þess að fara yfir þessi mál.
    Þá vil ég líka segja um þetta almennt að ég tel þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh. svo óskynsamleg sem nokkuð getur verið. Að ríkisstjórnin sem ætlar að vera með þetta sem eitt af sínum flöggum á kjörtímabilinu, þessa einkavæðingu, skuli ekki reyna að leggja vinnu í það að ná um það mál einhverjum eðlilegum samskiptum og samkomulagi við samtök opinberra starfsmanna er auðvitað óskiljanlegt. Ef hæstv. fjmrh. ætlar að ná einhverjum árangri í þessari blessaðri einkavæðingu, sem er á heilanum á tilteknum stjórnmálaflokkum í landinu, þá átti það að vera forgangsverkefni á borði hæstv. ráðherra að ganga til viðræðna við opinberra starfsmenn og helst samninga við þá um það hvernig farið væri með þessi samskiptamál og réttindamál við starfsmenn og reyna að leysa með samkomulagi við opinbera starfsmenn úr ágreiningsefnum eða atriðum t.d. með biðlaunaréttinn. Ég hef fulla ástæðu til að ætla að um slíkt mál hefði mátt ná samningum, a.m.k. um tilhögun og framkvæmd þannig að samtökin létu það kyrrt liggja og tækju það ekki upp á sína eik að standa fyrir því að höfðuð væri prófmál og annað því um líkt um þau mál.
    Út af fyrir sig geta samtökin ekki samið af einstökum starfsmönnum lögvarinn rétt ef hann er fyrir hendi, það er ljóst, og einstakir félagsmenn í samtökum opinberra starfsmanna geta eftir sem áður leitað réttar síns fyrir dómstólum ef þeir telja á sér brotið. En það mundi skipta miklu máli ef tekist hefði samkomulag við samtök opinberra starfsmanna um meðferð þessar mála og þá kannski skilgreiningar í þeim efnum hvenær væri rétt að líta svo á að biðlaunarétturinn væri sjálfkrafa virtur og biðlaun greidd og hvenær ekki. Sama má segja um lífeyrisréttindamálið og sama má segja um aðild að stéttarfélögum. Auðvitað átti að reyna að ná um þessi mál almennt, burt séð frá því hvort í hlut átti Lyfjaverslun ríkisins, Áburðarverksmiðjan, Gutenberg, síldarbræðslur eða önnur slík fyrirbæri, almennu samkomulagi þannig að ekki þyrfti að standa í átökum og illdeilum við starfsmannahópana í hverju einstöku tilviki. Þetta eru svo óskynsamleg vinnubrögð sem nokkuð geta verið, enda er það líka að koma á daginn að m.a. af þessum sökum er þetta mál meira og minna að koðna niður í höndum ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Ég sagði það ekki, hv. frammíkallandi. Það var kannski næstum komið fram á varir mínar en það fór ekki alveg yfir þær.
    Ríkisstjórnin er meira og minna að leka niður með þessi mál og þau fáu sem komist hafa í gegn hafa nú tekist svona og svona eins og dæmin sanna og eru ekki mikil skrautflögg satt best að segja að verða hjá íhaldinu. Einkavæðing strætó hér í Reykjavík, salan á SR og fleira sem þarna hefur verið að gerast. Það eru vissulega innan um hlutir sem hafa eftir atvikum tekist þokkalega. Ég hef alltaf verið í þeim hópi sem hefur viljað bara horfa á kost og löst í hverju máli fyrir sig og hef sagt það á fundum og m.a. í kappræðum við hæstv. fjmrh. að ég er ekkert feiminn við það og hv. formann efh.- og viðskn. ( Gripið fram í: Varaformann.) Varaformann sem nú er. Hann var ,,degraderaður`` í haust sem leið eins og kunnugt er, missti tignina, ekki í sjálfu sér vegna sérlega slæmrar frammistöðu, það skal tekið fram, heldur af öðrum ástæðum.
    En ég hef sem sagt, hæstv. forseti, tekið það fram að ýmislegt af þessu hefur tekist eftir atvikum bærilega og er engan ástæða til aðdraga dul á það. Það skilur kannski á milli mín og sumra annarra að ég er ekki bundinn af neinum trúarbrögðum í þessum efnum. Ég er alveg tilbúinn til að taka þátt í að breyta rekstrarformum fyrirtækja og þess vegna jafnvel selja þau, koma þeim í hendur einkaaðila ef mér sýnist það skynsamlegt og rétt. Ég hef nefnt sem dæmi að ég tel að eftir atvikum hafi tekist ágætlega til þegar t.d. Ferðaskrifstofu ríkisins sálugu var breytt í hlutafélag og síðan seld í áföngum í hendur aðallega starfsmanna fyrirtækisins. Þetta gekk nokkuð vel fyrir sig í það heila tekið. Það tók ákveðinn tíma og eru svo sem ýmsar sögur þar á bak við sem ekki verður farið ofan í hér, en í það heila tekið er ég eftir atvikum sáttur við hvernig það gerðist.
    Sama sýnist mér megi segja t.d. um ,,trykkeríið`` Gutenberg. Ég sé ekki í sjálfu sér að það sé nein eftirsjá að því þó að ríkið eigi ekki lengur og reki prentverk. Það eru nógir til þess að gera slíkt með ágætum árangri og gerbreyttar aðstæður frá því sem var þegar það var af einhverjum ástæðum á sínum tíma,

sjálfsagt m.a. tæknilegum og fjárhagslegum, nauðsynlegt að ríkið hefði forgöngu um að koma hér uppi almennilegu prentverki sem m.a. gæti veitt þá þjónustu sem nauðsynlegt var fyrir stofnanir hins opinbera. ( VE: Því var laumað í gegnum 3. umr. . . .  ) Það veit ég ekkert um, enda er það ekki aðalatriði málsins. Þetta á sér ýmsar ástæður eftir atvikum. Ég veit ekki hvað má segja um Gutenberg og upphaf þess máls en það er lítill vafi á því að það fyrirtæki þjónaði um áratuga skeið mjög vel því hlutverki að veita ríkinu og stofnunum þess þjónustu, þar á meðal Alþingi, og hafði þá fjárhagslegan styrk og bakhjarl til þess að geta tæknivætt sig og útbúið þannig að það gat veitt fyrsta flokks þjónustu. Nú eru breyttar aðstæður og fleiri sem hafa burði til að gera slíkt í dag.
    Sama mætti segja t.d. um Síldarverksmiðjur ríkisins. Ástæðan fyrir því að ríkið hafði forgöngu um það á sínum tíma var ósköp einfaldlega sú að það var ekki öðrum til að dreifa sem höfðu bolmagn til að ráðast í þær fjárfestingar og standa fyrir uppbyggingu af því tagi sem þar var gert og lyft var grettistaki í þágu gífurlegrar verðmætasköpunar í þjóðarbúinu um áratuga skeið fyrir forgöngu ríkisins. Þetta hefur átt við á fleiri sviðum.
    En þó að mönnum hafi gengið skammlaust til í nokkrum tilvikum, þá er það síður en svo réttlæting fyrir því og nóg til þess að afsaka hitt þegar menn klúðra hlutunum algerlega hvað vinnubrögð og framkvæmd snertir, en það hefur því miður gerst eða hillir í að gerist í mörgum tilvikum hjá hæstv. ríkisstjórn. Einkavæðingarfáninn er rifinn og tættur orðinn og óskaplega neðarlega á stönginni, svo að ekki sé nú meira sagt. Og eitt af því sem þar ber sérstaklega til eru bara óvönduð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, trassaskapur, eins og sá að reyna ekki að ná um þetta einhverju skikkanlegu samkomulagi við starfsmenn. Auðvitað er það svo vitlaust sem nokkuð getur verið, pólitískt og efnislega, ef menn vilja ná árangri í málum af þessu tagi að reyna þá ekki að leggja vinnu í einmitt grundvöll framkvæmdarinnar eins og þann að hafa um það þokkalegan frið við starfsfólkið. En þessi blessuð ríkisstjórn er alveg einstaklega gæfulaus í málum af þessum toga og mætti taka fleiri dæmi heldur en bara einkavæðinguna, t.d. samskipti hæstv. umhvrh. við starfsmenn veiðistjóraembættisins án þess að fara frekar út í þá sálma hér.
