Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 19:11:40 (5982)


[19:11]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla því, hv. þm., að ég hafi eitthvað misskilið eða ekki áttað mig á undirliggjandi hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar í sambandi við einkavæðingu. Ég held að ég hafi gert það þó ég hafi kannski ekki sett minn skilning á því fram með jafnskörpum hætti og hv. þm. Páll Pétursson gerði hér og að mörgu leyti hnyttilega. Eins og þetta birtist okkur er það alveg hárrétt. Eins og þetta birtist okkur í framkvæmd núna í nokkrum tilvikum er þetta auðvitað forkastanleg einkavinaafhending á almannaeigum og hún gengur ekki. Og ástæðan fyrir því að ég lagði m.a. í það vinnu og hef dregið saman upplýsingar um hvaða verð þyrfti að fá fyrir Lyfjaverslunina ætti að selja hana með einhverju viti er m.a. sú að reyna að fyrirbyggja að slík afhending á undirverði til einkavina geti átt sér stað fyrir opnum tjöldum svo að segja. Það gengur auðvitað ekki og þjóðin er búin að fá yfir sig nóg af þessu. Hún er hneyksluð og bullandi reið yfir því sem hefur verið að gerast í þessum efnum og það er auðvitað hlutverk okkar hér að bera þá tilfinningu hennar og þann málflutning inn á þingið.