Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 19:13:01 (5983)


[19:13]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel nú að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefði komist af með styttri ræðu. Auðvitað verður Lyfjaverslun ríkisins afhent eða þessi hlutabréf. Þetta frv. hefur skánað í efh.- og viðskn., skánað til muna, vegna þess að það þarf að bera söluna á seinni partinum af hlutabréfunum undir Alþingi enn á ný. Það verður sennilega gert með því að læða inn ákvæði í heimildagrein, 6. gr. fjárlaga, kannski um næstu jól. En auðvitað verður helmingurinn af þessu eða þau hlutabréf sem ríkisstjórnin fær þarna tækifæri til að selja, þau verða auðvitað afhent Pharmaco, Delta eða hvað það nú heitir. Síðan samþykkir meiri hlutinn hér í 6. gr. fjárlaga að taka seinni partinn, heimild til að selja þetta allt og þá er dæmið fullnustað.
    Ef ég væri alþýðubandalagsmaður mundi ég ekki tala mikið um Þormóð ramma, en ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu hér.