    Ég held sem sagt að starfsmannamálin séu í hreinum ólestri og það er ekki við það búandi fyrir Alþingi að vera að afgreiða lagafrumvörp undir þeim kringumstæðum að sambærileg ákvæði þegar settra laga séu fyrir dómstólum vegna þess að fjölmennir hópar telja að á sér sé brotinn réttur með framgöngu stjórnvalda í landinu. Það á við í þessu tilviki þar sem eru málaferli vegna biðlaunaréttinda t.d., ef ég man rétt eru það í því tilviki fyrrum starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins. Það er heldur ekki boðlegt að vita ef málin verða unnin með þessum hætti gagnvart t.d. hlutum eins og aðild að stéttarfélögum, þá megi búast við bullandi átökum og deilum um þau mál. Það á að reyna að leysa svona mál fyrir fram en ekki bara ýta þeim vanda á undan sér og fá hann svo í andlitið þegar að framkvæmdinni kemur. Það er SVR-aðferðin að sitja svo uppi með allt í klúðri og þurfa að reyna að kaupa sig frá vandanum án þess að ég ætli svo sem að lasta það að menn vitkist þó það að menn reyni einhvern veginn að klóra sig í land eins og íhaldsmeirihlutinn í Reykjavík hefur reynt að gera í því máli.
    Þetta hlýt ég alveg sérstaklega að gagnrýna hvað vinnubrögðin snertir, hæstv. forseti, og þetta er önnur meginástæða þess að ég hef mikinn fyrirvara á um stuðning við þetta mál.
    Hinn lýtur svo að einkavæðingaraðgerðinni sem slíkri og þá í meira efnislegum skilningi hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að til að mynda því að meta fyrirtækin og selja þau þar sem slíkt hefur komið til. Það liggur náttúrlega í hlutarins eðli, hæstv. forseti, að sala á fyrirtækjum í okkar litla efnahagskerfi, og ég tala nú ekki um við aðstæður eins og þær sem nú eru uppi, er vandasamt verk, ekki alveg einfalt mál, m.a. vegna þess að það eru litlir fjármunir á lausu í íslenska þjóðarbúinu um þessar mundir, því miður. Og þeir eru ekki margir aðilarnir sem hafa mikla fjármuni lausa og á reiðum höndum og geta nýtt sér þau tilboð sem verið er að gera hverju sinni. Þess vegna er það fyrir það fyrsta þannig að sú hætta blasir við, eins og dæmin sanna, að svokölluð sala ríkisins á fyrirtækjum verði til þess að fákeppni og einhæfni í okkar efnahags- og atvinnulífi aukist en minnki ekki með því að það verði enn samþjöppun á valdi og fjármagni í þjóðfélaginu á fárra hendur. Sú hætta er borðleggjandi vegna þess að eru fyrst og fremst fáir aðilar, þeir hinir sömu og fyrir hafa undirtök í efnahagslífinu og atvinnulífinu, sem geta keypt.
    Í öðru lagi skiptir líka hugarfarið og aðferðin miklu máli. Ef mönnum er slíkt lífsspursmál að bara selja, selja, einkavæða, einkavæða af því bara að menn eru jafnvel tilbúnir til þess að halda nánast útsölu á fyrirtækjunum þá eykst sú hætta enn að miklum mun, ef menn eru ekki tilbúnir til þess eftir atvikum að standa þannig að sölunni að þeir dreifi henni yfir langan tíma og áskilji sér jafnvel rétt til að selja ekki nema ljóst sé að salan til væntanlegra kaupenda tryggi það að eignaraðild verði dreifð, að ekki verði um valda- og eignasamþjöppun að ræða í þjóðfélaginu umfram þá sem fyrir er. Þetta mætti m.a. rifja upp í samhengi við það að í nýlega settum samkeppnislögum er sérstakt ákvæði um það að Samkeppnisstofnun eigi að gera úttekt á einkennum hringamyndunar í íslensku efnahagslífi og skila skýrslu til Alþingis um það mál. Reyndar liggur fyrir þinginu fyrirspurn til hæstv. viðskrh. frá ræðumanni um það hvernig því starfi miði. Það hefur dregist vikum saman að svara þeirri fyrirspurn, sem er bagalegt, en vonandi kemst hún á dagskrá í næsta fyrirspurnatíma eða svo. Það hefði verið æskilegt, svo ekki sé meira sagt, að niðurstöður úr slíkri úttekt hefðu legið fyrir og menn hefðu m.a. haft þær til skoðunar þegar að því kæmi að halda áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja en svo er ekki.
    Þannig er að mögu leyti götóttur sá bakgrunnur sem þarf til að meta forsendur í þessu efni og ég

leyfi mér líka að fullyrða að það sé sérlega vandasamt og þessi mál sérlega viðkvæm við núverandi aðstæður í okkar efnahagsmálum, í þeirri kreppu sem verið hefur og mikið rædd og að mínu mati að talsverðu leyti heimatilbúin vegna rangrar stefnu núverandi ríkisstjórnar í efnahagsmálum, þegar því miður langflest fyrirtæki landsins eiga nóg með sig, eiga nóg með að halda lífi frá degi til dags, liggur mér við að segja, og hafa litla peninga aflögu til að kaupa hlutafé eða ganga inn í tilboð af ríkisins hálfu um einkavæðingu fyrirtækja.
    Um þátttöku almennings þarf ekki að hafa mörg orð. Hún hefur því miður sáralítil verið í tilvikum af þessu tagi. Hæstv. fjmrh. var síðast rétt áðan að vitna til þess að því miður hefðu mjög lítil almenn viðbrögð orðið t.d. við tilboði ríkisins um sölu á hlutabréfum í Þormóði ramma og niðurstaðan orðið sú að einn öflugur kaupandi hefði komið og keypt þann hlut. En það væri að mörgu leyti hin eðlilega og rétta framvinda að hinir eiginlegu eigendur, sem út af fyrir sig eiga fyrirtækin fyrir, þ.e. fólkið í landinu, almenningur, tækju með beinum hætti við sinni eignaraðild og kemur þá upp sú spurning hvort ekki hefði mátt leysa þetta mál með þeim hætti að skipta bara eign þjóðarinnar upp í bréf og senda það hverjum og einum sem ætti í þessum fyrirtækjum þjóðarinnar. Það væri almennileg almenningsvæðing fyrirtækjanna. (Gripið fram í.) Hver sagði . . .  ? Og af því að hér er nálægur sá ágæti maður sem fann upp orðið almenningshlutafélög og á höfundarrétt á því, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, þá er náttúrlega rétt að halda því til haga hér að það er sitt hvað almenningshlutafélög í þeim skilningi sem hann hefur lagt í það orð og lagði til grundvallar þegar hann bjó til það orð og þau ósköp sem eru að gerast í þessu einkavinavæðingarfári hæstv. ríkisstjórnar. Það hefur allt verið meira og minna í skötulíki eins og kunnugt er.
