Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 19:06:46 (5978)


[19:06]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er margt rétt sem sagt var um ágæt vinnubrögð í efh.- og viðskn. Þau hafa lengi verið og eru ágæt og það hefur oft tekist þar góð samstaða um afgreiðslu mála og þurfti ekki í sjálfu sér formennsku stjórnarandstæðings til. Ég minni t.d. á að í fyrra afgreiddum við viðamikil mál í samkomulagi eins og samkeppnislög. En það hefur síður en svo breyst til hins verra að fá þar til forustu hv. 1. þm. Austurl. Og það var í þeim anda sem unnið var að þessu máli og m.a. þess vegna er nú fyrir að fara stuðningi með fyrirvara við málið vegna þess að því er þó breytt til bóta. En ég vona að hv. þm. hafi ekkert misskilið það sem ég sagði í minni ræðu. Ég áskil mér allan rétt í því sambandi í ljósi þess hvernig málin hafa þróast á síðustu vikum.
    Auðvitað á að vera þokkalegur arður af rekstri fyrirtækja. Það er ekkert ágreiningsmál við hv. þm., enda eiga fyrirtækin að borga skatta og sómasamlegt kaup og skaffa atvinnu. Það geta þau m.a. gert ef þau skila svona sæmilegum arði.