    Svo kemur að því, hæstv. forseti, að þjóðinni er ekkert sama um það hvernig farið er með eignir hennar þegar kemur allt í einu að því að þær á að fara að selja. Í mörgum tilvikum hefur myndast mikið verðmæti í þessum fyrirtækjum þjóðarinnar, sumpart vegna þess að þau hafa kannski haft sérstaka stöðu, notið þess að vera í eigu ríkisins eða hafa jafnvel haft einokunar- eða ráðandi aðstöðu á markaði eða með ýmsum öðrum hætti styrkt sína stöðu og myndað eign. Þau hafa mörg verið vel rekin. Það er feimnisorð og bannorð og má ekki tala um það, það passar ekki inn í frjálshyggjuna að ríkisfyrirtæki hafa verið vel rekin en það er staðreynd samt. Mörg ríkisfyrirtæki hafa verið feiknarlega vel rekin. Byggt sig upp samtímis því að standa vel við sínar skyldur og sinna sínum störfum vel. Ég nefni sem dæmi Póst og síma. Ég tel að fyrirtækið Póstur og sími í eigu þjóðarinnar hafi verið vel rekið fyrirtæki að breyttu breytanda í gegnum tíðina og ekki síst núna sl. ár. Fyrirtækið hefur unnið það þrekvirki að byggja upp tiltölulega nýtískulegt og þróað fjarskiptakerfi á Íslandi. Það hefur unnið það þrekvirki að starfrækja það kerfi með hagstæðari verðskrá heldur en gerist í flestum nálægum löndum. Það er ódýrara að nota síma á Íslandi en í velflestum öðrum Evrópuríkjum og getur varla talist annað en góður árangur við íslenskar aðstæður miðað við strjálbýli og fámenni þjóðarinnar og stórt land. Þetta fyrirtæki hefur náð þeim árangri að eiga allar eignir sínar og fjárfestingu nokkurn veginn skuldlaust og eiginlega algjörlega skuldlaust ef frá er talin fjárfesting Pósts og síma í erlendum fyrirtækjum og samstarfi. Þessar eignir eru metnar upp á sjálfsagt eina 8--10 milljarða króna. Og eitt til viðbótar, hæstv. forseti. Þetta fyrirtæki hefur síðustu árin skilað um 1.000 millj. kr. í ríkissjóð beint. Það hefur skilað eiganda sínum arði svo nemur hærri prósentu heldur en líklega þekkist meðal nokkurs einkafyrirtækis. ( Gripið fram í: Það er engin samkeppni.) Jú, jú, menn geta sagt það og gert sig breiða eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson að það sé engin samkeppni og fyrirtækin njóti þarna einkaleyfa sinna hvað rekstur fjarskiptakerfisins snertir. Það hafa önnur fyrirtæki gert fram á síðustu ár og gera enn mörg hver í Evrópu sem Póstur og sími er borinn saman við. ( Fjmrh.: Hver borgaði ljósleiðarann?) Vill hæstv. fjmrh. ræða það að ljósleiðarinn hafi að hluta til verið borgaður af Ameríkumönnum vegna þeirrar þjónustu sem Póstur og sími hefur tekið að sér að veita hernum eða rekstri ratsjárstöðvanna? Það er alveg hárrétt og hefur ekkert feimnismál verið. Í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar á árunum 1984 til 1986 voru gerðir um þetta samningar milli Pósts og síma og hersins og ég hef ekki verið að láta það liggja í þagnargildi, það hafa frekar verið aðrir sem hafa reynt að breiða yfir það. Það er ekkert til þess að vera montinn eða stoltur af, það er út af fyrir sig rétt. Þetta var fóðrað sem fyrirframgreidd leiga eða fyrirframgreidd afnot af þessum þráðum. Ég er alveg sannfærður um að það hefði ekki breytt neinu um það að Póstur og sími hefði staðið í stykkinu og hann hefði getað lagt þessa ljósleiðara fyrir svona helminginn af þeirri upphæð sem hann er búinn að borga í ríkissjóð sl. 3--4 ár eða svo. Ætli þetta sé ekki fjárfesting upp á kannski 2 milljarða eða svo og það er tveggja, þriggja ára framlag Pósts og síma í ríkissjóð sem hefði þurft og spurning hvort ekki hefði verið meiri mannsbragur á því að leyfa stofnuninni sjálfri að sjá um þessa uppbyggingu heldur en að stunda aronsku í þeim mæli sem þarna var í raun og veru gert.
    En ég hverf ekki frá því að þarna erum við með dæmi um vel rekið fyrirtæki sem hefur myndað mikla eign og þess vegna er það þannig að það er ekki sama hvernig með þessa eign er síðan farið. Þessi eign var t.d. á fyrri tíð mynduð ekki síst í gegnum há afnotagjöld landsbyggðarinnar af símanum. Það hefur sem betur fer tekist á síðustu árum að jafna þann kostnað til mikilla muna þannig að hann er orðinn mjög viðráðanlegur og var gert stórt átak í því í tíð síðustu ríkisstjórnar að jafna þennan mun. En auðvitað hafði langlínugjaldskráin verið stofnuninni drjúg tekjulind eins og hún var úr garði gerð áður. Ef þarna eru 8--10 milljarðar króna sem þjóðin í landinu á, þá er bara ekki sama hvernig með þá eign er farið.
    Það er ekki nema eðlilegt að menn láti heyra í sér ef þeir hafa það á tilfinningunni að af pólitískum ástæðum meira og minna láti menn sér það í léttu rúmi liggja hvort þeir fái sannvirði fyrir slíkar eignir eða ekki af því að það sé stefnumál, pólitískt hugsjónaatriði, að selja þessi fyrirtæki, að afhenda þau einkaaðilum með einhverjum ráðum, jafnvel þó það þurfi að vera á hálfgerðri útsölu. Menn gerast svo óvandir að meðulum að menn sulla slíkum málum í gegn á einhverjum sólarhringum og yfirleitt er gengið frá svona samningum á gamlársdag eða daginn fyrir gamlársdag af því að mönnum liggur svo mikið á að koma því inn í bókhaldið á yfirstandandi almanaksári eins og afgreiðslan var á SR núna rétt fyrir áramótin. Þá liggur svo mikið á að þessum málum er sullað í gegn daginn fyrir gamlársdag og menn taka sér einn til tvo sólarhringa í að ganga frá samningum um viðamikla sölu af þessu tagi sem er auðvitað fáheyrt og þættu léleg vinnubrögð ef einkafyrirtæki eða einkaaðilar ættu í hlut sem væru að gæta sinna hagsmuna.
    Sama mætti segja um Íslenska endurtryggingu og allt það sem var afhent og ef ég man rétt var gengið frá þeim samningum á Þorláksmessu. Það eru aðaldagarnir, gamlársdagur og Þorláksmessa, hjá ríkisstjórninni þegar hún er að einkavæða fyrirtæki. Og þótt svo sé ekki borguð króna fyrr en löngu síðar þá skilst mér að með þessum aðferðum komi menn samningnum yfir á það almanaksár sem undir hann var skrifað. Enda stóð ekki á því að hæstv. sjútvrh. geystist í fjölmiðla þegar hann var búinn að skrifa undir afhendinguna á SR og miklaðist af því að þarna væri á ferðinni stærsta átak í einkavæðingu í tíð ríkisstjórnarinnar eða a.m.k. á því almanaksári.
    Þetta eru ekki vinnubrögð við hæfi. Síðan hefur komið í ljós að þessi fyrirtæki eru gjarnan afhent skömmu áður en gert er heyrinkunnugt um góða afkomu þeirra og haldnir aðalfundir þar sem ákveðið er að greiða út myndarlegan arð. Og hvað gerist þá? Arðurinn rennur til nýrra eigenda þó svo að þeir hafi kannski átt fyrirtækið að nafninu til í einn dag á því ári sem hin góða afkoma kom til og er undirstaða arðgreiðslnanna. Þetta á t.d. við um SR. Og þetta á reyndar við líka um hlutabréf ríkisins í Þormóði ramma. En þar var svo merkilegt sem það er gert fréttnæmt um góða afkomu fyrirtækisins fáeinum sólarhringum eftir að Granda var seldur hluturinn og í kjölfarið fylgdi svo ákvörðun eða tillaga, ég man ekki hvort heldur er enn á þessu stigi, stjórnar um að greiða út myndarlegan arð sem hinn nýi eigandi fær að sjálfsögðu í sinn hlut. Svo segja menn: Þetta gerir ekkert til því að það var tekið tillit til þessa við sölu fyrirtækisins og í verðlagingu þess. Ég spyr: Sér þess stað? Er sala ríkisins á SR með þeim glæsibrag að þess sjáist stað að m.a. hafi verið tekið tillit til í verðlagningunni væntanlegra 65 millj. kr. arðgreiðslna og kaupverðið verið sem því nemur hærra? Það var þá ekki mikið sem þeir ætluðu að borga fyrir fyrirtækið áður, segi ég bara, ef svo er.
    Það var m.a. af þessum ástæðum, hæstv. forseti, sem ég óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun gerði nokkra úttekt á því hvað þyrfti að fást fyrir fyrirtækið Lyfjaverslun ríkisins ef það ætti að seljast. Reyndar lagði ég fyrir Ríkisendurskoðun þrjár skýrar spurningar sem stofnunin treysti sér því miður ekki til að svara alveg á því formi sem ég bað um, en gerði engu að síður gangskör að því og mjög myndarlega að bregðast við og ég hef undir höndum svar sem ég fékk við þeim spurningum. Spurningar voru þessar: Í fyrsta lagi að reiknaður yrði út arður ríkissjóðs af því að eiga og reka fyrirtæki, t.d. annars vegar í 10 ár og hins vegar 25 ár, og yrði þá miðað við afkomu fyrirtækisins á árunum 1989 til 1992 eða 1993 ef upplýsingar lægju orðið fyrir um það ár. Í öðru lagi að reikna út ýmsar kennitölur varðandi reksturinn svo sem arðsemi eigin fjár og því um líkt, þ.e. þá arðsemi sem ríkið hefði af því að eiga og reka þetta fyrirtæki miðað við eign sína í því. Í þriðja lagi að reynt yrði að svara því hvert söluverðið þyrfti að vera á fyrirtækinu í dag miðað við að ríkið ræki það í 25 ár eða 10 ár.
    Því miður er það þannig, hæstv. forseti, að í ljósi reynslunnar er óhjákvæmilegt að draga slíkar upplýsingar fram í dagsljósið áður en eða ef ríkisstjórnin fær heimild til þess að selja fyrirtækin. Það er einfaldlega þannig. Auðvitað hefði orðið erfiðara fyrir ríkisstjórnina að standa að afhendingu á eignarhlut í ónefndum fyrirtækjum eins og hún hefur gert ef svona upplýsingar hefðu legið fyrir. Ég fullyrði það. Hver var t.d. ágóðinn af því fyrir ríkið að selja hlut sinni Íslenskri endurtryggingu?
    Síðan eru það svörin, hæstv. forseti. Ríkisendurskoðun svarar í fyrsta lagi um afkomu Lyfjaverslunarinnar þannig að hún hafi verið eftirfarandi á árabilinu 1989 til og með 1993 en er þar þó um bráðabirgðatölur að ræða. Ég les þetta úr þeim dálki sem er á verðlagi í janúar 1994. Það er hagnaður öll árin og hann er eftirfarandi:
    1989 28,9 millj. kr., 1990 87,4 millj. kr., 1991 56 millj. kr., 1992 70,3 millj. kr. og 1993 52,8 millj. kr. og það er bráðabirgðatala.
    Með öðrum orðum, hæstv. forseti, hagnaður fyrirtækisins á árunum 1989 til 1993 var samkvæmt þessu að meðaltali 59 millj. kr. á ári miðað við fast verðlag. Það er rétt að taka það fram að fyrirtækið greiðir hvorki tekju- né eignarskatt þannig að þess vegna gætu menn ef þeir vilja dregið slíkar tölur frá þessum hagnaðartölum en það skiptir ekki miklu máli þar sem eigandinn var ríkið og er enn þá ríkið. Það er því auðvitað bókhaldslegt atriði hvort ríkið tekur eignarskatt og tekjuskatt af sínum eigin fyrirtækjum eða lætur hagnaðinn koma fram sem eignarmyndun í fyrirtækinu eða með einhverjum öðrum hætti. Það má einu gilda þegar eigandinn er ríkið.
    Þetta er, hæstv. forseti, dálagleg arðsemi á eigin fé því bókfært eigið fé fyrirtækisins var í árslok 1992 355,2 millj. kr. Ég hafði lauslega reiknað það út á hnjám mér í efh.- og viðskn. að þetta væri um 16--17% arðsemi á eigin fé en hafandi þessar afkomutölur í höndunum þá er jafnvel ástæða til að ætla að

sú tala sé hærri. Það er þess vegna ekki dónalegur kostur fyrir okkur eigendurna, fólkið í landinu, að eiga og reka þetta fyrirtæki áfram nema síður sé. Ef svo heldur sem horfir þá er erfitt að koma auga á betri kost fyrir ríkið og augljóst mál að arðsemin er slík að það er betra heldur en til að mynda að taka þessa peninga með sölu á fyrirtækinu og borga niður skuldir vegna þess að arðsemin er mun hærri heldur en nemur vöxtum af lánsfé á markaði eins og þeir gerist núna. Þetta liggur alveg í hlutarins eðli.
    Hitt er ekki síður ljóst að afkoma fyrirtækisins og afkomumöguleikar í þessum rekstri gera sérstakar kröfur um að það sé ekki afhent á undirverði einhverjum á silfurfati heldur sé ekki bara eignin sem slík verðlögð með raunsæjum hætti og fyrir hana borgað heldur líka afkoman sem er í þessum rekstri. Þess vegna er eðlilegt og nauðsynlegt að spyrja sig þeirrar spurningar: Hvað þarf ríkið að fá fyrir fyrirtækið í sölu í dag til þess að það sé jafngóður kostur og sá að eiga það og reka í til dæmis 10 ár eða 25 ár miðað við þessa afkomu? Þeirri spurningu þarf að svara áður en nokkurt vit er í því að fara að selja fyrirtækið. Það mundi venjulegur eigandi að eign auðvitað gera. Auðvitað. Vegna þess að það er ekkert sem knýr okkur til þessarar sölu. Það hlýtur a.m.k. að vera réttlætanlegt að krefjast þess, burt séð frá því hvort menn eru meira eða minna fylgjandi einkavæðingu, að viðskiptaleg sjónarmið ráði þá mati manna á því hvort selt sé eða selt ekki í einstökum tilvikum. Eða er Sjálfstfl. e.t.v. að gera kröfur um annað? Að einhver annarleg sjónarmið eða önnur en viðskiptalegt mat ráði því hvort um sölu sé að ræða eða ekki sölu? Ég spyr. Það þarf að koma fram. Er hæstv. fjmrh. tilbúinn til að gefa hér þá yfirlýsingu að hann telji að það eigi ekki að selja eignarhlut ríkisins í fyrirtæki sem er í góðum rekstri og ber sig og skilar ágætum arði nema söluandvirðið sé það hátt að það sé frá viðskiptalegu sjónarmiði séð jafngóður kostur fyrir ríkið? Getur hæstv. fjmrh. svarað þeirri spurningu með jái? Hann mætti kalla fram í mín vegna ef hann vildi. Eitt einfalt já. Ef það kemur ekki þá hlýt ég náttúrlega að biðja hæstv. fjmrh. að útskýra viðhorf sín almennt í þessum málum. Sporin hræða í þessum efnum og það er ástæða til að fá þetta á hreint. ( Gripið fram í: Viltu endurtaka spurninguna.) Ef hæstv. fjmrh. þarf að heyra svona spurningar tvisvar eða þrisvar til þess að ná þeim þá er auðvitað sjálfsagt mál að gera það. ( Gripið fram í: Það er óhætt að segja já.)
    Ég óska eftir því, hæstv. fjmrh., að því verði svarað, hver er stefna hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnar í þeim efnum þegar kemur að því að meta tvo kosti í tilvikum af þessu tagi, annars vegar selja fyrirtækið eða hins vegar eiga það áfram og reka það um eitthvert árabil í ljósi þess að afkoma þess hefur verið góð og það skilar góðum arði, að þá séu viðskiptaleg sjónarmið og viðskiptalegt mat látið ráða hvort selt er eða ekki. Með öðrum orðum selji ríkið ekki hlut sinn nema verðið sé það gott sem fæst að það sé jafngóður kostur frá viðskiptalegu sjónarmið fyrir ríkið eins og hitt væri að eiga fyrirtækið áfram og ávaxta eignina með góðum og ábatasömum rekstri. ( Fjmrh.: Svarið er já.) Þetta er mjög gott. Þá er sem sagt hægt að treysta því að verði tilboðin hér eftir í ríkisfyrirtækin ekki það góð að það jafngildi því að reka fyrirtækin um einhvern fyrirsjáanlegan tíma og hafa af þeim þann arð sem afkoma þeirra gefur tilefni til þá verði ekki selt. Þá hlýt ég að leyfa mér t.d. að gefa mér að í ljósi þessarar nýju stefnu ríkisstjórnarinnar hefði SR-mjöl ekki verið selt í dag ef ekki hefði boðist betra verð fyrir það en fékkst. Eins og kunnugt er var afkoma fyrirtækisins feiknagóð á sl. ári samanber arðgreiðslur, hagnaður skipti hundruðum milljóna króna og veruleg eignamyndun átti sér stað hjá fyrirtækinu. Afkoman eins og hún blasir við og horfur eru á á þessu ári verður væntanlega sömuleiðis mjög góð og því er ljóst að sá kostur fyrir ríkið að eiga fyrirtæki við þessar aðstæður var í raun og veru afar hagstæður. Ég held að það sé alveg borðleggjandi að það sem ríkið hafði út úr sölunni, sem voru nettó 185 millj. kr. mínus arðgreiðslan sem á að mínu mati að taka inn í þetta mál, og þá standa eftir 120 millj. mínus einkavæðingarkostnaðurinn, gefur ekki tilefni til slíks. Eins og kunnugt er þá tók ríkið á sig skuldir og birgðir sem námu um 550 millj. kr. til þess að greiða fyrir sölunni og þá verður lítið eftir af söluandvirðinu upp á 725 millj. kr. eða hvað það nú var.
    Þetta hlýtur þá að koma til skoðunar í framhaldi af þeim upplýsingum sem ég hef fengið hjá Ríkisendurskoðun um arðsemi þess að eiga fyrirtækið áfram. Nú er það því miður hins vegar þannig að Ríkisendurskoðun telur afar vandasamt að meta í raun og veru væntanlegan hagnað fyrirtækisins og hvað eigi að leggja til grundvallar og fer yfir það í allmörgum liðum sem hafa þurfi í huga þegar þeir hlutir eru metnir, m.a. fjárfestingar í fyrirtækinu að undanförnu, reikningsskilaaðferðir fyrirtækisins o.fl. Engu að síður er þó alveg ljóst og kemur fram í töflu í svarinu að fjárstreymi frá rekstri miðað við gefnar forsendur, t.d. í 10 ár eða 12 ár og hagnaðartölurnar eða afkomuna undanfarið, yrði umtalsvert. Þannig setur Ríkisendurskoðun fram þær forsendur að hagnaður fyrir skatta yrði 31 millj. á þessu ári, 61 millj. 1995, 85 millj. 1996, 105 millj. 1997, 125 millj. 1998, 146 millj. 1999, 199 millj. 2000, 219 millj. 2001, 239 millj. 2002 og 274,2 millj. eftir það árin, 2003--2005. Þessi uppstilling mála byggir m.a. á því að þannig sé fjárfestingin sem fyrirtækið hefur ráðist í að afskrifast og skila sér í betri afkomu á næstu árum. Hagnaður eftir skatta yrði þá á bilinu 16,5 millj. á þessu ári og upp í 175 millj. kr. síðustu árin sem þetta tímabil tæki til. Það er alveg augljóst mál, fjárstreymið frá rekstri yrði auðvitað meira því fyrirtækið hefði þarna umtalsvert fé til að afskrifa sína framkvæmd og sínar fjárfestingar. Menn geta því bara skoðað það og það er sjálfsagt mál að dreifa þessum gögnum til þingmanna, ef menn óska eftir, hvernig dæmið lítur út, miðað við núverandi forsendur og aðstæður, fyrir ríkið að eiga og reka þetta fyrirtæki áfram. Það yrði með öðrum orðum mjólkurkýr fyrir ríkið upp á fleiri tugi milljóna fyrstu árin og upp í 200 og hátt í 300 millj. kr. á síðari hluta tímabilsins og í ljósi afkomunnar undanfarin ár er það alls ekki óraunhæf eða ólíkleg niðurstaða.

    Staða fyrirtækisins er í raun og veru mjög traust. Hlutfall eigin fjár af fjármagni er nú um 70% og eigið fé er komið í um 430 millj. í lok september á sl. ári, hefur aukist sem þessu nemur þegar nýjustu tölur eru teknar inn, en í fskj. með frv. er eingöngu upplýst um eigið fé í árslok 1992. Arðsemi eigin fjár er líka tekin út í fyrirtækinu síðustu þrjú árin og var 20,7% árið 1991 og 23,2% árið 1992. Er það ekki þokkaleg arðsemi, hv. framkvæmdastjóri Verslunarráðs, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson? ( VE: Ég er mjög ánægður með að þú skulir telja þetta þokkalega arðsemi í atvinnulífinu.) Er það ekki þokkaleg arðsemi, spurði ég, þegar hún er komin í 23,2%? Síðan var hún 17,2% fyrstu 9 mánuði ársins 1993. ( VE: Vonandi gæti þetta verið alls staðar í atvinnulífinu.) Ja, það væri betur, en það er nú ekki við þau hörmungarskilyrði sem atvinnulífinu hafa verið sköpuð í tíð þessarar ríkisstjórnar eins og kunnugt er.
    Miðað við þær forsendur sem hér hefur verið gengið út frá og fást, að núvirði fjármagns sem rekstur fyrirtækisins skilar næstu 12 árin sé með eftirfarandi hætti, eins og Ríkisendurskoðun síðan stillir því upp: Miðað við ávöxtunarkröfu 10% yrði núvirði greiðslna 755 millj. kr. á þessum tíma, miðað við 15% ávöxtunarkröfu 568 millj. og 20% 441 millj. Og miðað við þetta þyrfti söluverð að vera a.m.k. 440--755 millj. kr. til þess að það sé einhver efnahagsleg skynsemi í því að láta þetta fyrirtæki frá sér. Og þá er ekki verið að verðleggja sérstaklega eða sjálfstætt viðskiptavild fyrirtækisins heldur eingöngu tekið tillit til hennar í þeim mæli sem hún endurspeglast í góðri afkomu undanfarinna ára eða stöðu þess á markaði. Að öðru leyti er hún ekki seld sérstaklega né aðstaða fyrirtækisins eða möguleikar o.s.frv. Þannig að ég býst við því að margir mundu segja að þar til viðbótar væri eðlilegt að reyna að fá eitthvað fyrir slíka hluti og sjálfsagt mætti færa fyrir því talsverð rök að það væri ekki hægt að tala um gott söluverð á fyrirtækinu fyrr en það væri komið á bilið 755--1.000 millj. kr. Ég býst við því að það sé auðvelt að færa fyrir því sterk rök.
    Auðvitað er það svo að útreikningar á tekjuvirði fyrirtækja eru mjög viðkvæmir fyrir þeim forsendum sem menn gefa sér, það er alveg augljóst mál og í þessu er óvissa og allt það. En lyfjaframleiðslu- og lyfjasölugeirinn hefur nú yfirleitt verið talinn í hópi þess ábatasamasta sem fyrirfinnst í atvinnurekstri á byggðu bóli, bæði hér á Íslandi og annars staðar. Það er að vísu ljóst að það kerfi sem við höfum búið við hefur að nokkru leyti sjálfskammtað fyrirtækjunum afkomu eins og það hefur verið og það er svo sem ekkert víst að menn geti búið við slíkt öryggi áfram eða slíka, liggur mér við að segja, sjálftöku í afkomu og á auðvitað ekki að vera. Hitt er alveg borðleggjandi að staða þessa fyrirtækis er slík á markaði og möguleikar þess eru slíkir, m.a. vegna þeirrar uppbyggingar og fjárfestingar sem þar er búið að ráðast í og þess hvernig fyrirtækið er í stakk búið til að sinna sínum verkum, að þar er eftir miklu að slægjast.
    Þetta, hæstv. forseti, held ég að sé alveg óhjákvæmilegt að fara rækilega yfir og í ljósi þess sem gerst hefur að undanförnu í sambandi við framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessum einkavæðingarmálum þá hlýt ég auðvitað að undirstrika að fyrirvari minn einnig að þessu leyti og okkar alþýðubandalagsmanna er mjög sterkur við þessi mál. Það er ekki hægt að líða það að menn ástundi vinnubrögð og slóðaskap af því tagi sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert í þessum efnum. Almenningur í landinu getur ekki horft upp á það að farið sé með eignir hans á þann hátt sem þarna ber raun vitni. Það er auðvitað alveg merkilegt, hæstv. forseti, af því að það er nú svo að þegar um útgjöld er að ræða hjá ríkinu þá held ég að þar sé orðin okkuð góð kostnaðarvitund, ef svo má segja, gagnvart því að það beri að halda vel utan um þá hluti. Og hæstv. forseti veit manna best að menn leggja mikla vinnu í það, ónefndir menn, t.d. nefndarmenn í fjárln., endurskoðunarmenn ríkisreikninga og aðrir slíkir að fara ofan í saumana á því þegar verið er að ráðstafa fjármunum ríkisins í gegnum útgjöld og rekstur þannig að þá eru jafnvel gerðar í athugasemdum með ríkisreikningi og í athugasemdum endurskoðunarmanna ríkisreikninga miklar athugasemdir út af tiltölulega litlum upphæðum þar sem í hlut eiga rekstrarútgjöld eða fjárveitingar eða ráðstöfun fjármuna svo nemur jafnvel hundruðum þúsunda eða milljónum og þannig á það auðvitað að vera. Það þarf að fara af nákvæmni og smámunasemi yfir þessa hluti því að margt smátt gerir eitt stórt.
    En er þá hægt að líða það, þegar ráðstöfun eigna ríkisins er á ferðinni svo nemur hundruðum milljóna eða milljörðum, að þá geti menn bara sullað þeim málum svona út, tekið sér einn sólarhring í að ganga frá sölu á milljarða fyrirtækjum eins og ekkert sé. Verðleggja þau bara svona, ákveða bara að láta sér detta í hug að rétt sé að afhenda tryggingafélögunum eign ríkisins í endurtryggingu í einu tilvikinu, einhverjum fjárfestum og útgerðarmönnum SR-mjöl í hinu og þriðja aðilanum eignarhlut ríkisins í Þormóði ramma o.s.frv. Gengur það? Hvað á að segja um vinnubrögð af því tagi þegar sterkur kaupandi eins og Akureyrarbær sýnir því áhuga að kaupa SR-mjöl? Biður um nokkra daga í viðbót til að skoða málið betur og skila inn gögnum. 15 þúsund manna kaupstaður. Nei, þá liggur svo á að selja fyrirtækið að slíkri bón er neitað. Bendir það til þess að það sem fyrir mönnum vaki sé fyrst og fremst að fá sannvirði fyrir fyrirtækið eða eitthvað annað? Ég leyfi mér að efast um það. Ég hefði nú haldið að einhver hefði talið ástæðu til þess að taka því fagnandi að sterkur kaupandi og sæmilega myndugur á fjárráð, eins og ég held að Akureyrarkaupstaður hljóti að teljast, sýni áhuga á því að gera tilboð í eignir, þá mundu menn athuga það. Er þar kannski á ferðinni eða ef til vill væntanlegt enn betra tilboð heldur en áður er komið fram eða a.m.k. alvörutilboð, ekki bara tilboð um viðræður. Þá væri slíkt athugað. Nei, því var einfaldlega hafnað. Það lá svona óskaplega á að dagsetja pappírana fyrir áramótin 1993/1994.
    Þetta gengur auðvitað ekki, hæstv. forseti. Og ég verð að leyfa mér að inna eftir því hér, þá örfáu hv. stjórnarliða sem eru viðstaddir umræðuna. Hafa þeir engan móral á köflum yfir því hvernig að þessum málum hefur verið staðið og unnið? Nei. Þeim er bara alveg sama hvernig þessum eignum ríkisins er sullað út, bara ef þetta er einkavætt, bara af því bara. ( VE: Það hefur verið vel að þessu staðið.) Auðvitað er það málið, hæstv. forseti. Þarna eru trúarbragðakennd vinnubrögð á ferðinni. Þetta byggist ekki án neinu raunsæi eða rökhyggju heldur þeim trúarbrögðum og þeim kennisetningum að það sé fyrir öllu að einkavæða og einkarekstur sé alltaf og alls staðar betri en rekstur hins opinbera og þar með skipti ekki svo miklu máli hvað menn fái fyrir þetta. Það megi jafnvel láta þetta fokka á hálfvirði, það geri ekki svo mikið til, ( VE: Fengum við ekki 50% hærra gengi í rammann heldur en þið?) það megi láta þetta vaða á hálfvirði.
    Það er að vísu rétt að búið er að taka myndarlega til hendinni og þeir aðilar sem fyrrv. ríkisstjórn seldi það fyrirtæki hafa staðið sig vel og gert margt myndarlega í þeim rekstri. Þess vegna er þetta orðinn eftirsóttur eignarhlutur í dag og hefði kannski orðið enn eftirsóttari innan skamms, t.d. nokkrum dögum eftir aðalfundinn þegar búið var að segja frá hinum mikla hagnaði og aðrir en Grandi hefðu haft vitneskju um að þarna var á ferðinni fyrirtæki sem var að skila góðri afkomu. Er þá ekki hugsanlegt að einhverjir aðrir hefðu viljað meta þennan fjárfestingarkost? ( Gripið fram í: Það lá fyrir.) Það lá ekkert fyrir um það. Aðilar sem kynnu að hafa hugsað sér að kaupa þessi bréf eða hefðu kannski fengið áhuga á því að kaupa þessi bréf vissu ekkert að í vændum væri ársreikningur frá Þormóði ramma sem sýndi slíka afkomu. Ef þeir af einhverjum ástæðum höfðu ekki borið sig sérstaklega eftir gögnum um það, en hefðu ef til vill fengið þann áhuga nokkrum dögum eftir að gengið var frá sölunni, hvers vegna mátti ekki hinkra fram yfir aðalfundinn? ( VE: Ég vissi um þennan hagnað löngu fyrir áramót.) Já, en þú hefur ekki efni á því að kaupa nokkurn skapaðan hlut, hv. þm., og átt ekki að vera að gjamma hér fram í um slíka hluti, ( PP: Jú, jú, hann er . . .  ) alla vega ekki Þormóð ramma.
    Og ég spyr, hæstv. forseti: Bendir það ekki til þess að eitthvað annað ráði ferðinni heldur en áhugi manna á að fá sem best verð fyrir þessar eignir þegar menn rjúka til og selja hlut ríkisins í fyrirtæki nokkrum dögum áður en það gerir heyrinkunnugt um góða afkomu og mikinn hagnað? Mátti ekki bíða eftir því að ef til vill fengju einhverjir fleiri áhuga á því að kaupa bréf í þessu fyrirtæki þegar fréttir væru komnar fram um jafnglæsilegan árangur í rekstri? Var Grandi ekki tilbúinn til þess að bíða með sitt tilboð? Eða þurfti einmitt að nota tækifærið og drífa kaupin af áður en aðrir vissu um gróða? Og er hugsanlegt að einkavinasjónarmiðin hafi haft þarna einhver áhrif?
    Nú er það svo að það eru stofnanir hér í landinu sem eiga að hafa eftirlit með því að menn stundi ekki innherjaviðskipti og ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma. Það er ekki mitt hlutverk í sjálfu sér. En auðvitað verður að segja alveg eins og er að þetta eykur ekki tiltrú manna eða traust á þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið stunduð þegar svona er að málunum staðið. Ætla ég svo á hinn bóginn ekkert að hafa nema gott um það að segja að Grandi hafi áhuga á því að gerast eignaraðili að fiskvinnslu einhvers staðar annars staðar en hér í Reykjavík. Allt eru þetta hin skrautlegustu mál, hæstv. forseti.
    Ég ætlaði svo í lokin, hæstv. forseti, að víkja aftur lítillega að hlutum sem snúa beint að álitamálum sem tengjast breytingu á rekstrarformi þessa einstaka fyrirtækis, Lyfjaverslunar ríkisins, og lýsa þeim sjónarmiðum mínum sem ollu því m.a. að ég hafði og hef verulegar efasemdir um að það sé skynsamlegt að fara sér hratt í því að breyta fyrirtækinu, það hefur að mörgu leyti sérstöku hlutverki að gegna. Og það kom auðvitað rækilega fram í yfirferð nefndarinnar á málinu og ég leyfi mér að halda því fram að menn hafi ekki, blessuð einkavæðingarnefndin eða hvaða apparat sem það nú var á vegum ríkisstjórnarinnar --- en eins og kunnugt er þá er kippa af aðstoðarmönnum hæstv. ráðherra í einhverri einkavæðingarnefnd, sem rekur trippin í þessu máli --- gert sér grein fyrir því að um margt hefur þetta fyrirtæki haft sérstöðu og haft mikilvægu og sérstöku hlutverki að gegna.
    Þar má í fyrsta lagi nefna að þetta fyrirtæki er samningsbundið um það að annast með tilteknum hætti birgðahald á lyfjum í landinu þannig að ákveðnu lágmarksöryggi sé haldið uppi í þeim efnum. Þetta hefur fyrirtækið gert á eigin reikning, ef svo má að orði komast, án sérstakra fjárveitinga til þess og tryggt að tilteknu lágmarksöryggi sé haldið þarna uppi. Þetta hefur hæstv. ríkisstjórn eða stjórnarmeirihlutinn viðurkennt að þurfi að skoða og það kemur fram í þeirri brtt. ákvæði til bráðabirgða sem flutt er af efh.- og viðskn., að það sé auðvitað ekki hægt að sulla þessu fyrirtæki út á markaðinn og í hendur einkaaðila án þess að fyrir því sé séð með einhverjum hætti hvernig frá þessum málum er gengið. Nú eru auðvitað önnur lög sem í sjálfu sér eiga við um almannavarnir og hagvarnir og hin merka stofnun Hagvarnaráð er starfandi, vonandi, og fundar, en í því sitja ráðuneytisstjórar og hafa það hlutverk að kortleggja almennt birgðahald matvöru, olíu og annarra slíka hluti í landinu og sjá um að þau mál séu í þokkalegu standi og ef óvissutímar ganga yfir eins og Persaflóastríðið eða annað því um líkt þá er fundað í Hagvarnaráði og menn tékka á olíubirgðunum o.s.frv. Það er auðvitað sá aðili sem hefur það hlutverk almennt séð að sjá um að þessi mál séu í lagi þannig að vel gæti komið til þess að menn á þeim bæ eða aðrir aðilar tækju að sér að sjá um það með einhverjum almennum ráðstöfunum að þessir hlutir væru í lagi. Auðvitað þarf að vera fyrir hendi nægjanlegt öryggi á þessu sviði og ég held að það hafi í raun og veru verið mjög eðlilega og skynsamlega og með hagkvæmum hætti fyrir því séð á meðan Lyfjaverslun ríkisins annaðist það hlutverk sem hún enn gerir. Þetta er það fyrsta. (Gripið fram í.) Þannig að það má segja, hv. þm., að Lyfjaverslun ríkisins hafi verið svona ákveðið forðabúr, ákveðinn forðagæsluaðili í þessu efni.

    Í öðru lagi, og það er mjög mikilvægt, er Lyfjaverslun ríkisins eini framleiðandinn í landinu á svonefndum dreypilyfjum, stungulyfjum fyrir sjúkrahús og stofnanir. Það er mjög mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækisins, af tveim ástæðum sérstaklega: Annars vegar að það skapar auðvitað mikið öryggi að hafa aðila í landinu sem hefur framleiðslugetu á þessum lyfjum. Þarf nú ekki að nefna annað en það ef samgöngur teppast eða náttúruhamfarir ganga yfir eða annað því um líkt, þá er auðvitað mjög mikilvægt að slík framleiðsla sé fyrir hendi í landinu og birgðir á vegum þess aðila. Einnig skiptir máli að framleiðsla Lyfjaverslunarinnar á dreypilyfjum tryggir að við höfum á hendi okkar a.m.k. samkeppni við þann innflutning sem á móti kemur frá útlöndum. Og það er ekki nokkur vafi á því að það getur verið liður í því að ná niður lyfjaverðinu hér að við þurfum ekki að vera t.d. einum innflutningsaðila ofurseldir um þetta eins og hefur gerst í vissum nágrannalöndum okkar. En þetta er eins og allir vita mikill fákeppnismarkaður og sú hætta alls staðar yfirvofandi að risarnir á þessum markaði skipti honum á milli sín og einn þeirra taki t.d. að sér Norðurlöndin, eins og borið hefur á í okkar nágrannalöndum. Þar kemur þá til framleiðsla okkar eigin fyrirtækis á þessum lyfjum sem er mjög mikilsverð þessu sambandi og hefur án efa skilað árangri að þessu leyti.
    Það er auðvitað líka ljóst að það er báðum aðilum hagkvæmt, sjúkrahúsunum og Lyfjaversluninni, að þeir geti átt með sér samstarf og samskipti um þessi mál, að í landinu sé framleiðandi með sérþekkingu á þessum málum sem sjúkrahúsin geta skipt við og leitað til. Þetta gerir það líka að verkum að sjúkrahúsin sjálf þurfa e.t.v. síður en ella að vera með birgðir af þessum lyfjum þar sem birginn, sem mér finnst ljótt orð, sá sem birgir sjúkrahúsin upp með þessum vörum er í landinu og annast framleiðsluna og birgðahaldið sjálfur.
    Í þriðja lagi er svo ljóst að Lyfjaverslun ríkisins hefur þjónað hlutverki í raun og veru sem fræðslustofnun og uppeldis- og þjálfunarstöð í lyfjaframleiðslu og kennslu á þessu sviði og fyrir því hlutverki þarf líka að sjá. Þannig að allir þessir þættir eru þarna til staðar og reyndar margir fleiri sem ég tel að þurfi að skoða og hyggja að áður en menn vaða út í einhverjar vitleysur í þessum efnum og rjúka til og fara að einkavæða þetta af gáleysi og hugsunarleysi og láta svo kylfu ráða kasti hvað verður um þessi atriði sem ég hef hér nefnt.
    Þetta allt saman plús það sem ég hafði á undan sagt um samskipti við starfsmenn og vinnubrögð við einkavæðingu gefa mér tilefni til þess að leggja á það þunga áherslu að það á að fara mjög gætilega í þessu máli og ana þar ekki að neinu. Þar er vissulega framför. Sú brtt. sem nú liggur fyrir er um að ekki verði þó gengið lengra, nema afla til þess sérstakrar lagaheimildar, en að selja allt að helmingi af eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu. Það kynni vel að reynast brúklegt fyrirkomulag um einhvern tíma a.m.k. að fyrirtækið yrði opnað í áföngum og fleiri aðilum gert kleift að gerast þar eigendur á móti ríkinu, sem hefði þá hönd í bagga og væri eignaraðili og sæi um að fyrir þessum þáttum, sem ég hef m.a. sérstaklega tæpt á, yrði vel séð.
    Það er því í mínum huga rétt að gera á því allverulegan greinarmun, hæstv. forseti, hvort eingöngu er á ferðinni breyting fyrirtækisins, formbreyting yfir í hlutafélag og jafnvel óveruleg eða engin sala á eignarhlut ríkisins út úr því, eða hitt, sem maður óttast auðvitað að fyrir ríkisstjórninni vaki, að lauma fyrst heimildinni í gegn og reyna svo bara að sulla fyrirtækinu einhvern veginn í burtu, afhenda það með einhverjum hætti einkavinum eða öðrum og láta verðið mæta afgangi. Það er mikill munur á. Það er löng leið frá því að breyta þessu í hlutafélag, því stundum er látið í veðri vaka að það sé aðalatriðið í málinu af því að hlutafélagsformið sé svo miklu fullkomnara og betra og þetta hf. aftan við skipti slíkum sköpum, m.a. um ábyrgð manna í rekstri, menn taki bara eðlilsbreytingu, sömu starfsmenn gjarnan, ef þeir fá þetta hf. aftan við nafnið. Beysnari en það er nú málflutningurinn stundum ekki. En látum nú vera ef það væri mönnum alveg sérstakt sáluhjálparatriði, ef menn þá að hinu leytinu til væru tilbúnir til þess að skoða alla þessa þætti mjög vandlega og fara sér hægt í því að standa þarna fyrir vanhugsuðum breytingum sem væru ekki í þágu almannahagsmuna eða almannaheilla.
    Svo er það einnig mikið atriði sem hér var líka tæpt á áður, bæði af mér og fleirum, hvernig yrði þá rekstrarformið um það fyrirtæki og hverjir yrðu eigendurnir? Yrði það eiginlegt almenningshlutafélag í skilningi hv. þm. Eyjólfs Konráðs eða yrði það einkavinahlutafélag, fámennishlutafélag eða yrðu þar ráðandi öfl í fjármálaheiminum, Kolli frændi eða aðrir slíkir, sem yrðu þar með undirtökin?
    Það er líka rétt að minnast þess að í lyfjadreifingu og lyfjaframleiðslu er hér á Íslandi, sem og því miður víðast annars staðar, alveg sérstaklega ástæða til að vera á verði gagnvart fákeppni og einokun. Lyfjahringirnir eru mjög harðdrægir í sinni hagsmunagæslu. Þeir eru alþekktir að því að ganga langt í að skipta mörkuðum á milli sín og ástunda fákeppnisvinnubrögð í viðskiptum alveg út á ýtrustu mörk. Og það er auðvitað stutt í það að maður spyrji að því, hverjir yrðu kaupendurnir hér? Nú er að vísu svo að menn eru með einhvern móral í þessu tilviki og það kemur fram í fskj. með frv., frekar heldur en það sé beinlínis ( Gripið fram í: Það er í greininni.) í lagagreininni sjálfri, sem er líklega tilfellið, að þeir skuli gæta við sölu að tryggð verði samkeppni á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja. Það skuli gæta að því. Þetta bendir þó til þess að menn hafi einhverja meðvitund um að það er ekki alveg sama hvernig að þess yrði staðið. Það er auðvitað gott og fagnaðarefni.
    Ég les út úr þessari grein eða mundi gjarnan vilja lesa út úr henni að menn séu að segja að það væri kannski ekki heppilegt að Pharmaco/Delta keypti fyrirtækið, gleypti það, það væri kannski ekki heppilegt. En auðvitað er spurning hvort mönnum dugar svona orðalag, sérstaklega í ljósi reynslunnar. Erum við tilbúnir til þess að skoða það að ganga lengra og setja það beinlínis inn í lögin og láta það þá fylgja sem kvöð eða með einhverjum hætti við söluna að það megi enginn einn einstakur aðili eiga þarna meira en t.d. 5--10% þannig að það verði tryggt með slíkum hætti að ef eða að svo miklu leyti sem fyrirtækið yrði opnað og hlutir seldir, að þá yrði sú eignaraðild dreifð? Því ekki það? Það væri meira hald í slíku heldur en því orðalagi sem hér er á ferðinni, þó það sé út af fyrir sig fróðlegt og nokkuð merkilegur vitnisburður um það að menn eru þó svona með einhverja meðvitund gagnvart þessum þáttum.
    Hæstv. forseti. Ég hef þá farið yfir bæði efnisatriði og kringumstæður í þessu máli og gert grein fyrir því með nokkuð rækilegum hætti hvernig fyrirvara mínum og okkur alþýðubandalagsmanna er háttað í þessu máli. Eins og ég sagði frá í upphafi þá skýrði ég frá því í efh.- og viðskn. að það væru miklar efasemdir í mínum flokki um þetta mál og ég ætti alveg eins von á því að einhverjir a.m.k. af þingmönnum Alþb. mundu leggjast gegn þessari breytingu, jafnvel þó að breytingar yrðu á málinu til bóta. Þannig að það kemur a.m.k. ekki meðnefndarmönnum mínum á óvart. Ég hef síðan gert grein fyrir þeim aðstæðum sem voru þegar málið var tekið út úr nefnd eða unnið í nefndinni í febrúarmánuði s.l. og að nokkuð vatn er til sjávar runnið síðan. Það hafa m.a. orðið okkur vonbrigði sem hjá hverjum voru þá vaktar vonir um að í vændum væru betri samskipti ríkisins og opinberra starfsmanna um þeirra mál að í þeim hlutum hefur ekkert gerst og það hlýtur að kalla á og vera tilefni til endurmats á málinu eins og það liggur fyrir. Ég mun þess vegna óska eftir því að efh.- og viðskn. taki málið aftur til skoðunar milli 2. og 3. umr. og fari yfir það og aðstæðurnar eins og þær liggja nú fyrir í málinu og áskil mér allan rétt og okkur alþýðubandalagsmönnum til að endurmeta afstöðu okkar í ljósi þess hver staðan nú er eða þá verður.